Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 143

143 Davíðssálmur. Drottinn, heyr þú bæn mína, ljá eyra grátbeiðni minni í trúfesti þinni, bænheyr mig í réttlæti þínu.

Gakk eigi í dóm við þjón þinn, því að enginn er réttlátur fyrir augliti þínu.

Óvinurinn eltir sál mína, slær líf mitt til jarðar, lætur mig búa í myrkri eins og þá sem löngu eru dánir.

Andi minn örmagnast í mér, hjarta mitt er agndofa hið innra í mér.

Ég minnist fornra daga, íhuga allar gjörðir þínar, ígrunda verk handa þinna.

Ég breiði út hendurnar í móti þér, sál mín er sem örþrota land fyrir þér. [Sela]

Flýt þér að bænheyra mig, Drottinn, andi minn örmagnast, byrg eigi auglit þitt fyrir mér, svo að ég verði ekki líkur þeim, er gengnir eru til grafar.

Lát þú mig heyra miskunn þína að morgni dags, því að þér treysti ég. Gjör mér kunnan þann veg, er ég á að ganga, því að til þín hef ég sál mína.

Frelsa mig frá óvinum mínum, Drottinn, ég flý á náðir þínar.

10 Kenn mér að gjöra vilja þinn, því að þú ert minn Guð. Þinn góði andi leiði mig um slétta braut.

11 Veit mér að lifa, Drottinn, sakir nafns þíns, leið mig úr nauðum sakir réttlætis þíns.

12 Lát þú óvini mína hverfa sakir trúfesti þinnar, ryð þeim öllum úr vegi, er að mér þrengja, því að ég er þjónn þinn.

Jeremía 32:1-9

32 Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni á tíunda ríkisári Sedekía konungs í Júda, það var átjánda ríkisár Nebúkadresars.

Þá sat her Babelkonungs um Jerúsalem, en Jeremía spámaður var í varðhaldi í varðgarðinum, sem heyrir til hallar Júdakonungs.

En Sedekía Júdakonungur hafði látið setja hann inn með þeim ummælum: "Hví spáir þú og segir: Svo segir Drottinn: Sjá, ég sel þessa borg í hendur Babelkonungi, að hann vinni hana,

og Sedekía Júdakonungur mun ekki komast undan valdi Kaldea, heldur mun hann áreiðanlega verða seldur á vald Babelkonungi, og hann mun tala við hann munni til munns og sjá hann augliti til auglitis,

og til Babýlon mun hann flytja Sedekía, og þar mun hann verða, uns ég vitja hans _ segir Drottinn. Þegar þér berjist við Kaldea, munuð þér enga sigurför fara?"

Jeremía svaraði: "Orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

Sjá, Hanameel, sonur Sallúms föðurbróður þíns, mun til þín koma og segja: ,Kaup þú akur minn í Anatót, því að þú átt innlausnarréttinn að kaupa hann.`

Og Hanameel frændi minn kom til mín í varðgarðinn, eins og Drottinn hafði fyrir sagt, og sagði við mig: ,Kaup þú akur minn í Anatót, sem er í Benjamínslandi, því að þú átt erfða- og innlausnarréttinn _ kaup þú hann!` Þá sá ég, að það var orð frá Drottni,

keypti akurinn í Anatót af Hanameel frænda mínum og vó honum út andvirðið, seytján sikla silfurs.

Jeremía 32:36-41

36 Og nú _ fyrir því segir Drottinn, Ísraels Guð, svo um þessa borg, er þér segið að seld sé á vald Babelkonungs með sverði, hungri og drepsótt:

37 Sjá, ég safna þeim saman úr öllum þeim löndum, þangað sem ég hefi rekið þá í reiði minni og heift og í mikilli gremi, og læt þá snúa aftur hingað og búa hér óhulta.

38 Þá skulu þeir vera mín þjóð og ég skal vera þeirra Guð,

39 og ég vil gefa þeim eitt hjarta og eina breytni, svo að þeir óttist mig alla daga, þeim sjálfum til heilla og sonum þeirra eftir þá.

40 Og ég vil gjöra við þá eilífan sáttmála, að ég muni aldrei snúa frá þeim með velgjörðir mínar, og ég vil leggja ótta fyrir mér í hjörtu þeirra, til þess að þeir víki ekki frá mér.

41 Og það skal verða unun mín að gjöra vel við þá, og ég mun gróðursetja þá í þessu landi í trúfesti, af öllu hjarta og af allri sálu.

Matteusarguðspjall 22:23-33

23 Sama dag komu til hans saddúkear, en þeir neita því, að upprisa sé til, og sögðu við hann:

24 "Meistari, Móse segir: ,Deyi maður barnlaus, þá skal bróðir hans ganga að eiga konu bróður síns og vekja honum niðja.`

25 Hér voru með oss sjö bræður. Sá fyrsti kvæntist og dó. Hann átti engan niðja og eftirlét því bróður sínum konuna.

26 Eins varð um næsta og þriðja og þá alla sjö.

27 Síðast allra dó konan.

28 Kona hvers þeirra sjö verður hún í upprisunni? Allir höfðu þeir átt hana."

29 En Jesús svaraði þeim: "Þér villist, því að þér þekkið ekki ritningarnar né mátt Guðs.

30 Í upprisunni kvænast menn hvorki né giftast. Þeir eru sem englar á himni.

31 En um upprisu dauðra hafið þér ekki lesið það sem Guð segir við yður:

32 ,Ég er Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs.` Ekki er hann Guð dauðra, heldur lifenda."

33 En mannfjöldinn hlýddi á og undraðist mjög kenningu hans.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society