Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
146 Halelúja. Lofa þú Drottin, sála mín!
2 Ég vil lofa Drottin meðan lifi, lofsyngja Guði mínum, meðan ég er til.
3 Treystið eigi tignarmennum, mönnum sem enga hjálp geta veitt.
4 Andi þeirra líður burt, þeir verða aftur að jörðu, á þeim degi verða áform þeirra að engu.
5 Sæll er sá, er á Jakobs Guð sér til hjálpar, sá er setur von sína á Drottin, Guð sinn,
6 hann sem skapað hefir himin og jörð, hafið og allt sem í því er, hann sem varðveitir trúfesti sína að eilífu,
7 sem rekur réttar kúgaðra og veitir brauð hungruðum. Drottinn leysir hina bundnu,
8 Drottinn opnar augu blindra, Drottinn reisir upp niðurbeygða, Drottinn elskar réttláta.
9 Drottinn varðveitir útlendingana, hann annast ekkjur og föðurlausa, en óguðlega lætur hann fara villa vegar.
10 Drottinn er konungur að eilífu, hann er Guð þinn, Síon, frá kyni til kyns. Halelúja.
17 Ég mun færa þér gull í stað eirs og silfur í stað járns, eir í stað trjáviðar og járn í stað grjóts. Ég gjöri friðinn að valdstjórn þinni og réttlætið að valdsmanni þínum.
18 Eigi skal framar heyrast getið um ofríki í landi þínu, né um tjón og tortíming innan landamerkja þinna. Þú skalt kalla Hjálpræði múra þína og Sigurfrægð hlið þín.
19 Þú skalt ekki framar hafa sólina til að lýsa þér um daga, og tunglið skal ekki skína til að gefa þér birtu, heldur skal Drottinn vera þér eilíft ljós og Guð þinn vera þér geislandi röðull.
20 Þá mun sól þín ekki framar ganga undir og tungl þitt ekki minnka, því að Drottinn mun vera þér eilíft ljós og hörmungardagar þínir skulu þá vera á enda.
21 Og lýður þinn _ þeir eru allir réttlátir, þeir munu eiga landið eilíflega: þeir eru kvisturinn, sem ég hefi gróðursett, verk handa minna, er ég gjöri mig vegsamlegan með.
22 Hinn minnsti skal verða að þúsund og hinn lítilmótlegasti að voldugri þjóð. Ég, Drottinn, mun hraða því, þegar að því kemur.
27 Þá er Jesús hélt þaðan, fóru tveir blindir menn eftir honum og kölluðu: "Miskunna þú okkur, sonur Davíðs."
28 Þegar hann kom heim, gengu blindu mennirnir til hans. Jesús spyr þá: "Trúið þið, að ég geti gjört þetta?" Þeir sögðu: "Já, herra."
29 Þá snart hann augu þeirra og mælti: "Verði ykkur að trú ykkar."
30 Og augu þeirra lukust upp. Jesús lagði ríkt á við þá og sagði: "Gætið þess, að enginn fái að vita þetta."
31 En þeir fóru og víðfrægðu hann í öllu því héraði.
32 Þegar þeir voru að fara, var komið til hans með mállausan mann, haldinn illum anda.
33 Og er illi andinn var út rekinn, tók málleysinginn að mæla. Mannfjöldinn undraðist og sagði: "Aldrei hefur þvílíkt sést í Ísrael."
34 En farísearnir sögðu: "Með fulltingi höfðingja illra anda rekur hann út illu andana."
by Icelandic Bible Society