Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
146 Halelúja. Lofa þú Drottin, sála mín!
2 Ég vil lofa Drottin meðan lifi, lofsyngja Guði mínum, meðan ég er til.
3 Treystið eigi tignarmennum, mönnum sem enga hjálp geta veitt.
4 Andi þeirra líður burt, þeir verða aftur að jörðu, á þeim degi verða áform þeirra að engu.
5 Sæll er sá, er á Jakobs Guð sér til hjálpar, sá er setur von sína á Drottin, Guð sinn,
6 hann sem skapað hefir himin og jörð, hafið og allt sem í því er, hann sem varðveitir trúfesti sína að eilífu,
7 sem rekur réttar kúgaðra og veitir brauð hungruðum. Drottinn leysir hina bundnu,
8 Drottinn opnar augu blindra, Drottinn reisir upp niðurbeygða, Drottinn elskar réttláta.
9 Drottinn varðveitir útlendingana, hann annast ekkjur og föðurlausa, en óguðlega lætur hann fara villa vegar.
10 Drottinn er konungur að eilífu, hann er Guð þinn, Síon, frá kyni til kyns. Halelúja.
9 Fyrir því er rétturinn fjarlægur oss og réttlætið kemur ekki nálægt oss. Vér væntum ljóss, en það er myrkur, væntum dagsbirtu, en göngum í niðdimmu.
10 Vér þreifum fyrir oss, eins og blindir menn með vegg, fálmum eins og þeir, sem misst hafa sjónina. Oss verður fótaskortur um hábjartan daginn eins og í rökkri, í blóma lífsins erum vér sem dauðir menn.
11 Vér rymjum allir sem birnir, kurrum eins og dúfur. Vér væntum réttar, en hann fæst ekki, væntum hjálpræðis, en það er langt í burtu frá oss.
12 Afbrot vor eru mörg frammi fyrir þér og syndir vorar vitna í gegn oss, því að afbrot vor eru oss kunn og misgjörðir vorar þekkjum vér.
13 Vér höfum horfið frá Drottni og afneitað honum og vikið burt frá Guði vorum. Vér höfum látið oss ofríki og fráhvarf um munn fara, vér höfum upphugsað og mælt fram af hjarta voru lygaorð.
14 Og rétturinn er hrakinn á hæl, og réttlætið stendur langt í burtu, því að sannleikurinn hrasaði á strætunum og hreinskilnin kemst ekki að.
15 Sannleikurinn er horfinn, og sá sem firrist það, sem illt er, verður öðrum að herfangi. Og Drottinn sá það, og honum mislíkaði réttleysið.
16 Og hann sá að þar var enginn, og hann undraðist, að enginn vildi í skerast. En þá hjálpaði honum armleggur hans, og réttlæti hans studdi hann.
17 Hann íklæddist réttlætinu sem pansara og setti hjálm hjálpræðisins á höfuð sér. Hann klæddist klæðum hefndarinnar sem fati og hjúpaði sig vandlætinu eins og skikkju.
18 Eins og menn hafa unnið til, svo mun hann gjalda: mótstöðumönnum sínum heift og óvinum sínum hefnd, fjarlægum landsálfum endurgeldur hann.
19 Menn munu óttast nafn Drottins í frá niðurgöngu sólar og dýrð hans í frá upprás sólar. Já, hann brýst fram eins og á í gljúfrum, er andgustur Drottins knýr áfram.
9 En Sál blés enn ógnum og manndrápum gegn lærisveinum Drottins. Gekk hann til æðsta prestsins
2 og beiddist bréfa af honum til samkundanna í Damaskus, að hann mætti flytja í böndum til Jerúsalem þá, er hann kynni að finna og væru þessa vegar, hvort heldur karla eða konur.
3 En þegar hann var á ferð sinni kominn í nánd við Damaskus, leiftraði skyndilega um hann ljós af himni.
4 Hann féll til jarðar og heyrði rödd segja við sig: "Sál, Sál, hví ofsækir þú mig?"
5 En hann sagði: "Hver ert þú, herra?" Þá var svarað: "Ég er Jesús, sem þú ofsækir.
6 En statt upp og gakk inn í borgina, og þér mun verða sagt, hvað þú átt að gjöra."
7 Förunautar hans stóðu orðlausir. Þeir heyrðu að vísu raustina, en sáu engan.
8 Sál reis á fætur, en þegar hann lauk upp augunum, sá hann ekkert. Þeir leiddu hann við hönd sér inn í Damaskus.
9 Þrjá daga var hann sjónlaus og át hvorki né drakk.
10 Í Damaskus var lærisveinn nokkur, sem hét Ananías. Við hann sagði Drottinn í sýn: "Ananías." Hann svaraði: "Hér er ég, Drottinn."
11 Drottinn sagði við hann: "Far þegar í stræti það, sem kallað er Hið beina, og í húsi Júdasar skaltu spyrja eftir manni frá Tarsus, er heitir Sál. Hann er að biðja.
12 Og hann hefur í sýn séð mann, Ananías að nafni, koma inn og leggja hendur yfir sig, til þess að hann fái aftur sjón."
13 Ananías svaraði: "Drottinn, heyrt hef ég marga segja frá manni þessum, hve mikið illt hann hefur gjört þínum heilögu í Jerúsalem.
14 Og hér fer hann með vald frá æðstu prestunum að færa í bönd alla þá, sem ákalla nafn þitt."
15 Drottinn sagði við hann: "Far þú, því að þennan mann hef ég valið mér að verkfæri til þess að bera nafn mitt fram fyrir heiðingja, konunga og börn Ísraels,
16 og ég mun sýna honum, hversu mikið hann verður að þola vegna nafns míns."
17 Þá fór Ananías af stað, gekk inn í húsið og lagði hendur yfir hann og mælti: "Sál, bróðir, Drottinn hefur sent mig, Jesús, sá er birtist þér á leið þinni hingað. Þú átt að fá aftur sjón þína og fyllast heilögum anda."
18 Jafnskjótt var sem hreistur félli af augum hans, hann fékk aftur sjónina og lét þegar skírast.
19 Síðan neytti hann matar og styrktist. Sál var nokkra daga hjá lærisveinunum í Damaskus
20 og tók þegar að prédika í samkunduhúsunum, að Jesús væri sonur Guðs.
by Icelandic Bible Society