Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
16 Drottinn sagði við Samúel: "Hversu lengi ætlar þú að vera sorgmæddur út af Sál, þar sem ég hefi þó hafnað honum og svipt hann konungdómi yfir Ísrael? Fyll þú horn þitt olíu og legg af stað; ég sendi þig til Ísaí Betlehemíta, því að ég hefi kjörið mér konung meðal sona hans."
2 Samúel svaraði: "Hversu má ég fara? Frétti Sál það, mun hann drepa mig." En Drottinn sagði: "Tak þú með þér kvígu og segðu: ,Ég er kominn til þess að færa Drottni fórn.`
3 Og bjóð þú Ísaí til fórnarmáltíðarinnar, og ég skal sjálfur láta þig vita, hvað þú átt að gjöra, og þú skalt smyrja mér þann, sem ég mun segja þér."
4 Samúel gjörði það, sem Drottinn sagði. Og er hann kom til Betlehem, gengu öldungar borgarinnar í móti honum hræddir í huga og sögðu: "Kemur þú góðu heilli?"
5 Hann svaraði: "Já, ég er kominn til þess að færa Drottni fórn. Helgið yður og komið með mér til fórnarmáltíðarinnar." Og hann helgaði Ísaí og sonu hans og bauð þeim til fórnarmáltíðarinnar.
6 En er þeir komu, sá Samúel Elíab og hugsaði: "Vissulega stendur hér frammi fyrir Drottni hans smurði."
7 En Drottinn sagði við Samúel: "Lít þú ekki á skapnað hans og háan vöxt því að ég hefi hafnað honum. Guð lítur ekki á það, sem mennirnir líta á. Mennirnir líta á útlitið, en Drottinn lítur á hjartað."
8 Þá kallaði Ísaí á Abínadab og leiddi hann fyrir Samúel. En hann mælti: "Ekki hefir Drottinn heldur kjörið þennan."
9 Þá leiddi Ísaí fram Samma. En Samúel mælti: "Ekki hefir Drottinn heldur kjörið þennan."
10 Þannig leiddi Ísaí fram sjö sonu sína fyrir Samúel, en Samúel sagði við Ísaí: "Engan af þessum hefir Drottinn kjörið."
11 Og Samúel sagði við Ísaí: "Eru þetta allir sveinarnir?" Hann svaraði: "Enn er hinn yngsti eftir, og sjá, hann gætir sauða." Samúel sagði við Ísaí: "Send eftir honum og lát sækja hann, því að vér setjumst ekki til borðs fyrr en hann er kominn hingað."
12 Þá sendi hann eftir honum og lét hann koma, en hann var rauðleitur, fagureygur og vel vaxinn. Og Drottinn sagði: "Statt þú upp, smyr hann, því að þessi er það."
13 Þá tók Samúel olíuhornið og smurði hann mitt á meðal bræðra hans. Og andi Drottins kom yfir Davíð upp frá þeim degi. En Samúel tók sig upp og fór til Rama.
23 Davíðssálmur. Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta.
2 Á grænum grundum lætur hann mig hvílast, leiðir mig að vötnum, þar sem ég má næðis njóta.
3 Hann hressir sál mína, leiðir mig um rétta vegu fyrir sakir nafns síns.
4 Jafnvel þótt ég fari um dimman dal, óttast ég ekkert illt, því að þú ert hjá mér, sproti þinn og stafur hugga mig.
5 Þú býr mér borð frammi fyrir fjendum mínum, þú smyr höfuð mitt með olíu, bikar minn er barmafullur.
6 Já, gæfa og náð fylgja mér alla ævidaga mína, og í húsi Drottins bý ég langa ævi.
8 Eitt sinn voruð þér myrkur, en nú eruð þér ljós í Drottni. Hegðið yður eins og börn ljóssins. _
9 Því að ávöxtur ljóssins er einskær góðvild, réttlæti og sannleikur. _
10 Metið rétt, hvað Drottni þóknast.
11 Eigið engan hlut í verkum myrkursins, sem ekkert gott hlýst af, heldur flettið miklu fremur ofan af þeim.
12 Því að það, sem slíkir menn fremja í leyndum, er jafnvel svívirðilegt um að tala.
13 En allt það, sem ljósið flettir ofan af, verður augljóst. Því að allt, sem er augljóst, er ljós.
14 Því segir svo: Vakna þú, sem sefur, og rís upp frá dauðum, og þá mun Kristur lýsa þér.
9 Á leið sinni sá hann mann, sem var blindur frá fæðingu.
2 Lærisveinar hans spurðu hann: "Rabbí, hvort hefur þessi maður syndgað eða foreldrar hans, fyrst hann fæddist blindur?"
3 Jesús svaraði: "Hvorki er það af því, að hann hafi syndgað eða foreldrar hans, heldur til þess að verk Guðs verði opinber á honum.
4 Oss ber að vinna verk þess, er sendi mig, meðan dagur er. Það kemur nótt, þegar enginn getur unnið.
5 Meðan ég er í heiminum, er ég ljós heimsins."
6 Að svo mæltu skyrpti hann á jörðina, gjörði leðju úr munnvatninu, strauk leðju á augu hans
7 og sagði við hann: "Farðu og þvoðu þér í lauginni Sílóam." (Sílóam þýðir sendur.) Hann fór og þvoði sér og kom sjáandi.
8 Nágrannar hans og þeir, sem höfðu áður séð hann ölmusumann, sögðu þá: "Er þetta ekki sá, er setið hefur og beðið sér ölmusu?"
9 Sumir sögðu: "Sá er maðurinn," en aðrir sögðu: "Nei, en líkur er hann honum." Sjálfur sagði hann: "Ég er sá."
10 Þá sögðu þeir við hann: "Hvernig opnuðust augu þín?"
11 Hann svaraði: "Maður að nafni Jesús gjörði leðju og smurði á augu mín og sagði mér að fara til Sílóam og þvo mér. Ég fór og fékk sjónina, þegar ég var búinn að þvo mér."
12 Þeir sögðu við hann: "Hvar er hann?" Hann svaraði: "Það veit ég ekki."
13 Þeir fara til faríseanna með manninn, sem áður var blindur.
14 En þá var hvíldardagur, þegar Jesús bjó til leðjuna og opnaði augu hans.
15 Farísearnir spurðu hann nú líka, hvernig hann hefði fengið sjónina. Hann svaraði þeim: "Hann lagði leðju á augu mín, ég þvoði mér, og nú sé ég."
16 Þá sögðu nokkrir farísear: "Þessi maður er ekki frá Guði, fyrst hann heldur ekki hvíldardaginn." Aðrir sögðu: "Hvernig getur syndugur maður gjört þvílík tákn?" Og ágreiningur varð með þeim.
17 Þá segja þeir aftur við hinn blinda: "Hvað segir þú um hann, fyrst hann opnaði augu þín?" Hann sagði: "Hann er spámaður."
18 Gyðingar trúðu því ekki, að hann, sem sjónina fékk, hefði verið blindur, og kölluðu fyrst á foreldra hans
19 og spurðu þá: "Er þetta sonur ykkar, sem þið segið að hafi fæðst blindur? Hvernig er hann þá orðinn sjáandi?"
20 Foreldrar hans svöruðu: "Við vitum, að þessi maður er sonur okkar og að hann fæddist blindur.
21 En hvernig hann er nú orðinn sjáandi, vitum við ekki, né heldur vitum við, hver opnaði augu hans. Spyrjið hann sjálfan. Hann hefur aldur til. Hann getur svarað fyrir sig."
22 Þetta sögðu foreldrar hans af ótta við Gyðinga. Því Gyðingar höfðu þegar samþykkt, að ef nokkur játaði, að Jesús væri Kristur, skyldi hann samkundurækur.
23 Vegna þessa sögðu foreldrar hans: "Hann hefur aldur til, spyrjið hann sjálfan."
24 Nú kölluðu þeir í annað sinn á manninn, sem blindur hafði verið, og sögðu við hann: "Gef þú Guði dýrðina. Vér vitum, að þessi maður er syndari."
25 Hann svaraði: "Ekki veit ég, hvort hann er syndari. En eitt veit ég, að ég, sem var blindur, er nú sjáandi."
26 Þá sögðu þeir við hann: "Hvað gjörði hann við þig? Hvernig opnaði hann augu þín?"
27 Hann svaraði þeim: "Ég er búinn að segja yður það, og þér hlustuðuð ekki á það. Hví viljið þér heyra það aftur? Viljið þér líka verða lærisveinar hans?"
28 Þeir atyrtu hann og sögðu: "Þú ert lærisveinn hans, vér erum lærisveinar Móse.
29 Vér vitum, að Guð talaði við Móse, en um þennan vitum vér ekki, hvaðan hann er."
30 Maðurinn svaraði þeim: "Þetta er furðulegt, að þér vitið ekki, hvaðan hann er, og þó opnaði hann augu mín.
31 Vér vitum, að Guð heyrir ekki syndara. En ef einhver er guðrækinn og gjörir vilja hans, þann heyrir hann.
32 Frá alda öðli hefur ekki heyrst, að nokkur hafi opnað augu þess, sem blindur var borinn.
33 Ef þessi maður væri ekki frá Guði, gæti hann ekkert gjört."
34 Þeir svöruðu honum: "Þú ert syndum vafinn frá fæðingu og ætlar að kenna oss!" Og þeir ráku hann út.
35 Jesús heyrði, að þeir hefðu rekið hann út. Hann fann hann og sagði við hann: "Trúir þú á Mannssoninn?"
36 Hinn svaraði: "Herra, hver er sá, að ég megi trúa á hann?"
37 Jesús sagði við hann: "Þú hefur séð hann, hann er sá sem er nú að tala við þig."
38 En hann sagði: "Ég trúi, herra," og féll fram fyrir honum.
39 Jesús sagði: "Til dóms er ég kominn í þennan heim, svo að blindir sjái og hinir sjáandi verði blindir."
40 Þetta heyrðu þeir farísear, sem með honum voru, og spurðu: "Erum vér þá líka blindir?"
41 Jesús sagði við þá: "Ef þér væruð blindir, væruð þér án sakar. En nú segist þér vera sjáandi, því varir sök yðar."
by Icelandic Bible Society