Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Önnur bók Móse 17:1-7

17 Allur söfnuður Ísraelsmanna tók sig nú upp frá Sín-eyðimörk, og fóru þeir í áföngum að boði Drottins og settu herbúðir sínar í Refídím. En þar var ekkert vatn handa fólkinu að drekka.

Þá þráttaði fólkið við Móse og sagði: "Gef oss vatn að drekka!" En Móse sagði við þá: "Hví þráttið þér við mig? Hví freistið þér Drottins?"

Og fólkið þyrsti þar eftir vatni, og fólkið möglaði gegn Móse og sagði: "Hví fórstu með oss frá Egyptalandi til þess að láta oss og börn vor og fénað deyja af þorsta?"

Þá hrópaði Móse til Drottins og sagði: "Hvað skal ég gjöra við þetta fólk? Það vantar lítið á að þeir grýti mig."

En Drottinn sagði við Móse: "Gakk þú fram fyrir fólkið og tak með þér nokkra af öldungum Ísraels, og tak í hönd þér staf þinn, er þú laust með ána, og gakk svo af stað.

Sjá, ég mun standa frammi fyrir þér þar á klettinum á Hóreb, en þú skalt ljósta á klettinn, og mun þá vatn spretta af honum, svo að fólkið megi drekka."

Og Móse gjörði svo í augsýn öldunga Ísraels. Og hann kallaði þennan stað Massa og Meríba sökum þráttanar Ísraelsmanna, og fyrir því að þeir höfðu freistað Drottins og sagt: "Hvort mun Drottinn vera meðal vor eður ekki?"

Sálmarnir 95

95 Komið, fögnum fyrir Drottni, látum gleðióp gjalla fyrir kletti hjálpræðis vors.

Komum með lofsöng fyrir auglit hans, syngjum gleðiljóð fyrir honum.

Því að Drottinn er mikill Guð og mikill konungur yfir öllum guðum.

Í hans hendi eru jarðardjúpin, og fjallatindarnir heyra honum til.

Hans er hafið, hann hefir skapað það, og hendur hans mynduðu þurrlendið.

Komið, föllum fram og krjúpum niður, beygjum kné vor fyrir Drottni, skapara vorum,

því að hann er vor Guð, og vér erum gæslulýður hans og hjörð sú, er hann leiðir. Ó að þér í dag vilduð heyra raust hans!

Herðið eigi hjörtu yðar eins og hjá Meríba, eins og daginn við Massa í eyðimörkinni,

þegar feður yðar freistuðu mín, reyndu mig, þótt þeir sæju verk mín.

10 Í fjörutíu ár hafði ég viðbjóð á þessari kynslóð, og ég sagði: "Þeir eru andlega villtur lýður og þekkja ekki vegu mína."

11 Þess vegna sór ég í reiði minni: "Þeir skulu eigi ganga inn til hvíldar minnar."

Bréf Páls til Rómverja 5:1-11

Réttlættir af trú höfum vér því frið við Guð fyrir Drottin vorn Jesú Krist.

Fyrir hann höfum vér aðgang að þeirri náð, sem vér lifum í, og vér fögnum í von um dýrð Guðs.

En ekki það eitt: Vér fögnum líka í þrengingunum, með því að vér vitum, að þrengingin veitir þolgæði,

en þolgæðið fullreynd, en fullreyndin von.

En vonin bregst oss ekki, því að kærleika Guðs er úthellt í hjörtum vorum fyrir heilagan anda, sem oss er gefinn.

Meðan vér enn vorum óstyrkir, dó Kristur á settum tíma fyrir óguðlega.

Annars gengur varla nokkur í dauðann fyrir réttlátan mann, _ fyrir góðan mann kynni ef til vill einhver að vilja deyja. _

En Guð auðsýnir kærleika sinn til vor, þar sem Kristur er fyrir oss dáinn meðan vér enn vorum í syndum vorum.

Þar sem vér nú erum réttlættir fyrir blóð hans, því fremur mun hann frelsa oss frá reiðinni.

10 Því að ef vér vorum óvinir Guðs og urðum sættir við hann með dauða sonar hans, því fremur munum vér frelsaðir verða með lífi sonar hans, nú er vér erum í sátt teknir.

11 Og ekki það eitt, heldur fögnum vér í Guði fyrir Drottin vorn Jesú Krist, sem vér nú höfum öðlast sáttargjörðina fyrir.

Jóhannesarguðspjall 4:5-42

Nú kemur hann til borgar í Samaríu, er Síkar heitir, nálægt þeirri landspildu, sem Jakob gaf Jósef syni sínum.

Þar var Jakobsbrunnur. Jesús var vegmóður, og settist hann þarna við brunninn. Þetta var um hádegisbil.

Samversk kona kemur að sækja vatn. Jesús segir við hana: "Gef mér að drekka."

En lærisveinar hans höfðu farið inn í borgina að kaupa vistir.

Þá segir samverska konan við hann: "Hverju sætir, að þú, sem ert Gyðingur, biður mig um að drekka, samverska konu?" [En Gyðingar hafa ekki samneyti við Samverja.]

10 Jesús svaraði henni: "Ef þú þekktir gjöf Guðs og vissir, hver sá er, sem segir við þig: ,Gef mér að drekka,` þá mundir þú biðja hann, og hann gæfi þér lifandi vatn."

11 Hún segir við hann: "Herra, þú hefur enga skjólu að ausa með, og brunnurinn er djúpur. Hvaðan hefur þú þetta lifandi vatn?

12 Ertu meiri en Jakob forfaðir vor, sem gaf oss brunninn og drakk sjálfur úr honum og synir hans og fénaður?"

13 Jesús svaraði: "Hvern sem drekkur af þessu vatni mun aftur þyrsta,

14 en hvern sem drekkur af vatninu, er ég gef honum, mun aldrei þyrsta að eilífu. Því vatnið, sem ég gef honum, verður í honum að lind, sem streymir fram til eilífs lífs."

15 Þá segir konan við hann: "Herra, gef mér þetta vatn, svo að mig þyrsti ekki og ég þurfi ekki að fara hingað að ausa."

16 Hann segir við hana: "Farðu, kallaðu á manninn þinn, og komdu hingað."

17 Konan svaraði: "Ég á engan mann." Jesús segir við hana: "Rétt er það, að þú eigir engan mann,

18 því þú hefur átt fimm menn, og sá sem þú átt nú, er ekki þinn maður. Þetta sagðir þú satt."

19 Konan segir við hann: "Herra, nú sé ég, að þú ert spámaður.

20 Feður vorir hafa tilbeðið Guð á þessu fjalli, en þér segið, að í Jerúsalem sé sá staður, þar sem tilbiðja skuli."

21 Jesús segir við hana: "Trú þú mér, kona. Sú stund kemur, að þér munuð hvorki tilbiðja föðurinn á þessu fjalli né í Jerúsalem.

22 Þér tilbiðjið það, sem þér þekkið ekki. Vér tilbiðjum það, sem vér þekkjum, því hjálpræðið kemur frá Gyðingum.

23 En sú stund kemur, já, hún er nú komin, er hinir sönnu tilbiðjendur munu tilbiðja föðurinn í anda og sannleika. Faðirinn leitar slíkra, er þannig tilbiðja hann.

24 Guð er andi, og þeir, sem tilbiðja hann, eiga að tilbiðja í anda og sannleika."

25 Konan segir við hann: "Ég veit, að Messías kemur _ það er Kristur. Þegar hann kemur, mun hann kunngjöra oss allt."

26 Jesús segir við hana: "Ég er hann, ég sem við þig tala."

27 Í sama bili komu lærisveinar hans og furðuðu sig á því, að hann var að tala við konu. Þó sagði enginn: "Hvað viltu?" eða: "Hvað ertu að tala við hana?"

28 Nú skildi konan eftir skjólu sína, fór inn í borgina og sagði við menn:

29 "Komið og sjáið mann, er sagði mér allt, sem ég hef gjört. Skyldi hann vera Kristur?"

30 Þeir fóru úr borginni og komu til hans.

31 Meðan þessu fór fram, báðu lærisveinarnir hann: "Rabbí, fá þér að eta."

32 Hann svaraði þeim: "Ég hef mat að eta, sem þér vitið ekki um."

33 Þá sögðu lærisveinarnir sín á milli: "Skyldi nokkur hafa fært honum að eta?"

34 Jesús sagði við þá: "Minn matur er að gjöra vilja þess, sem sendi mig, og fullna verk hans.

35 Segið þér ekki: Enn eru fjórir mánuðir, þá kemur uppskeran? En ég segi yður: Lítið upp og horfið á akrana, þeir eru hvítir til uppskeru.

36 Sá sem upp sker, tekur þegar laun og safnar ávexti til eilífs lífs, svo að sá gleðjist, er sáir, og með honum hinn, sem upp sker.

37 Hér sannast orðtakið: Einn sáir, og annar sker upp.

38 Ég sendi yður að skera upp það sem þér hafið ekki unnið við. Aðrir hafa erfiðað, en þér eruð gengnir inn í erfiði þeirra."

39 Margir Samverjar úr þessari borg trúðu á hann vegna orða konunnar, sem vitnaði um það, að hann hefði sagt henni allt, sem hún hafði gjört.

40 Þegar því Samverjarnir komu til hans, báðu þeir hann að staldra við hjá sér. Var hann þar um kyrrt tvo daga.

41 Og miklu fleiri tóku trú, þegar þeir heyrðu hann sjálfan.

42 Þeir sögðu við konuna: "Það er ekki lengur sakir orða þinna, að vér trúum, því að vér höfum sjálfir heyrt hann og vitum, að hann er sannarlega frelsari heimsins."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society