Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
95 Komið, fögnum fyrir Drottni, látum gleðióp gjalla fyrir kletti hjálpræðis vors.
2 Komum með lofsöng fyrir auglit hans, syngjum gleðiljóð fyrir honum.
3 Því að Drottinn er mikill Guð og mikill konungur yfir öllum guðum.
4 Í hans hendi eru jarðardjúpin, og fjallatindarnir heyra honum til.
5 Hans er hafið, hann hefir skapað það, og hendur hans mynduðu þurrlendið.
6 Komið, föllum fram og krjúpum niður, beygjum kné vor fyrir Drottni, skapara vorum,
7 því að hann er vor Guð, og vér erum gæslulýður hans og hjörð sú, er hann leiðir. Ó að þér í dag vilduð heyra raust hans!
8 Herðið eigi hjörtu yðar eins og hjá Meríba, eins og daginn við Massa í eyðimörkinni,
9 þegar feður yðar freistuðu mín, reyndu mig, þótt þeir sæju verk mín.
10 Í fjörutíu ár hafði ég viðbjóð á þessari kynslóð, og ég sagði: "Þeir eru andlega villtur lýður og þekkja ekki vegu mína."
11 Þess vegna sór ég í reiði minni: "Þeir skulu eigi ganga inn til hvíldar minnar."
27 Og sjöunda daginn gengu nokkrir af fólkinu út til að safna, en fundu ekkert.
28 Drottinn sagði við Móse: "Hversu lengi tregðist þér við að varðveita boðorð mín og lög?
29 Lítið á! Vegna þess að Drottinn hefir gefið yður hvíldardaginn, þess vegna gefur hann yður sjötta daginn brauð til tveggja daga. Haldi hver maður kyrru fyrir á sínum stað, enginn fari að heiman á sjöunda deginum."
30 Og fólkið hvíldist á hinum sjöunda degi.
31 Ísraelsmenn kölluðu þetta brauð manna. Það líktist kóríanderfræi, var hvítt og á bragðið sem hunangskaka.
32 Móse sagði: "Þetta er það, sem Drottinn hefir boðið: ,Fyllið einn gómer af því til þess að geyma það handa eftirkomendum yðar, svo að þeir sjái það brauð, sem ég gaf yður að eta í eyðimörkinni, er ég leiddi yður út af Egyptalandi."`
33 Þá sagði Móse við Aron: "Tak eitt ker og lát í það fullan gómer af manna, og legg það til geymslu frammi fyrir Drottni, svo að það varðveitist handa eftirkomendum yðar."
34 Aron lagði það fyrir framan sáttmálið, til þess að það væri þar geymt, eins og Drottinn hafði boðið Móse.
35 Ísraelsmenn átu manna í fjörutíu ár, uns þeir komu í byggt land. Þeir átu manna, uns þeir komu að landamærum Kanaanlands.
4 Er Jesús varð þess vís, að farísear hefðu heyrt, að hann fengi fleiri lærisveina og skírði fleiri en Jóhannes,
2 _ reyndar skírði Jesús ekki sjálfur, heldur lærisveinar hans _
3 þá hvarf hann brott úr Júdeu og hélt aftur til Galíleu.
4 Hann varð að fara um Samaríu.
5 Nú kemur hann til borgar í Samaríu, er Síkar heitir, nálægt þeirri landspildu, sem Jakob gaf Jósef syni sínum.
6 Þar var Jakobsbrunnur. Jesús var vegmóður, og settist hann þarna við brunninn. Þetta var um hádegisbil.
by Icelandic Bible Society