Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 95

95 Komið, fögnum fyrir Drottni, látum gleðióp gjalla fyrir kletti hjálpræðis vors.

Komum með lofsöng fyrir auglit hans, syngjum gleðiljóð fyrir honum.

Því að Drottinn er mikill Guð og mikill konungur yfir öllum guðum.

Í hans hendi eru jarðardjúpin, og fjallatindarnir heyra honum til.

Hans er hafið, hann hefir skapað það, og hendur hans mynduðu þurrlendið.

Komið, föllum fram og krjúpum niður, beygjum kné vor fyrir Drottni, skapara vorum,

því að hann er vor Guð, og vér erum gæslulýður hans og hjörð sú, er hann leiðir. Ó að þér í dag vilduð heyra raust hans!

Herðið eigi hjörtu yðar eins og hjá Meríba, eins og daginn við Massa í eyðimörkinni,

þegar feður yðar freistuðu mín, reyndu mig, þótt þeir sæju verk mín.

10 Í fjörutíu ár hafði ég viðbjóð á þessari kynslóð, og ég sagði: "Þeir eru andlega villtur lýður og þekkja ekki vegu mína."

11 Þess vegna sór ég í reiði minni: "Þeir skulu eigi ganga inn til hvíldar minnar."

Önnur bók Móse 16:1-8

16 Því næst héldu þeir af stað frá Elím, og allur söfnuður Ísraelsmanna kom til Sín-eyðimerkur, sem liggur milli Elím og Sínaí, á fimmtánda degi hins annars mánaðar eftir burtför þeirra úr Egyptalandi.

Þá möglaði allur söfnuður Ísraelsmanna gegn Móse og Aroni í eyðimörkinni.

Og Ísraelsmenn sögðu við þá: "Betur að vér hefðum dáið fyrir hendi Drottins í Egyptalandi, er vér sátum við kjötkatlana og átum oss sadda af brauði, því að þið hafið farið með oss út á þessa eyðimörk til þess að láta allan þennan mannfjölda deyja af hungri."

Þá sagði Drottinn við Móse: "Sjá, ég vil láta rigna brauði af himni handa yður, og skal fólkið fara út og safna hvern dag svo miklu sem þarf þann daginn, svo að ég reyni það, hvort það vill breyta eftir mínu lögmáli eða ekki.

Og er þeir þá á hinum sjötta degi tilreiða það, sem þeir koma heim með, skal það vera tvöfalt við það, sem þeir annars safna daglega."

Þá sögðu Móse og Aron við alla Ísraelsmenn: "Í kveld skuluð þér viðurkenna, að Drottinn hefir leitt yður út af Egyptalandi.

Og á morgun skuluð þér sjá dýrð Drottins, með því að hann hefir heyrt möglanir yðar gegn Drottni. Því að hvað erum við, að þér möglið gegn okkur?"

Og Móse sagði: "Þetta verður, þegar Drottinn gefur yður að kveldi kjöt að eta og brauð til saðnings að morgni, því að Drottinn hefir heyrt möglanir yðar, sem þér beinið gegn honum. Því að hvað erum við? Þér möglið ekki gegn okkur, heldur gegn Drottni."

Bréf Páls til Kólossumann 1:15-23

15 Hann er ímynd hins ósýnilega Guðs, frumburður allrar sköpunar.

16 Enda var allt skapað í honum í himnunum og á jörðinni, hið sýnilega og hið ósýnilega, hásæti og herradómar, tignir og völd. Allt er skapað fyrir hann og til hans.

17 Hann er fyrri en allt, og allt á tilveru sína í honum.

18 Og hann er höfuð líkamans, kirkjunnar, hann sem er upphafið, frumburðurinn frá hinum dauðu. Þannig skyldi hann verða fremstur í öllu.

19 Því að í honum þóknaðist Guði að láta alla fyllingu sína búa

20 og láta hann koma öllu í sátt við sig, öllu bæði á jörðu og himnum, með því að semja frið með blóði sínu úthelltu á krossi.

21 Og yður, sem áður fyrri voruð fráhverfir Guði og óvinveittir honum í huga yðar og vondum verkum,

22 yður hefur hann nú sátta gjört við sig með dauða Krists í jarðneskum líkama. Hann vildi láta yður koma fram fyrir sig heilaga og lýtalausa og óaðfinnanlega.

23 Standið aðeins stöðugir í trúnni, grundvallaðir og fastir fyrir og hvikið ekki frá von fagnaðarerindisins, sem þér hafið heyrt og prédikað hefur verið fyrir öllu, sem skapað er undir himninum, og er ég, Páll, orðinn þjónn þess.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society