Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
128 Sæll er hver sá, er óttast Drottin, er gengur á hans vegum.
2 Já, afla handa þinna skalt þú njóta, sæll ert þú, vel farnast þér.
3 Kona þín er sem frjósamur vínviður innst í húsi þínu, synir þínir sem teinungar olíutrésins umhverfis borð þitt.
4 Sjá, sannarlega hlýtur slíka blessun sá maður, er óttast Drottin.
5 Drottinn blessi þig frá Síon, þú munt horfa með unun á hamingju Jerúsalem alla ævidaga þína,
6 og sjá sonu sona þinna. Friður sé yfir Ísrael!
22 Seg því við Ísraelsmenn: Svo segir Drottinn Guð: Eigi er það yðar vegna, Ísraelsmenn, að ég læt til mín taka, heldur vegna míns heilaga nafns, sem þér hafið vanhelgað meðal þjóðanna, hvar sem þér komuð.
23 Og ég mun helga mitt hið mikla nafn, sem vanhelgað var meðal þjóðanna, það er þér vanhelguðuð meðal þeirra, til þess að þjóðirnar viðurkenni, að ég er Drottinn, _ segir Drottinn Guð _ þá er ég auglýsi heilagleik minn á yður í augsýn þeirra.
24 Ég mun sækja yður til þjóðanna og saman safna yður úr öllum löndum og flytja yður inn í yðar land.
25 Ég mun stökkva hreinu vatni á yður, svo að þér verðið hreinir, ég mun hreinsa yður af öllum óhreinindum yðar og skurðgoðum.
26 Og ég mun gefa yður nýtt hjarta og leggja yður nýjan anda í brjóst, og ég mun taka steinhjartað úr líkama yðar og gefa yður hjarta af holdi.
27 Og ég mun leggja yður anda minn í brjóst og koma því til vegar, að þér hlýðið boðorðum mínum og varðveitið setninga mína og breytið eftir þeim.
28 Og þér skuluð búa í landinu, sem ég gaf feðrum yðar, og þér skuluð vera mín þjóð og ég skal vera yðar Guð.
29 Ég mun frelsa yður frá öllum óhreinindum yðar, og ég mun kalla á kornið og margfalda það, og ekkert hallæri mun ég láta yfir yður koma.
30 Og ég mun margfalda ávöxtu trjánna og gróða vallarins, til þess að þér þurfið ekki að þola brigsl meðal heiðnu þjóðanna fyrir hallæri.
31 Þá munuð þér minnast yðar vondu breytni og verka yðar, sem ekki voru góð, og yður mun bjóða við sjálfum yður sökum misgjörða yðar og viðurstyggða.
32 Eigi er það yðar vegna, að ég læt til mín taka, segir Drottinn Guð, það skuluð þér vita! Blygðist og skammist yðar fyrir breytni yðar, þér Ísraelsmenn!
53 [Nú fór hver heim til sín.
8 En Jesús fór til Olíufjallsins.
2 Snemma morguns kom hann aftur í helgidóminn, og allur lýður kom til hans, en hann settist og tók að kenna þeim.
3 Farísear og fræðimenn koma með konu, staðna að hórdómi, létu hana standa mitt á meðal þeirra
4 og sögðu við hann: "Meistari, kona þessi var staðin að verki, þar sem hún var að drýgja hór.
5 Móse bauð oss í lögmálinu að grýta slíkar konur. Hvað segir þú nú?"
6 Þetta sögðu þeir til að reyna hann, svo þeir hefðu eitthvað að ákæra hann fyrir. En Jesús laut niður og skrifaði með fingrinum á jörðina.
7 Og þegar þeir héldu áfram að spyrja hann, rétti hann sig upp og sagði við þá: "Sá yðar, sem syndlaus er, kasti fyrstur steini á hana."
8 Og aftur laut hann niður og skrifaði á jörðina.
9 Þegar þeir heyrðu þetta, fóru þeir burt, einn af öðrum, öldungarnir fyrstir. Jesús var einn eftir, og konan stóð í sömu sporum.
10 Hann rétti sig upp og sagði við hana: "Kona, hvað varð af þeim? Sakfelldi enginn þig?"
11 En hún sagði: "Enginn, herra." Jesús mælti: "Ég sakfelli þig ekki heldur. Far þú. Syndga ekki framar."]
by Icelandic Bible Society