Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 128

128 Sæll er hver sá, er óttast Drottin, er gengur á hans vegum.

Já, afla handa þinna skalt þú njóta, sæll ert þú, vel farnast þér.

Kona þín er sem frjósamur vínviður innst í húsi þínu, synir þínir sem teinungar olíutrésins umhverfis borð þitt.

Sjá, sannarlega hlýtur slíka blessun sá maður, er óttast Drottin.

Drottinn blessi þig frá Síon, þú munt horfa með unun á hamingju Jerúsalem alla ævidaga þína,

og sjá sonu sona þinna. Friður sé yfir Ísrael!

Fjórða bók Móse 21:4-9

Lögðu þeir þá upp frá Hórfjalli leiðina til Rauðahafs til þess að fara í kringum Edómland. En lýðnum féllst hugur á leiðinni.

Og lýðurinn talaði í gegn Guði og í gegn Móse: "Hví leidduð þið oss brott af Egyptalandi, til þess að vér dæjum í eyðimörkinni. Hér er hvorki brauð né vatn, og vér erum orðnir leiðir á þessu léttmeti."

Þá sendi Drottinn eitraða höggorma meðal lýðsins, og þeir bitu fólkið, svo að margt manna dó af Ísrael.

Þá gekk lýðurinn til Móse og sagði: "Vér höfum syndgað, því að vér höfum talað í gegn Drottni og í gegn þér. Bið þú til Drottins, að hann taki höggormana frá oss." Móse bað þá fyrir lýðnum.

Og Drottinn sagði við Móse: "Gjör þér eiturorm og set hann á stöng, og það skal verða, að hver sem bitinn er og lítur á hann, skal lífi halda."

Móse gjörði höggorm af eiri og setti á stöng. Og það varð, að ef höggormur hafði bitið einhvern og hann leit til eirormsins, þá hélt hann lífi.

Bréfið til Hebrea 3:1-6

Bræður heilagir! Þér eruð hluttakar himneskrar köllunar. Gefið því gætur að Jesú, postula og æðsta presti játningar vorrar.

Hann var trúr þeim, er hafði skipað hann, eins og Móse var það líka í öllu hans húsi.

En hann er verður meiri dýrðar en Móse, eins og sá, er húsið gjörði, á meiri heiður en húsið sjálft.

Sérhvert hús er gjört af einhverjum, en Guð er sá, sem allt hefur gjört.

Móse var að sönnu trúr í öllu hans húsi, eins og þjónn, til vitnisburðar um það, sem átti að verða talað,

en Kristur eins og sonur yfir húsi hans. Og hans hús erum vér, ef vér höldum djörfunginni og voninni, sem vér miklumst af.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society