Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
12 Drottinn sagði við Abram: "Far þú burt úr landi þínu og frá ættfólki þínu og úr húsi föður þíns, til landsins, sem ég mun vísa þér á.
2 Ég mun gjöra þig að mikilli þjóð og blessa þig og gjöra nafn þitt mikið, og blessun skalt þú vera.
3 Ég mun blessa þá, sem þig blessa, en bölva þeim, sem þér formælir, og af þér skulu allar ættkvíslir jarðarinnar blessun hljóta."
4 Þá lagði Abram af stað, eins og Drottinn hafði sagt honum, og Lot fór með honum. En Abram var sjötíu og fimm ára að aldri, er hann fór úr Harran.
121 Ég hef augu mín til fjallanna: Hvaðan kemur mér hjálp?
2 Hjálp mín kemur frá Drottni, skapara himins og jarðar.
3 Hann mun eigi láta fót þinn skriðna, vörður þinn blundar ekki.
4 Nei, hann blundar ekki og sefur ekki, hann, vörður Ísraels.
5 Drottinn er vörður þinn, Drottinn skýlir þér, hann er þér til hægri handar.
6 Um daga mun sólarhitinn eigi vinna þér mein, né heldur tunglið um nætur.
7 Drottinn mun vernda þig fyrir öllu illu, hann mun vernda sál þína.
8 Drottinn mun varðveita útgöngu þína og inngöngu héðan í frá og að eilífu.
4 Hvað eigum vér þá að segja um Abraham, forföður vorn, hvað ávann hann?
2 Ef hann réttlættist af verkum, þá hefur hann hrósunarefni, en ekki fyrir Guði.
3 Því hvað segir ritningin: "Abraham trúði Guði, og það var reiknað honum til réttlætis."
4 Þeim sem vinnur verða launin ekki reiknuð af náð, heldur eftir verðleika.
5 Hinum aftur á móti, sem ekki vinnur, en trúir á hann sem réttlætir óguðlegan, er trú hans reiknuð til réttlætis.
13 Ekki var Abraham eða niðjum hans fyrir lögmál gefið fyrirheitið, að hann skyldi verða erfingi heimsins, heldur fyrir trúar-réttlæti.
14 Ef lögmálsmennirnir eru erfingjar, er trúin ónýtt og fyrirheitið að engu gjört.
15 Því að lögmálið vekur reiði. En þar sem ekki er lögmál, þar eru ekki heldur lögmálsbrot.
16 Því er fyrirheitið byggt á trú, til þess að það sé af náð, og megi stöðugt standa fyrir alla niðja hans, ekki fyrir þá eina, sem hafa lögmálið, heldur og fyrir þá, sem eiga trú Abrahams. Hann er faðir vor allra,
17 eins og skrifað stendur: "Föður margra þjóða hef ég sett þig." Og það er hann frammi fyrir Guði, sem hann trúði á, honum sem lífgar dauða og kallar fram það, sem ekki er til eins og það væri til.
3 Maður hét Nikódemus, af flokki farísea, ráðsherra meðal Gyðinga.
2 Hann kom til Jesú um nótt og sagði við hann: "Rabbí, vér vitum, að þú ert lærifaðir kominn frá Guði. Enginn getur gjört þessi tákn, sem þú gjörir, nema Guð sé með honum."
3 Jesús svaraði honum: "Sannlega, sannlega segi ég þér: Enginn getur séð Guðs ríki, nema hann fæðist að nýju."
4 Nikódemus segir við hann: "Hvernig getur maður fæðst, þegar hann er orðinn gamall? Skyldi hann geta komist aftur í líf móður sinnar og fæðst?"
5 Jesús svaraði: "Sannlega, sannlega segi ég þér: Enginn getur komist inn í Guðs ríki, nema hann fæðist af vatni og anda.
6 Það sem af holdinu fæðist, er hold, en það sem af andanum fæðist, er andi.
7 Undrast eigi, að ég segi við þig: Yður ber að fæðast að nýju.
8 Vindurinn blæs þar sem hann vill, og þú heyrir þyt hans. Samt veistu ekki, hvaðan hann kemur né hvert hann fer. Svo er um þann, sem af andanum er fæddur."
9 Þá spurði Nikódemus: "Hvernig má þetta verða?"
10 Jesús svaraði honum: "Þú ert lærifaðir í Ísrael og veist ekki þetta?
11 Sannlega, sannlega segi ég þér: Vér tölum um það, sem vér þekkjum, og vitnum um það, sem vér höfum séð, en þér takið ekki á móti vitnisburði vorum.
12 Ef þér trúið eigi, þegar ég ræði við yður jarðnesk efni, hvernig skylduð þér þá trúa, er ég ræði við yður um hin himnesku?
13 Enginn hefur stigið upp til himins, nema sá er steig niður frá himni, Mannssonurinn.
14 Og eins og Móse hóf upp höggorminn í eyðimörkinni, þannig á Mannssonurinn að verða upp hafinn,
15 svo að hver sem trúir hafi eilíft líf í honum.
16 Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.
17 Guð sendi ekki soninn í heiminn til að dæma heiminn, heldur að heimurinn skyldi frelsast fyrir hann.
17 Eftir sex daga tekur Jesús með sér þá Pétur, Jakob og Jóhannes, bróður hans og fer með þá upp á hátt fjall, að þeir væru einir saman.
2 Þar ummyndaðist hann fyrir augum þeirra, ásjóna hans skein sem sól, og klæði hans urðu björt eins og ljós.
3 Og Móse og Elía birtust þeim, og voru þeir á tali við hann.
4 Pétur tók til máls og sagði við Jesú: "Herra, gott er, að vér erum hér. Ef þú vilt, skal ég gjöra hér þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina."
5 Meðan hann var enn að tala, skyggði yfir þá bjart ský, og rödd úr skýinu sagði: "Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á. Hlýðið á hann!"
6 Þegar lærisveinarnir heyrðu þetta, féllu þeir fram á ásjónur sínar og hræddust mjög.
7 Jesús gekk til þeirra, snart þá og mælti: "Rísið upp, og óttist ekki."
8 En er þeir hófu upp augu sín, sáu þeir engan nema Jesú einan.
9 Á leiðinni ofan fjallið bauð Jesús þeim og mælti: "Segið engum frá sýninni, fyrr en Mannssonurinn er risinn upp frá dauðum."
by Icelandic Bible Society