Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 51

51 Til söngstjórans. Sálmur Davíðs,

þá er Natan spámaður kom til hans, eftir að hann hafði gengið inn til Batsebu.

Guð, vertu mér náðugur sakir elsku þinnar, afmá brot mín sakir þinnar miklu miskunnsemi.

Þvo mig hreinan af misgjörð minni, hreinsa mig af synd minni,

því að ég þekki sjálfur afbrot mín, og synd mín stendur mér stöðugt fyrir hugskotssjónum.

Gegn þér einum hefi ég syndgað og gjört það sem illt er í augum þínum. Því ert þú réttlátur, er þú talar, hreinn, er þú dæmir.

Sjá, sekur var ég, er ég varð til, syndugur, er móðir mín fæddi mig.

Sjá, þú hefir þóknun á hreinskilni hið innra, og í fylgsnum hjartans kennir þú mér visku!

Hreinsa mig með ísóp, svo að ég verði hreinn, þvo mig, svo að ég verði hvítari en mjöll.

10 Lát mig heyra fögnuð og gleði, lát kætast beinin sem þú hefir sundurmarið.

11 Byrg auglit þitt fyrir syndum mínum og afmá allar misgjörðir mínar.

12 Skapa í mér hreint hjarta, ó Guð, og veit mér nýjan, stöðugan anda.

13 Varpa mér ekki burt frá augliti þínu og tak ekki þinn heilaga anda frá mér.

14 Veit mér aftur fögnuð þíns hjálpræðis og styð mig með fúsleiks anda,

15 að ég megi kenna afbrotamönnum vegu þína og syndarar megi hverfa aftur til þín.

16 Frelsa mig frá dauðans háska, Guð hjálpræðis míns, lát tungu mína fagna yfir réttlæti þínu.

17 Drottinn, opna varir mínar, svo að munnur minn kunngjöri lof þitt!

18 Þú hefir ekki þóknun á sláturfórnum _ annars mundi ég láta þær í té _ og að brennifórnum er þér ekkert yndi.

19 Guði þekkar fórnir eru sundurmarinn andi, sundurmarið og sundurkramið hjarta munt þú, ó Guð, eigi fyrirlíta.

20 Gjör vel við Síon sakir náðar þinnar, reis múra Jerúsalem!

21 Þá munt þú hafa þóknun á réttum fórnum, á brennifórn og alfórn, þá munu menn bera fram uxa á altari þitt.

Jesaja 58:1-12

58 Kalla þú af megni og drag ekki af! Hef upp raust þína sem lúður og kunngjör lýð mínum misgjörð þeirra og húsi Jakobs syndir þeirra!

Þeir leita mín dag frá degi og girnast að þekkja mína vegu. Þeir heimta af mér réttláta dóma og girnast það, að Guð komi til, eins og væru þeir þjóð, sem iðkar réttlæti og eigi víkur frá skipunum Guðs síns.

"Hví föstum vér, og þú sér það ekki? Hví þjáum vér oss, og þú skeytir því ekki?" Sjá, daginn sem þér fastið fáist þér við störf yðar og þrælkið öll hjú yðar.

Sjá, þér fastið til þess að vekja deilur og þrætur og til þess að ljósta með ósvífnum hnefa. En þér fastið eigi í dag til þess að láta rödd yðar heyrast upp í hæðirnar.

Mun slíkt vera sú fasta, er mér líkar, sá dagur, er menn þjá sig? Að hengja niður höfuðið sem sef og breiða undir sig sekk og ösku, kallar þú slíkt föstu og dag velþóknunar fyrir Drottni?

Nei, sú fasta, sem mér líkar, er að leysa fjötra rangsleitninnar, láta rakna bönd oksins, gefa frjálsa hina hrjáðu og sundurbrjóta sérhvert ok,

það er, að þú miðlir hinum hungruðu af brauði þínu, hýsir bágstadda, hælislausa menn, og ef þú sér klæðlausan mann, að þú þá klæðir hann og firrist eigi þann, sem er hold þitt og blóð.

Þá skal ljós þitt bruna fram sem morgunroði og sár þitt gróa bráðlega, þá mun réttlæti þitt fara fyrir þér, dýrð Drottins fylgja á eftir þér.

Þá munt þú kalla á Drottin, og hann mun svara, þú munt hrópa á hjálp og hann segja: "Hér er ég!" Ef þú hættir allri undirokun, hæðnisbendingum og illmælum,

10 ef þú réttir hinum hungraða brauð þitt og seður þann, sem bágt á, þá mun ljós þitt renna upp í myrkrinu og niðdimman í kringum þig verða sem hábjartur dagur.

11 Þá mun Drottinn stöðugt leiða þig og seðja þig, þótt þú sért staddur á vatnslausum stöðum, og styrkja bein þín, og þá munt þú verða sem vökvaður aldingarður og sem uppsprettulind, er aldrei þrýtur.

12 Þá munu afkomendur þínir byggja upp hinar fornu borgarrústir, og þú munt reisa að nýju múrveggina, er legið hafa við velli marga mannsaldra, og þá munt þú nefndur verða múrskarða-fyllir, farbrauta-bætir.

Matteusarguðspjall 18:1-7

18 Á þeirri stundu komu lærisveinarnir til Jesú og spurðu: "Hver er mestur í himnaríki?"

Hann kallaði til sín lítið barn, setti það meðal þeirra

og sagði: "Sannlega segi ég yður: Nema þér snúið við og verðið eins og börn, komist þér aldrei í himnaríki.

Hver sem auðmýkir sjálfan sig eins og barn þetta, sá er mestur í himnaríki.

Hver sem tekur við einu slíku barni í mínu nafni, tekur við mér.

En hverjum þeim, sem tælir til falls einn af þessum smælingjum, sem á mig trúa, væri betra að vera sökkt í sjávardjúp með mylnustein hengdan um háls.

Vei heiminum vegna ginninga hans. Hjá ginningum verður eigi komist, en vei þeim manni, sem veldur.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society