Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 51

51 Til söngstjórans. Sálmur Davíðs,

þá er Natan spámaður kom til hans, eftir að hann hafði gengið inn til Batsebu.

Guð, vertu mér náðugur sakir elsku þinnar, afmá brot mín sakir þinnar miklu miskunnsemi.

Þvo mig hreinan af misgjörð minni, hreinsa mig af synd minni,

því að ég þekki sjálfur afbrot mín, og synd mín stendur mér stöðugt fyrir hugskotssjónum.

Gegn þér einum hefi ég syndgað og gjört það sem illt er í augum þínum. Því ert þú réttlátur, er þú talar, hreinn, er þú dæmir.

Sjá, sekur var ég, er ég varð til, syndugur, er móðir mín fæddi mig.

Sjá, þú hefir þóknun á hreinskilni hið innra, og í fylgsnum hjartans kennir þú mér visku!

Hreinsa mig með ísóp, svo að ég verði hreinn, þvo mig, svo að ég verði hvítari en mjöll.

10 Lát mig heyra fögnuð og gleði, lát kætast beinin sem þú hefir sundurmarið.

11 Byrg auglit þitt fyrir syndum mínum og afmá allar misgjörðir mínar.

12 Skapa í mér hreint hjarta, ó Guð, og veit mér nýjan, stöðugan anda.

13 Varpa mér ekki burt frá augliti þínu og tak ekki þinn heilaga anda frá mér.

14 Veit mér aftur fögnuð þíns hjálpræðis og styð mig með fúsleiks anda,

15 að ég megi kenna afbrotamönnum vegu þína og syndarar megi hverfa aftur til þín.

16 Frelsa mig frá dauðans háska, Guð hjálpræðis míns, lát tungu mína fagna yfir réttlæti þínu.

17 Drottinn, opna varir mínar, svo að munnur minn kunngjöri lof þitt!

18 Þú hefir ekki þóknun á sláturfórnum _ annars mundi ég láta þær í té _ og að brennifórnum er þér ekkert yndi.

19 Guði þekkar fórnir eru sundurmarinn andi, sundurmarið og sundurkramið hjarta munt þú, ó Guð, eigi fyrirlíta.

20 Gjör vel við Síon sakir náðar þinnar, reis múra Jerúsalem!

21 Þá munt þú hafa þóknun á réttum fórnum, á brennifórn og alfórn, þá munu menn bera fram uxa á altari þitt.

Jónas 4

Jónasi mislíkaði þetta mjög, og hann varð reiður.

Og hann bað til Drottins og sagði: "Æ, Drottinn! Kemur nú ekki að því sem ég hugsaði, meðan ég enn var heima í mínu landi? Þess vegna ætlaði ég áður fyrr að flýja til Tarsis, því að ég vissi, að þú ert líknsamur og miskunnsamur Guð, þolinmóður og gæskuríkur og lætur þig angra hins vonda.

Tak nú, Drottinn, önd mína frá mér, því að mér er betra að deyja en lifa."

En Drottinn sagði: "Er það rétt gjört af þér að reiðast svo?"

Því næst fór Jónas út úr borginni og bjóst um fyrir austan borgina. Þar gjörði hann sér laufskála og settist undir hann í forsælunni og beið þess að hann sæi, hvernig borginni reiddi af.

Þá lét Drottinn Guð rísínusrunn upp spretta yfir Jónas til þess að bera skugga á höfuð hans og til þess að hafa af honum óhuginn, og varð Jónas stórlega feginn rísínusrunninum.

En næsta dag, þegar morgunroðinn var á loft kominn, sendi Guð orm, sem stakk rísínusrunninn, svo að hann visnaði.

Og er sól var upp komin, sendi Guð brennheitan austanvind, og skein sólin svo heitt á höfuð Jónasi, að hann örmagnaðist. Þá óskaði hann sér dauða og sagði: "Mér er betra að deyja en lifa!"

Þá sagði Guð við Jónas: "Er það rétt gjört af þér að reiðast svo vegna rísínusrunnsins?" Hann svaraði: "Það er rétt að ég reiðist til dauða!"

10 En Drottinn sagði: "Þig tekur sárt til rísínusrunnsins, sem þú hefir ekkert fyrir haft og ekki upp klakið, sem óx á einni nóttu og hvarf á einni nóttu.

Bréf Páls til Rómverja 1:8-17

Fyrst þakka ég Guði mínum sakir Jesú Krists fyrir yður alla, af því að orð fer af trú yðar í öllum heiminum.

Guð, sem ég þjóna í anda mínum með fagnaðarerindinu um son hans, er mér vottur þess, hve óaflátanlega ég minnist yðar

10 í bænum mínum. Ég bið stöðugt um það, að mér mætti loks einhvern tíma auðnast, ef Guð vildi svo verða láta, að koma til yðar.

11 Því að ég þrái að sjá yður, til þess að ég fái veitt yður hlutdeild í andlegri náðargjöf, svo að þér styrkist,

12 eða réttara sagt: Svo að vér getum uppörvast saman fyrir hina sameiginlegu trú, yðar og mína.

13 Ég vil ekki, bræður, að yður sé ókunnugt um, að ég hef oftsinnis ásett mér að koma til yðar, en hef verið hindraður allt til þessa. Ég vildi fá einhvern ávöxt einnig á meðal yðar, eins og með öðrum heiðnum þjóðum.

14 Ég er í skuld bæði við Grikki og útlendinga, vitra og fávísa.

15 Svo er ég og fyrir mitt leyti fús til að boða fagnaðarerindið, einnig yður, sem eruð í Róm.

16 Ég fyrirverð mig ekki fyrir fagnaðarerindið. Það er kraftur Guðs til hjálpræðis hverjum þeim sem trúir, Gyðingum fyrst, en einnig Grikkjum.

17 Því að réttlæti Guðs opinberast í því fyrir trú til trúar, eins og ritað er: "Hinn réttláti mun lifa fyrir trú."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society