Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 51

51 Til söngstjórans. Sálmur Davíðs,

þá er Natan spámaður kom til hans, eftir að hann hafði gengið inn til Batsebu.

Guð, vertu mér náðugur sakir elsku þinnar, afmá brot mín sakir þinnar miklu miskunnsemi.

Þvo mig hreinan af misgjörð minni, hreinsa mig af synd minni,

því að ég þekki sjálfur afbrot mín, og synd mín stendur mér stöðugt fyrir hugskotssjónum.

Gegn þér einum hefi ég syndgað og gjört það sem illt er í augum þínum. Því ert þú réttlátur, er þú talar, hreinn, er þú dæmir.

Sjá, sekur var ég, er ég varð til, syndugur, er móðir mín fæddi mig.

Sjá, þú hefir þóknun á hreinskilni hið innra, og í fylgsnum hjartans kennir þú mér visku!

Hreinsa mig með ísóp, svo að ég verði hreinn, þvo mig, svo að ég verði hvítari en mjöll.

10 Lát mig heyra fögnuð og gleði, lát kætast beinin sem þú hefir sundurmarið.

11 Byrg auglit þitt fyrir syndum mínum og afmá allar misgjörðir mínar.

12 Skapa í mér hreint hjarta, ó Guð, og veit mér nýjan, stöðugan anda.

13 Varpa mér ekki burt frá augliti þínu og tak ekki þinn heilaga anda frá mér.

14 Veit mér aftur fögnuð þíns hjálpræðis og styð mig með fúsleiks anda,

15 að ég megi kenna afbrotamönnum vegu þína og syndarar megi hverfa aftur til þín.

16 Frelsa mig frá dauðans háska, Guð hjálpræðis míns, lát tungu mína fagna yfir réttlæti þínu.

17 Drottinn, opna varir mínar, svo að munnur minn kunngjöri lof þitt!

18 Þú hefir ekki þóknun á sláturfórnum _ annars mundi ég láta þær í té _ og að brennifórnum er þér ekkert yndi.

19 Guði þekkar fórnir eru sundurmarinn andi, sundurmarið og sundurkramið hjarta munt þú, ó Guð, eigi fyrirlíta.

20 Gjör vel við Síon sakir náðar þinnar, reis múra Jerúsalem!

21 Þá munt þú hafa þóknun á réttum fórnum, á brennifórn og alfórn, þá munu menn bera fram uxa á altari þitt.

Jónas 3

Og orð Drottins kom til Jónasar annað sinn, svo hljóðandi:

"Legg af stað og far til Níníve, hinnar miklu borgar, og flyt henni þann boðskap, er ég býð þér."

Þá lagði Jónas af stað og fór til Níníve, eins og Drottinn hafði boðið honum. En Níníve var geysimikil borg, þrjár dagleiðir á lengd.

Og Jónas hóf göngu sína inn í borgina eina dagleið, prédikaði og sagði: "Að fjörutíu dögum liðnum skal Níníve verða í eyði lögð."

En Nínívemenn trúðu Guði og boðuðu föstu og klæddust hærusekk, bæði ungir og gamlir.

Og er þetta barst til konungsins í Níníve, þá stóð hann upp úr hásæti sínu, lagði af sér skikkju sína, huldi sig hærusekk og settist í ösku.

Og hann lét gjöra heyrinkunna í Níníve svolátandi skipun: "Samkvæmt boði konungs og vildarmanna hans er svo fyrir mælt: Hvorki menn né skepnur, hvorki naut né sauðir skulu nokkurs neyta. Þeir skulu hvorki á gras ganga né vatn drekka,

heldur skulu þeir hylja sig hærusekk, bæði menn og skepnur, og hrópa til Guðs ákaflega og láta hver og einn af sinni vondu breytni og af þeim rangindum, er þeir hafa um hönd haft.

Hver veit nema Guði kunni að snúast hugur og hann láti sig iðra þessa og láti af sinni brennandi reiði, svo að vér förumst ekki."

10 En er Guð sá gjörðir þeirra, að þeir létu af illri breytni sinni, þá iðraðist Guð þeirrar ógæfu, er hann hafði hótað að láta yfir þá koma, og lét hana ekki fram koma.

Bréf Páls til Rómverja 1:1-7

Páll heilsar yður, þjónn Jesú Krists, kallaður til postula, kjörinn til að boða fagnaðarerindi Guðs,

sem hann gaf áður fyrirheit um fyrir munn spámanna sinna í helgum ritningum,

fagnaðarerindið um son hans, Jesú Krist, Drottin vorn, sem að holdinu er fæddur af kyni Davíðs,

en að anda heilagleikans með krafti auglýstur að vera sonur Guðs fyrir upprisu frá dauðum.

Fyrir hann hef ég öðlast náð og postuladóm til að vekja hlýðni við trúna meðal allra heiðingjanna, vegna nafns hans.

Meðal þeirra eruð þér einnig, þér sem Jesús Kristur hefur kallað sér til eignar.

Ég heilsa öllum Guðs elskuðu í Róm, sem heilagir eru samkvæmt köllun. Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society