Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 2

Hví geisa heiðingjarnir og hví hyggja þjóðirnar á fánýt ráð?

Konungar jarðarinnar ganga fram, og höfðingjarnir bera ráð sín saman gegn Drottni og hans smurða:

"Vér skulum brjóta sundur fjötra þeirra, vér skulum varpa af oss viðjum þeirra."

Hann sem situr á himni hlær. Drottinn gjörir gys að þeim.

Því næst talar hann til þeirra í reiði sinni, skelfir þá í bræði sinni:

"Ég hefi skipað konung minn á Síon, fjallið mitt helga."

Ég vil kunngjöra ályktun Drottins: Hann mælti við mig: "Þú ert sonur minn. Í dag gat ég þig.

Bið þú mig, og ég mun gefa þér þjóðirnar að erfð og endimörk jarðar að óðali.

Þú skalt mola þá með járnsprota, mölva þá sem leirsmiðs ker."

10 Verið því hyggnir, þér konungar, látið yður segjast, þér dómarar á jörðu.

11 Þjónið Drottni með ótta og fagnið með lotningu.

12 Hyllið soninn, að hann reiðist eigi og vegur yðar endi í vegleysu,

13 því að skjótt bálast upp reiði hans. Sæll er hver sá er leitar hælis hjá honum.

Fyrri bók konunganna 21:20-29

20 Og Akab sagði við Elía: "Hefir þú fundið mig, fjandmaður minn?" Hann svaraði: "Hefi ég víst. Af því að þú hefir ofurselt þig til að gjöra það, sem illt er í augum Drottins,

21 þá leiði ég ógæfu yfir þig og sópa þér burt og uppræti hvern karlmann af ætt Akabs, bæði þræl og frelsingja í Ísrael.

22 Og ég mun fara með ætt þína eins og með ætt Jeróbóams Nebatssonar og ætt Basa Ahíasonar vegna reiði þeirrar, er þú hefir egnt mig til, og af því að þú hefir komið Ísrael til að syndga."

23 Og einnig um Jesebel talaði Drottinn á þessa leið: "Hundar skulu eta Jesebel hjá Jesreelmúrum.

24 Hvern þann, er deyr af Akabsætt innan borgar, munu hundar eta, og hvern þann, sem deyr úti á víðavangi, munu fuglar himins eta."

25 Alls enginn hefir verið, er ofurselt hafi sig, eins og Akab, til að gjöra það sem illt var í augum Drottins, og ginnti Jesebel kona hans hann til þess.

26 Og hann breytti mjög svívirðilega með því að elta skurðgoðin, alveg eins og Amorítar gjörðu, þeir er Drottinn stökkti burt undan Ísraelsmönnum.

27 En er Akab heyrði þessi orð, reif hann klæði sín og lagði hærusekk á bert hold sitt og fastaði. Og hann svaf í hærusekknum og gekk hljóðlega.

28 Þá kom orð Drottins til Elía Tisbíta, svolátandi:

29 "Hefir þú séð, hversu Akab lægir sig fyrir mér? Af því að hann hefir lægt sig fyrir mér, mun ég eigi leiða ógæfuna yfir meðan hann lifir, en á dögum sonar hans mun ég leiða ógæfuna yfir ætt hans."

Markúsarguðspjall 9:9-13

Á leiðinni ofan fjallið bannaði hann þeim að segja nokkrum frá því, er þeir höfðu séð, fyrr en Mannssonurinn væri risinn upp frá dauðum.

10 Þeir festu orðin í minni og ræddu um, hvað væri að rísa upp frá dauðum.

11 Og þeir spurðu hann: "Hví segja fræðimennirnir, að Elía eigi fyrst að koma?"

12 Hann svaraði þeim: "Víst kemur Elía fyrst og færir allt í lag. En hvernig er ritað um Mannssoninn? Á hann ekki margt að líða og smáður verða?

13 En ég segi yður: Elía er kominn, og þeir gjörðu honum allt, sem þeir vildu, eins og ritað er um hann."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society