Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 119:9-16

Með hverju getur ungur maður haldið vegi sínum hreinum? Með því að gefa gaum að orði þínu.

10 Ég leita þín af öllu hjarta, lát mig eigi villast frá boðum þínum.

11 Ég geymi orð þín í hjarta mínu, til þess að ég skuli eigi syndga gegn þér.

12 Lofaður sért þú, Drottinn, kenn mér lög þín.

13 Með vörum mínum tel ég upp öll ákvæði munns þíns.

14 Yfir vegi vitnisburða þinna gleðst ég eins og yfir alls konar auði.

15 Fyrirmæli þín vil ég íhuga og skoða vegu þína.

16 Ég leita unaðar í lögum þínum, gleymi eigi orði þínu.

Orðskviðirnir 2:1-15

Son minn, ef þú veitir orðum mínum viðtöku og geymir boðorð mín hjá þér,

svo að þú ljáir spekinni athygli þína, hneigir hjarta þitt að hyggindum,

já, ef þú kallar á skynsemina og hrópar á hyggindin,

ef þú leitar að þeim sem að silfri og grefst eftir þeim eins og fólgnum fjársjóðum,

þá munt þú skilja, hvað ótti Drottins er, og öðlast þekking á Guði.

Því að Drottinn veitir speki, af munni hans kemur þekking og hyggindi.

Hann geymir hinum ráðvöndu gæfuna, er skjöldur þeirra, sem breyta grandvarlega,

með því að hann vakir yfir stigum réttarins og varðveitir veg sinna guðhræddu.

Þá munt þú og skilja, hvað réttlæti er og réttur og ráðvendni, _ í stuttu máli, sérhverja braut hins góða.

10 Því að speki mun koma í hjarta þitt, og þekking verða sálu þinni yndisleg.

11 Aðgætni mun vernda þig, og hyggindin varðveita þig,

12 til þess að frelsa þig frá vegi hins illa, frá þeim mönnum, sem fara með fals,

13 sem yfirgefa stigu einlægninnar og ganga á vegum myrkursins

14 sem hafa gleði af því að gjöra illt, fagna yfir illsku hrekkjum,

15 sem gjöra vegu sína hlykkjótta og komnir eru út á glapstigu í breytni sinni,

Matteusarguðspjall 19:1-12

19 Þegar Jesús hafði mælt þessum orðum, fór hann úr Galíleu og hélt til byggða Júdeu handan Jórdanar.

Fjöldi manna fylgdi honum, og þar læknaði hann þá.

Þá komu til hans farísear og vildu freista hans. Þeir spurðu: "Leyfist manni að skilja við konu sína fyrir hvaða sök sem er?"

Hann svaraði: "Hafið þér eigi lesið, að skaparinn gjörði þau frá upphafi karl og konu

og sagði: ,Fyrir því skal maður yfirgefa föður og móður og bindast konu sinni, og þau tvö skulu verða einn maður.`

Þannig eru þau ekki framar tvö, heldur einn maður. Það sem Guð hefur tengt saman, má maður eigi sundur skilja."

Þeir segja við hann: "Hvers vegna bauð þá Móse að gefa konu skilnaðarbréf og skilja svo við hana?"

Hann svarar: "Vegna harðúðar hjartna yðar leyfði Móse yður að skilja við konur yðar, en frá upphafi var þetta eigi þannig.

Ég segi yður: Sá sem skilur við konu sína nema sakir hórdóms og kvænist annarri, drýgir hór."

10 Þá sögðu lærisveinar hans: "Fyrst svo er háttað stöðu karls gagnvart konu, þá er ekki vænlegt að kvænast."

11 Hann svaraði þeim: "Þetta er ekki á allra færi, heldur þeirra einna, sem það er gefið.

12 Sumir eru vanhæfir til hjúskapar frá móðurlífi, sumir eru vanhæfir gjörðir af manna völdum, sumir hafa sjálfir gjört sig vanhæfa vegna himnaríkis. Sá höndli, sem höndlað fær."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society