Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
105 Þitt orð er lampi fóta minna og ljós á vegum mínum.
106 Ég hefi svarið og haldið það að varðveita þín réttlátu ákvæði.
107 Ég er mjög beygður, Drottinn, lát mig lífi halda eftir orði þínu.
108 Haf þóknun á sjálfviljafórnum munns míns, Drottinn, og kenn mér ákvæði þín.
109 Líf mitt er ætíð í hættu, en þínu lögmáli hefi ég eigi gleymt.
110 Óguðlegir hafa lagt snöru fyrir mig, en ég hefi eigi villst frá fyrirmælum þínum.
111 Reglur þínar eru eign mín um aldur, því að þær eru yndi hjarta míns.
112 Ég hneigi hjarta mitt að því að breyta eftir lögum þínum, um aldur og allt til enda.
3 Á átjánda ríkisári Jósía konungs sendi konungur Safan Asaljason, Mesúllamssonar, kanslara, í musteri Drottins og sagði:
4 "Gakk þú til Hilkía æðsta prests og innsigla fé það, er borið hefir verið í musteri Drottins, það er dyraverðirnir hafa safnað saman af lýðnum,
5 og fá það í hendur verkstjórunum, þeim er umsjón hafa með musteri Drottins, þeir skulu fá það í hendur verkamönnunum, sem vinna að því í musteri Drottins að gjöra við skemmdir á musterinu,
6 trésmiðunum og byggingamönnunum og múrurunum, svo og til að kaupa fyrir við og höggna steina til þess að gjöra við musterið.
7 Þó er ekki haldinn reikningur við þá á fénu, sem þeim var fengið í hendur, heldur gjöra þeir það upp á æru og trú."
8 Þá mælti Hilkía æðsti prestur við Safan kanslara: "Ég hefi fundið lögbók í musteri Drottins." Og Hilkía fékk Safan bókina og hann las hana.
9 Síðan fór Safan kanslari til konungs og skýrði konungi frá erindislokum og mælti: "Þjónar þínir hafa látið af hendi fé það, er var í musteri Drottins, og fengið í hendur verkstjórunum, sem umsjón hafa með musteri Drottins."
10 Og Safan kanslari sagði konungi frá og mælti: "Hilkía prestur fékk mér bók." Og Safan las hana fyrir konungi.
11 En er konungur heyrði orð lögbókarinnar, reif hann klæði sín.
12 Og hann bauð þeim Hilkía presti, Ahíkam Safanssyni, Akbór Míkajasyni, Safan kanslara og Asaja konungsþjóni á þessa leið:
13 "Farið og gangið til frétta við Drottin fyrir mig og fyrir lýðinn og fyrir allan Júda um þessa nýfundnu bók, því að mikil er heift Drottins, sú er upptendruð er í gegn oss, af því að feður vorir hafa eigi hlýtt orðum bókar þessarar með því að gjöra að öllu svo sem skrifað er í henni."
14 Þá fóru þeir Hilkía prestur, Ahíkam, Akbór, Safan og Asaja til Huldu spákonu, konu Sallúms Tikvasonar, Harhasonar, klæðageymis. Bjó hún í Jerúsalem í öðru borgarhverfi, og töluðu þeir við hana.
15 Hún mælti við þá: "Svo segir Drottinn, Guð Ísraels: Segið manninum, er sendi yður til mín:
16 Svo segir Drottinn: Sjá, ég leiði ógæfu yfir þennan stað og íbúa hans, allar ógnanir bókar þessarar, er Júdakonungur hefir lesið,
17 fyrir því að þeir hafa yfirgefið mig og fært öðrum guðum reykelsisfórnir og egnt mig til reiði með öllum handaverkum sínum, og heift mín skal upptendrast gegn þessum stað og eigi slokkna.
18 En segið svo Júdakonungi, þeim er sendi yður til þess að ganga til frétta við Drottin: Svo segir Drottinn, Guð Ísraels:
19 Af því að hjarta þitt hefir komist við og þú auðmýktir þig fyrir Drottni, er þú heyrðir, hvað ég hafði talað gegn þessum stað og íbúum hans, að þeir skyldu verða undrunarefni og formælingar, og af því að þú reifst klæði þín og grést frammi fyrir mér, þá hefi ég og bænheyrt þig _ segir Drottinn.
20 Fyrir því vil ég láta þig safnast til feðra þinna, að þú megir komast með friði í gröf þína, og augu þín þurfi ekki að horfa upp á alla þá ógæfu, er ég leiði yfir þennan stað." Fluttu þeir konungi svarið.
2 Guð hefur ekki útskúfað lýð sínum, sem hann þekkti fyrirfram. Eða vitið þér ekki, hvað Ritningin segir í kaflanum um Elía, hvernig hann kemur fram fyrir Guð með kæru á hendur Ísrael:
3 "Drottinn, spámenn þína hafa þeir drepið og rifið niður ölturu þín og ég er einn skilinn eftir, og þeir sitja um líf mitt."
4 En hvaða svar fær hann hjá Guði? "Sjálfum mér hef ég eftir skilið sjö þúsundir manna, sem hafa ekki beygt kné fyrir Baal."
5 Svo eru þá líka á vorum tíma leifar orðnar eftir, sem Guð hefur útvalið af náð.
6 En ef það er af náð, þá er það ekki framar af verkum, annars væri náðin ekki framar náð.
7 Hvað þá? Það sem Ísrael sækist eftir, það hlotnaðist honum ekki, en hinum útvöldu hlotnaðist það. Hinir urðu forhertir,
8 eins og ritað er: Guð gaf þeim sljóan anda, augu sem sjá ekki, eyru sem heyra ekki, allt fram á þennan dag.
9 Og Davíð segir: Verði borðhald þeirra snara og gildra, til falls og til hegningar þeim!
10 Blindist augu þeirra, til þess að þeir sjái ekki, og gjör bak þeirra bogið um aldur.
by Icelandic Bible Society