Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 37:1-17

37 Davíðssálmur. Ver eigi of bráður vegna illvirkjanna, öfunda eigi þá er ranglæti fremja,

því að þeir fölna skjótt sem grasið, visna sem grænar jurtir.

Treyst Drottni og gjör gott, bú þú í landinu og iðka ráðvendni,

þá munt þú gleðjast yfir Drottni, og hann mun veita þér það sem hjarta þitt girnist.

Fel Drottni vegu þína og treyst honum, hann mun vel fyrir sjá.

Hann mun láta réttlæti þitt renna upp sem ljós og rétt þinn sem hábjartan dag.

Ver hljóður fyrir Drottni og vona á hann. Ver eigi of bráður vegna þeirra er vel gengur, vegna þess manns er svik fremur.

Lát af reiði og slepp heiftinni, ver eigi of bráður, það leiðir til ills eins.

Illvirkjarnir verða afmáðir, en þeir er vona á Drottin, fá landið til eignar.

10 Innan stundar eru engir guðlausir til framar, þegar þú gefur gætur að stað þeirra, eru þeir horfnir.

11 En hinir hógværu fá landið til eignar, gleðjast yfir ríkulegri gæfu.

12 Óguðlegur maður býr yfir illu gegn réttlátum, nístir tönnum gegn honum.

13 Drottinn hlær að honum, því að hann sér að dagur hans kemur.

14 Óguðlegir bregða sverðinu og benda boga sína til þess að fella hinn hrjáða og snauða, til þess að brytja niður hina ráðvöndu.

15 En sverð þeirra lendir í þeirra eigin hjörtum, og bogar þeirra munu brotnir verða.

16 Betri er lítil eign réttláts manns en auðlegð margra illgjarnra,

17 því að armleggur illgjarnra verður brotinn, en réttláta styður Drottinn.

Rutarbók 3:1-13

Naomí, tengdamóðir Rutar, sagði við hana: "Dóttir mín, á ég ekki að útvega þér athvarf, til þess að þér vegni vel?

Þú hefir verið með stúlkunum hans Bóasar, en hann er frændi okkar. Sjá, hann varpar í nótt bygginu í láfa sínum.

Þvo þér nú og smyr þig og far í önnur föt og gakk ofan í láfann, en láttu ekki manninn verða varan við þig fyrr en hann hefir etið og drukkið.

En þegar hann leggst til hvíldar, þá taktu eftir, hvar hann leggst niður, og gakk þú þangað og flettu upp ábreiðunni til fóta honum og leggst þar niður. Hann mun þá segja þér, hvað þú átt að gjöra."

Og hún svaraði henni: "Ég vil gjöra allt, sem þú segir."

Síðan gekk hún ofan í láfann og gjörði allt svo sem tengdamóðir hennar hafði fyrir hana lagt.

Er Bóas hafði etið og drukkið og var í góðu skapi, þá fór hann og lagðist til hvíldar við endann á kornbingnum. Þá kom hún hljóðlega, fletti upp ábreiðunni til fóta honum og lagðist niður.

En um miðnætti varð manninum bilt við, og er hann settist upp, sjá, þá lá kona til fóta honum.

Og hann sagði: "Hver ert þú?" Hún svaraði: "Ég er Rut ambátt þín. Breið þú væng þinn yfir ambátt þína, því að þú ert lausnarmaður."

10 Þá sagði hann: "Blessuð sért þú af Drottni, dóttir mín! Þú hefir nú síðast sýnt elsku þína enn betur en áður, með því að elta ekki ungu mennina, hvorki fátækan né ríkan.

11 Og ver þú nú óhrædd, dóttir mín. Að öllu, svo sem þú segir, mun ég við þig gjöra, því að allir samborgarmenn mínir vita, að þú ert væn kona.

12 Nú er það að vísu satt, að ég er lausnarmaður, en þó er til annar lausnarmaður, sem er nákomnari en ég.

13 Vertu hér í nótt, en á morgun, ef hann þá vill leysa þig, gott og vel, þá gjöri hann það, en vilji hann ekki leysa þig, þá mun ég leysa þig, svo sannarlega sem Drottinn lifir. Liggðu nú kyrr til morguns."

Rutarbók 4:13-21

13 Síðan gekk Bóas að eiga Rut, og hún varð kona hans. Og hann gekk inn til hennar, og Drottinn veitti henni getnað, og ól hún son.

14 Þá sögðu konurnar við Naomí: "Lofaður sé Drottinn, sem eigi hefir látið þig bresta lausnarmann í dag, svo að nafn hans mun nefnt verða í Ísrael.

15 Hann mun verða huggun þín og ellistoð, því að tengdadóttir þín, sem elskar þig, hefir alið hann, hún, sem er þér betri en sjö synir."

16 Naomí tók barnið og lagði það á skaut sér og varð fóstra þess.

17 Og grannkonurnar gáfu honum nafn og sögðu: "Naomí er fæddur sonur!" og nefndu hann Óbeð. Hann var faðir Ísaí, föður Davíðs.

18 Þetta er ættartala Peres: Peres gat Hesron,

19 og Hesron gat Ram, og Ram gat Ammínadab,

20 og Ammínadab gat Nakson, og Nakson gat Salmón,

21 og Salmón gat Bóas, og Bóas gat Óbeð,

Lúkasarguðspjall 6:17-26

17 Hann gekk ofan með þeim og nam staðar á sléttri flöt. Þar var stór hópur lærisveina hans og mikill fjöldi fólks úr allri Júdeu, frá Jerúsalem og sjávarbyggðum Týrusar og Sídonar,

18 er komið hafði til að hlýða á hann og fá lækning meina sinna. Einnig voru þeir læknaðir, er þjáðir voru af óhreinum öndum.

19 Allt fólkið reyndi að snerta hann, því að frá honum kom kraftur, er læknaði alla.

20 Þá hóf hann upp augu sín, leit á lærisveina sína og sagði: "Sælir eruð þér, fátækir, því að yðar er Guðs ríki.

21 Sælir eruð þér, sem nú hungrar, því að þér munuð saddir verða. Sælir eruð þér, sem nú grátið, því að þér munuð hlæja.

22 Sælir eruð þér, þá er menn hata yður, þá er þeir útskúfa yður og smána og bera út óhróður um yður vegna Mannssonarins.

23 Fagnið á þeim degi og leikið af gleði, því laun yðar eru mikil á himni, og á sama veg fóru feður þeirra með spámennina.

24 En vei yður, þér auðmenn, því að þér hafið tekið út huggun yðar.

25 Vei yður, sem nú eruð saddir, því að yður mun hungra. Vei yður, sem nú hlæið, því að þér munuð sýta og gráta.

26 Vei yður, þá er allir menn tala vel um yður, því að á sama veg fórst feðrum þeirra við falsspámennina.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society