Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
37 Davíðssálmur. Ver eigi of bráður vegna illvirkjanna, öfunda eigi þá er ranglæti fremja,
2 því að þeir fölna skjótt sem grasið, visna sem grænar jurtir.
3 Treyst Drottni og gjör gott, bú þú í landinu og iðka ráðvendni,
4 þá munt þú gleðjast yfir Drottni, og hann mun veita þér það sem hjarta þitt girnist.
5 Fel Drottni vegu þína og treyst honum, hann mun vel fyrir sjá.
6 Hann mun láta réttlæti þitt renna upp sem ljós og rétt þinn sem hábjartan dag.
7 Ver hljóður fyrir Drottni og vona á hann. Ver eigi of bráður vegna þeirra er vel gengur, vegna þess manns er svik fremur.
8 Lát af reiði og slepp heiftinni, ver eigi of bráður, það leiðir til ills eins.
9 Illvirkjarnir verða afmáðir, en þeir er vona á Drottin, fá landið til eignar.
10 Innan stundar eru engir guðlausir til framar, þegar þú gefur gætur að stað þeirra, eru þeir horfnir.
11 En hinir hógværu fá landið til eignar, gleðjast yfir ríkulegri gæfu.
12 Óguðlegur maður býr yfir illu gegn réttlátum, nístir tönnum gegn honum.
13 Drottinn hlær að honum, því að hann sér að dagur hans kemur.
14 Óguðlegir bregða sverðinu og benda boga sína til þess að fella hinn hrjáða og snauða, til þess að brytja niður hina ráðvöndu.
15 En sverð þeirra lendir í þeirra eigin hjörtum, og bogar þeirra munu brotnir verða.
16 Betri er lítil eign réttláts manns en auðlegð margra illgjarnra,
17 því að armleggur illgjarnra verður brotinn, en réttláta styður Drottinn.
1 Í þá daga, er dómararnir stjórnuðu, bar svo til, að hallæri var í landinu. Fór þá maður nokkur frá Betlehem í Júda til þess að dveljast sem útlendingur í Móabslandi ásamt konu sinni og tveimur sonum sínum.
2 Þessi maður hét Elímelek og kona hans Naomí, en synir hans tveir Mahlón og Kiljón. Þau voru af Efrataætt frá Betlehem í Júda. Þau komu til Móabslands og dvöldust þar.
3 Þá dó Elímelek, maður Naomí, en hún lifði eftir með báðum sonum sínum.
4 Þeir gengu að eiga móabítískar konur, og hét önnur Orpa, en hin Rut. Og þeir bjuggu þar hér um bil tíu ár.
5 Þá dóu þeir líka báðir, Mahlón og Kiljón, og konan lifði ein eftir báða sonu sína og mann sinn.
6 Þá bjóst Naomí til að hverfa aftur heim frá Móabslandi með tengdadætrum sínum, því að hún hafði heyrt í Móabslandi, að Drottinn hefði vitjað lýðs síns og gefið þeim brauð.
7 Lagði hún nú af stað þaðan, er hún hafði verið, og báðar tengdadætur hennar með henni. En er þær voru farnar á leið til þess að hverfa aftur til Júdalands,
8 þá sagði Naomí við báðar tengdadætur sínar: "Farið, snúið við, hvor um sig til húss móður sinnar. Drottinn auðsýni ykkur gæsku, eins og þið hafið auðsýnt hinum látnu og mér.
9 Drottinn gefi ykkur, að þið megið finna athvarf hvor um sig í húsi manns síns." Síðan kyssti hún þær. En þær tóku að gráta hástöfum
10 og sögðu við hana: "Nei, við viljum hverfa aftur með þér til þíns fólks!"
11 Naomí svaraði: "Hverfið aftur, dætur mínar! Hví viljið þið fara með mér? Mun ég enn bera sonu í skauti mínu, er verða megi menn ykkar?
12 Hverfið aftur, dætur mínar, farið heim, því að ég er orðin of gömul til að giftast aftur. En setjum nú svo, að ég hugsaði: ,Ég hefi enn von,` og að ég giftist meira að segja í kveld og fæddi einnig sonu, ættuð þið fyrir þá sök að bíða, til þess er þeir yrðu fulltíða?
13 Ættuð þið fyrir þá sök að loka ykkur inni og ekki giftast? Nei, dætur mínar, mig tekur mjög sárt til ykkar, því að hönd Drottins hefir lagst þungt á mig."
14 Þá tóku þær enn að gráta hástöfum. Og Orpa kvaddi tengdamóður sína með kossi, en Rut gat ekki slitið sig frá henni.
15 Þá mælti Naomí: "Sjá, mágkona þín er snúin heim aftur til síns fólks og síns guðs. Far þú heim aftur á eftir mágkonu þinni."
16 En Rut svaraði: "Leggðu eigi að mér um það að yfirgefa þig og hverfa aftur, en fara eigi með þér, því að hvert sem þú fer, þangað fer ég, og hvar sem þú náttar, þar nátta ég. Þitt fólk er mitt fólk og þinn guð er minn guð.
17 Hvar sem þú deyr, þar dey ég, og þar vil ég vera grafin. Hvað sem Drottinn lætur fram við mig koma, þá skal dauðinn einn aðskilja mig og þig."
18 Og er Naomí sá, að hún var fastráðin í því að fara með henni, hætti hún að tala um fyrir henni.
1 Páll, bandingi Krists Jesú, og Tímóteus bróðir vor, heilsa elskuðum vini okkar og samverkamanni Fílemon,
2 svo og Appíu systur okkar og Arkippusi samherja okkar og söfnuðinum, sem kemur saman í húsi þínu.
3 Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.
4 Ég þakka Guði mínum ávallt, er ég minnist þín í bænum mínum.
5 Því að ég heyri um trúna, sem þú hefur á Drottni Jesú, og um kærleika þinn til hinna heilögu.
6 Ég bið þess, að trú þín, sem þú átt með oss, verði mikilvirk í þekkingunni á öllu því góða, sem tilheyrir Kristi.
7 Ég hlaut mikla gleði og huggun af kærleika þínum, þar eð þú, bróðir, hefur endurnært hjörtu hinna heilögu.
8 Því er það, að þótt ég gæti með fullri djörfung í Kristi boðið þér að gera það, sem skylt er,
9 þá fer ég þó heldur bónarveg vegna kærleika þíns, þar sem ég er eins og ég er, hann Páll gamli, og nú líka bandingi Krists Jesú.
10 Ég bið þig þá fyrir barnið mitt, sem ég hef getið í fjötrum mínum, hann Onesímus.
11 Hann var þér áður óþarfur, en er nú þarfur bæði þér og mér.
12 Ég sendi hann til þín aftur, og er hann þó sem hjartað í brjósti mér.
13 Feginn vildi ég hafa haldið honum hjá mér, til þess að hann í þinn stað veitti mér þjónustu í fjötrum mínum vegna fagnaðarerindisins.
14 En án þíns samþykkis vildi ég ekkert gjöra, til þess að velgjörð þín skyldi ekki koma eins og af nauðung, heldur af fúsum vilja.
15 Vísast hefur hann þess vegna orðið viðskila við þig um stundarsakir, að þú síðan skyldir fá að halda honum eilíflega,
16 ekki lengur eins og þræli, heldur þræli fremri, eins og elskuðum bróður. Mér er hann kær bróðir. Hve miklu fremur þó þér, bæði sem maður og kristinn.
17 Ef þú því telur mig félaga þinn, þá tak þú á móti honum, eins og væri það ég sjálfur.
18 En hafi hann eitthvað gjört á hluta þinn, eða sé hann í skuld við þig, þá fær þú það mér til reiknings.
19 Ég, Páll, rita með eigin hendi: Ég mun gjalda. Að ég ekki nefni við þig, að þú ert jafnvel í skuld við mig um sjálfan þig.
20 Já, bróðir, unn mér gagns af þér vegna Drottins, endurnær hjarta mitt sakir Krists.
21 Í fullu trausti til hlýðni þinnar rita ég til þín og veit, að þú munt gjöra jafnvel fram yfir það, sem ég mælist til.
22 En hafðu líka til gestaherbergi handa mér, því að ég vona, að ég vegna bæna yðar muni verða gefinn yður.
23 Epafras, sambandingi minn vegna Krists Jesú, biður að heilsa þér. Sömuleiðis
24 Markús, Aristarkus, Demas og Lúkas, samverkamenn mínir.
by Icelandic Bible Society