Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
5 "Ég vil staðfesta ætt þína að eilífu, reisa hásæti þitt frá kyni til kyns." [Sela]
6 Þá lofuðu himnarnir dásemdarverk þín, Drottinn, og söfnuður heilagra trúfesti þína.
7 Því að hver er í himninum jafn Drottni, hver er líkur Drottni meðal guðasonanna?
8 Guð er ægilegur í hópi heilagra, mikill er hann og óttalegur öllum þeim, sem eru umhverfis hann.
9 Drottinn, Guð hersveitanna, hver er sem þú? Þú ert voldugur, Drottinn, og trúfesti þín er umhverfis þig.
10 Þú ræður yfir ofstopa hafsins, þegar öldur þess hefjast, stöðvar þú þær.
11 Þú knosaðir skrímslið eins og veginn mann, með þínum volduga armi tvístraðir þú óvinum þínum.
12 Þinn er himinninn, þín er og jörðin, þú hefir grundvallað veröldina og allt sem í henni er.
13 Þú hefir skapað norðrið og suðrið, Tabor og Hermon fagna yfir nafni þínu.
14 Þú hefir máttugan armlegg, hönd þín er sterk, hátt upphafin hægri hönd þín.
15 Réttlæti og réttvísi er grundvöllur hásætis þíns, miskunn og trúfesti ganga frammi fyrir þér.
16 Sæll er sá lýður, sem þekkir fagnaðarópið, sem gengur í ljósi auglitis þíns, Drottinn.
17 Þeir gleðjast yfir nafni þínu alla daga og fagna yfir réttlæti þínu,
18 því að þú ert þeirra máttug prýði, og sakir velþóknunar þinnar munt þú hefja horn vort,
19 því að Drottni heyrir skjöldur vor, konungur vor Hinum heilaga í Ísrael.
20 Þá talaðir þú í sýn til dýrkanda þíns og sagðir: "Ég hefi sett kórónu á kappa, ég hefi upphafið útvaldan mann af lýðnum.
21 Ég hefi fundið Davíð þjón minn, smurt hann með minni heilögu olíu.
22 Hönd mín mun gjöra hann stöðugan og armleggur minn styrkja hann.
23 Óvinurinn skal eigi ráðast að honum, og ekkert illmenni skal kúga hann,
24 heldur skal ég gjöra út af við fjendur hans að honum ásjáandi, og hatursmenn hans skal ég ljósta.
25 Trúfesti mín og miskunn skulu vera með honum, og fyrir sakir nafns míns skal horn hans gnæfa hátt.
26 Ég legg hönd hans á hafið og hægri hönd hans á fljótin.
27 Hann mun segja við mig: Þú ert faðir minn, Guð minn og klettur hjálpræðis míns.
28 Og ég vil gjöra hann að frumgetning, að hinum hæsta meðal konunga jarðarinnar.
29 Ég vil varðveita miskunn mína við hann að eilífu, og sáttmáli minn við hann skal stöðugur standa.
30 Ég læt niðja hans haldast við um aldur og hásæti hans meðan himinninn er til.
31 Ef synir hans hafna lögmáli mínu og ganga eigi eftir boðum mínum,
32 ef þeir vanhelga lög mín og varðveita eigi boðorð mín,
33 þá vil ég vitja afbrota þeirra með vendinum og misgjörða þeirra með plágum,
34 en miskunn mína mun ég ekki frá honum taka og eigi bregða trúfesti minni.
35 Ég vil eigi vanhelga sáttmála minn og eigi breyta því, er mér hefir af vörum liðið.
36 Ég hefi einu sinni svarið við heilagleik minn og mun aldrei svíkja Davíð:
37 Niðjar hans skulu haldast við um aldur og hásæti hans sem sólin fyrir mér.
51 Hlýðið á mig, þér sem leggið stund á réttlæti, þér sem leitið Drottins! Lítið á hellubjargið, sem þér eruð af höggnir, og á brunnholuna, sem þér eruð úr grafnir!
2 Lítið á Abraham, föður yðar, og á Söru, sem ól yður! Því að barnlausan kallaði ég hann, en ég blessaði hann og jók kyn hans.
3 Já, Drottinn huggar Síon, huggar allar rústir hennar. Hann gjörir auðn hennar sem Eden og heiði hennar sem aldingarð Drottins. Fögnuður og gleði mun finnast í henni, þakkargjörð og lofsöngur.
4 Hlýð þú á mig, þú lýður minn, hlusta á mig, þú þjóð mín, því frá mér mun kenning út ganga og minn réttur sem ljós fyrir þjóðirnar.
5 Skyndilega nálgast réttlæti mitt, hjálpræði mitt er á leiðinni. Armleggir mínir munu færa þjóðunum réttlæti. Fjarlægar landsálfur vænta mín og bíða eftir mínum armlegg.
6 Hefjið augu yðar til himins og lítið á jörðina hér neðra. Himinninn mun leysast sundur sem reykur og jörðin fyrnast sem fat og þeir, sem á henni búa, deyja sem mý. En mitt hjálpræði varir eilíflega, og mínu réttlæti mun eigi linna.
7 Hlýðið á mig, þér sem þekkið réttlætið, þú lýður, sem ber lögmál mitt í hjarta þínu. Óttist eigi spott manna og hræðist eigi smánaryrði þeirra,
8 því að mölur mun eta þá eins og klæði og maur eta þá eins og ull. En réttlæti mitt varir eilíflega og hjálpræði mitt frá kyni til kyns.
9 Vakna þú, vakna þú, íklæð þig styrkleika, armleggur Drottins! Vakna þú, eins og fyrr á tíðum, eins og í árdaga! Varst það eigi þú, sem banaðir skrímslinu og lagðir í gegn drekann?
10 Varst það eigi þú, sem þurrkaðir upp hafið, vötn hins mikla djúps, sem gjörðir sjávardjúpin að vegi, svo að hinir endurleystu gætu komist yfir?
11 Hinir endurkeyptu Drottins skulu aftur hverfa og koma með fögnuði til Síonar, og eilíf gleði skal leika yfir höfði þeim. Fögnuður og gleði skal fylgja þeim, en hryggð og andvarpan flýja.
12 Ég, ég er sá sem huggar yður. Hver ert þú, að þú skulir hrædd vera við mennina, sem eiga að deyja, og mannanna börn, sem felld verða eins og grasið,
13 en gleymir Drottni, skapara þínum, sem útþandi himininn og grundvallaði jörðina, að þú óttast stöðugt liðlangan daginn heift kúgarans? Þegar hann býr sig til að gjöreyða, hvar er þá heift kúgarans?
14 Brátt skulu þeir, er fjötraðir eru, leystir verða, og þeir skulu eigi deyja og fara í gröfina, né heldur skal þá skorta brauð _
15 svo sannarlega sem ég er Drottinn, Guð þinn, sá er æsir hafið, svo að bylgjurnar gnýja. Drottinn allsherjar er nafn hans.
16 Ég hefi lagt mín orð í munn þér og skýlt þér undir skugga handar minnar, ég, sem gróðursetti himininn og grundvallaði jörðina og segi við Síon: "Þú ert minn lýður!"
15 Þegar Jesús varð þess vís, fór hann þaðan. Margir fylgdu honum, og alla læknaði hann.
16 En hann lagði ríkt á við þá, að þeir gjörðu hann eigi kunnan.
17 Þannig rættist það, sem sagt er fyrir munn Jesaja spámanns:
18 Sjá þjón minn, sem ég hef útvalið, minn elskaða, sem sál mín hefur þóknun á. Ég mun láta anda minn koma yfir hann, og hann mun boða þjóðunum rétt.
19 Eigi mun hann þrátta né hrópa, og eigi mun raust hans heyrast á strætum.
20 Brákaðan reyr brýtur hann ekki, og rjúkandi hörkveik mun hann ekki slökkva, uns hann hefur leitt réttinn til sigurs.
21 Á nafn hans munu þjóðirnar vona.
by Icelandic Bible Society