Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
72 Eftir Salómon. Guð, sel konungi í hendur dóma þína og konungssyni réttlæti þitt,
2 að hann dæmi lýð þinn með réttvísi og þína þjáðu með sanngirni.
3 Fjöllin beri lýðnum frið og hálsarnir réttlæti.
4 Hann láti hina þjáðu meðal lýðsins ná rétti sínum, hann hjálpi hinum snauðu og kremji kúgarann.
5 Þá mun hann lifa meðan sólin skín og tunglið ber birtu, frá kyni til kyns.
6 Hann mun falla sem regn á slægjuland, sem regnskúrir, er vökva landið.
7 Um hans daga skal réttlætið blómgast og gnóttir friðar, uns tunglið er eigi framar til.
8 Og hann skal ríkja frá hafi til hafs, frá Fljótinu til endimarka jarðar.
9 Fjandmenn hans skulu beygja kné fyrir honum og óvinir hans sleikja duftið.
10 Konungarnir frá Tarsis og eylöndunum skulu koma með gjafir, konungarnir frá Saba og Seba skulu færa skatt.
11 Og allir konungar skulu lúta honum, allar þjóðir þjóna honum.
12 Hann bjargar hinum snauða, er hrópar á hjálp, og hinum þjáða, er enginn liðsinnir.
13 Hann aumkast yfir bágstadda og snauða, og fátækum hjálpar hann.
14 Frá ofbeldi og ofríki leysir hann þá, og blóð þeirra er dýrmætt í augum hans.
15 Hann mun lifa og menn munu gefa honum Saba-gull, menn munu sífellt biðja fyrir honum, blessa hann liðlangan daginn.
16 Gnóttir korns munu vera í landinu, á fjallatindunum, í gróðri þess mun þjóta eins og í Líbanon, og menn skulu spretta upp í borgunum eins og gras úr jörðu.
17 Nafn hans mun vara að eilífu, meðan sólin skín mun nafn hans gróa. Og með honum skulu allar ættkvíslir jarðarinnar óska sér blessunar, allar þjóðir munu hann sælan segja.
18 Lofaður sé Drottinn, Guð, Ísraels Guð, sem einn gjörir furðuverk,
19 og lofað sé hans dýrlega nafn um eilífð, og öll jörðin fyllist dýrð hans. Amen, amen.
20 Bænir Davíðs Ísaísonar eru á enda.
14 Gullið, sem Salómon fékk á einu ári, var sex hundruð sextíu og sex talentur gulls að þyngd
15 auk þess, sem kom inn í tollum frá varningsmönnum og við verslun kaupmanna og frá öllum konungum Araba og jörlum landsins.
16 Og Salómon konungur lét gjöra tvö hundruð skildi af slegnu gulli _ fóru sex hundruð siklar gulls í hvern skjöld _,
17 og þrjú hundruð buklara af slegnu gulli, fóru þrjár mínur gulls í hvern buklara. Lét konungur leggja þá í Líbanonsskógarhúsið.
18 Konungur lét og gjöra hásæti mikið af fílabeini og lagði það skíru gulli.
19 Gengu sex þrep upp að hásætinu, og efst var hásætið kringlótt að aftan. Bríkur voru báðumegin sætisins, og stóðu tvö ljón við bríkurnar.
20 Og tólf ljón stóðu á þrepunum, sex hvorumegin. Slík smíð hefir aldrei verið gjörð í nokkru konungsríki.
21 Öll voru drykkjarker Salómons konungs af gulli, og öll áhöld í Líbanonsskógarhúsinu voru af skíru gulli, ekkert af silfri, því að silfur var einskis metið á dögum Salómons.
22 Konungur hafði Tarsis-skip í förum með skipum Hírams. Þriðja hvert ár komu Tarsis-skipin heim hlaðin gulli og silfri, fílabeini, öpum og páfuglum.
23 Salómon konungur bar af öllum konungum jarðarinnar að auðlegð og visku.
24 Og allan heiminn fýsti að sjá Salómon til þess að heyra visku hans, sem Guð hafði lagt honum í brjóst.
25 Komu þeir þá hver með sína gjöf, silfurgripi og gullgripi, klæði og vopn, kryddjurtir, hesta og múla, ár eftir ár.
7 Sérhverjum af oss var náðin veitt eftir því, sem Kristur úthlutaði honum.
11 Og frá honum er sú gjöf komin, að sumir eru postular, sumir spámenn, sumir trúboðar, sumir hirðar og kennarar.
12 Þeir eiga að fullkomna hina heilögu og láta þeim þjónustu í té, líkama Krists til uppbyggingar,
13 þangað til vér verðum allir einhuga í trúnni og þekkingunni á syni Guðs, verðum fullþroska og náum vaxtartakmarki Krists fyllingar.
14 Vér eigum ekki að halda áfram að vera börn, sem hrekjast og berast fram og aftur af hverjum kenningarvindi, tæld af slægum mönnum með vélabrögðum villunnar.
15 Vér eigum heldur að ástunda sannleikann í kærleika og vaxa í öllu upp til hans, sem er höfuðið, _ Kristur.
16 Hann tengir líkamann saman og heldur honum saman með því að láta sérhverja taug inna sína þjónustu af hendi, allt eftir þeim krafti, sem hann úthlutar hverri þeirra. Þannig lætur hann líkamann vaxa og byggjast upp í kærleika.
by Icelandic Bible Society