Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
72 Eftir Salómon. Guð, sel konungi í hendur dóma þína og konungssyni réttlæti þitt,
2 að hann dæmi lýð þinn með réttvísi og þína þjáðu með sanngirni.
3 Fjöllin beri lýðnum frið og hálsarnir réttlæti.
4 Hann láti hina þjáðu meðal lýðsins ná rétti sínum, hann hjálpi hinum snauðu og kremji kúgarann.
5 Þá mun hann lifa meðan sólin skín og tunglið ber birtu, frá kyni til kyns.
6 Hann mun falla sem regn á slægjuland, sem regnskúrir, er vökva landið.
7 Um hans daga skal réttlætið blómgast og gnóttir friðar, uns tunglið er eigi framar til.
8 Og hann skal ríkja frá hafi til hafs, frá Fljótinu til endimarka jarðar.
9 Fjandmenn hans skulu beygja kné fyrir honum og óvinir hans sleikja duftið.
10 Konungarnir frá Tarsis og eylöndunum skulu koma með gjafir, konungarnir frá Saba og Seba skulu færa skatt.
11 Og allir konungar skulu lúta honum, allar þjóðir þjóna honum.
12 Hann bjargar hinum snauða, er hrópar á hjálp, og hinum þjáða, er enginn liðsinnir.
13 Hann aumkast yfir bágstadda og snauða, og fátækum hjálpar hann.
14 Frá ofbeldi og ofríki leysir hann þá, og blóð þeirra er dýrmætt í augum hans.
15 Hann mun lifa og menn munu gefa honum Saba-gull, menn munu sífellt biðja fyrir honum, blessa hann liðlangan daginn.
16 Gnóttir korns munu vera í landinu, á fjallatindunum, í gróðri þess mun þjóta eins og í Líbanon, og menn skulu spretta upp í borgunum eins og gras úr jörðu.
17 Nafn hans mun vara að eilífu, meðan sólin skín mun nafn hans gróa. Og með honum skulu allar ættkvíslir jarðarinnar óska sér blessunar, allar þjóðir munu hann sælan segja.
18 Lofaður sé Drottinn, Guð, Ísraels Guð, sem einn gjörir furðuverk,
19 og lofað sé hans dýrlega nafn um eilífð, og öll jörðin fyllist dýrð hans. Amen, amen.
20 Bænir Davíðs Ísaísonar eru á enda.
10 Þegar drottningin í Saba spurði orðstír Salómons og orðróminn af húsinu, sem Salómon hafði reisa látið nafni Drottins, kom hún til þess að reyna hann með gátum.
2 Hún kom til Jerúsalem með mjög miklu föruneyti, með úlfalda, klyfjaða kryddjurtum og afar miklu gulli og gimsteinum. Og er hún kom til Salómons, bar hún upp fyrir honum allt, sem henni bjó í brjósti.
3 En Salómon svaraði öllum spurningum hennar. Var enginn hlutur hulinn konungi, er hann eigi gæti úr leyst fyrir hana.
4 Og er drottningin frá Saba sá alla speki Salómons og húsið, sem hann hafði reisa látið,
5 matinn á borði hans, bústaði þjóna hans og frammistöðu skutilsveina hans og klæði þeirra, byrlara hans og brennifórn hans, þá er hann fram bar í húsi Drottins, þá varð hún frá sér numin
6 og sagði við konung: "Satt var það, er ég heyrði í landi mínu um þig og speki þína.
7 En ég trúði ekki orðrómnum, fyrr en ég kom og sá það með eigin augum. Og þó hafði ég ekki frétt helminginn. Þú ert miklu vitrari og auðugri en ég hafði frétt.
8 Sælir eru menn þínir, sælir þessir þjónar þínir, sem stöðugt standa frammi fyrir þér og heyra speki þína.
9 Lofaður sé Drottinn, Guð þinn, sem hafði þóknun á þér, svo að hann setti þig í hásæti Ísraels. Af því að Drottinn elskar Ísrael eilíflega, gjörði hann þig að konungi til að iðka rétt og réttlæti."
10 Síðan gaf hún konungi hundrað og tuttugu talentur gulls og afar mikið af kryddjurtum og gimsteina. Hefir aldrei síðan hingað komið eins mikið af kryddjurtum eins og það, er drottningin frá Saba gaf Salómon konungi.
11 Sömuleiðis komu skip Hírams, er sóttu gull til Ófír, með afar mikið af rauðum sandelviði og gimsteinum frá Ófír.
12 Konungur lét gjöra handrið í hús Drottins og konungshöllina af sandelviðnum, svo og gígjur og hörpur handa söngmönnunum. Hefir aldrei slíkur sandelviður hingað komið eða sést hér fram á þennan dag.
13 Salómon konungur gaf drottningunni frá Saba allt, er hún girntist og kaus sér, auk þess er hann gaf henni af sinni konunglegu rausn. Hélt hún síðan heimleiðis og fór í land sitt með föruneyti sínu.
14 Þess vegna beygi ég kné mín fyrir föðurnum,
15 sem hvert faðerni fær nafn af á himni og jörðu.
16 Megi hann gefa yður af ríkdómi dýrðar sinnar að styrkjast fyrir anda sinn að krafti hið innra með yður,
17 til þess að Kristur megi fyrir trúna búa í hjörtum yðar og þér verða rótfestir og grundvallaðir í kærleika.
18 Þá fáið þér ásamt öllum heilögum skilið, hve kærleikur Krists er víður og langur, hár og djúpur, og komist að raun um hann,
19 sem gnæfir yfir alla þekkingu, og náið að fyllast allri Guðs fyllingu.
20 En honum, sem í oss verkar með krafti sínum og megnar að gjöra langt fram yfir allt það, sem vér biðjum eða skynjum,
21 honum sé dýrð í kirkjunni og í Kristi Jesú um öll æviskeið, öld eftir öld. Amen.
by Icelandic Bible Society