Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
20 Til söngstjórans. Davíðssálmur.
2 Drottinn bænheyri þig á degi neyðarinnar, nafn Jakobs Guðs bjargi þér.
3 Hann sendi þér hjálp frá helgidóminum, styðji þig frá Síon.
4 Hann minnist allra fórnargjafa þinna og taki brennifórn þína gilda. [Sela]
5 Hann veiti þér það er hjarta þitt þráir, og veiti framgang öllum áformum þínum.
6 Ó að vér mættum fagna yfir sigri þínum og veifa fánanum í nafni Guðs vors. Drottinn uppfylli allar óskir þínar.
7 Nú veit ég, að Drottinn veitir hjálp sínum smurða, svarar honum frá sínum helga himni, í máttarverkum kemur fulltingi hægri handar hans fram.
8 Hinir stæra sig af vögnum sínum og stríðshestum, en vér af nafni Drottins, Guðs vors.
9 Þeir fá knésig og falla, en vér rísum og stöndum uppréttir.
10 Drottinn! Hjálpa konunginum og bænheyr oss, er vér hrópum.
26 Á þeim degi mun þetta kvæði sungið verða í Júdalandi: Vér eigum rammgerva borg. Hjálpræði sitt gjörir hann að múrum og varnarvirki.
2 Látið upp hliðin, svo að réttlátur lýður megi inn ganga, sá er trúnaðinn varðveitir
3 og hefir stöðugt hugarfar. Þú veitir ævarandi frið, því að þeir treysta á þig.
4 Treystið Drottni æ og ætíð, því að Drottinn, Drottinn er eilíft bjarg.
5 Hann niðurlægir þá, sem byggja á hæðum. Háreistu borginni steypir hann niður, hann steypir henni til jarðar og leggur hana í duftið.
6 Fætur troða hana niður, fætur fátækra, iljar umkomulausra.
7 Vegur hins réttláta er sléttur, götu hins réttláta ryður þú.
8 Já, á vegi dóma þinna, Drottinn, væntum vér þín; þitt nafn og þína minning þráir sála vor.
9 Af hjarta þrái ég þig á næturnar, já, með andanum í brjósti mínu skima ég eftir þér. Þegar dómar þínir birtast á jörðu, þá læra byggjendur jarðríkis réttlæti.
16 Fyrir því látum vér ekki hugfallast. Jafnvel þótt vor ytri maður hrörni, þá endurnýjast dag frá degi vor innri maður.
17 Þrenging vor er skammvinn og léttbær og aflar oss eilífrar dýrðar sem stórum yfirgnæfir allt.
18 Vér horfum ekki á hið sýnilega, heldur hið ósýnilega. Hið sýnilega er stundlegt, en hið ósýnilega eilíft.
by Icelandic Bible Society