Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Jesaja 11:1-10

11 Af stofni Ísaí mun kvistur fram spretta og angi upp vaxa af rótum hans.

Yfir honum mun hvíla andi Drottins: Andi vísdóms og skilnings, andi ráðspeki og kraftar, andi þekkingar og ótta Drottins.

Unun hans mun vera að óttast Drottin. Hann mun ekki dæma eftir því, sem augu hans sjá, og ekki skera úr málum eftir því, sem eyru hans heyra.

Með réttvísi mun hann dæma hina fátæku og skera með réttlæti úr málum hinna nauðstöddu í landinu. Hann mun ljósta ofbeldismanninn með sprota munns síns og deyða hinn óguðlega með anda vara sinna.

Réttlæti mun vera beltið um lendar hans og trúfesti beltið um mjaðmir hans.

Þá mun úlfurinn búa hjá lambinu og pardusdýrið liggja hjá kiðlingnum, kálfar, ung ljón og alifé ganga saman og smásveinn gæta þeirra.

Kýr og birna munu vera á beit saman og kálfar og húnar liggja hvorir hjá öðrum, og ljónið mun hey eta sem naut.

Brjóstmylkingurinn mun leika sér við holudyr nöðrunnar, og barnið nývanið af brjósti stinga hendi sinni inn í bæli hornormsins.

Hvergi á mínu heilaga fjalli munu menn illt fremja eða skaða gjöra, því að jörðin er full af þekkingu á Drottni, eins og djúp sjávarins er vötnum hulið.

10 Á þeim degi mun rótarkvistur Ísaí standa sem hermerki fyrir þjóðirnar og lýðirnir leita til hans, og bústaður hans mun dýrlegur verða.

Sálmarnir 72:1-7

72 Eftir Salómon. Guð, sel konungi í hendur dóma þína og konungssyni réttlæti þitt,

að hann dæmi lýð þinn með réttvísi og þína þjáðu með sanngirni.

Fjöllin beri lýðnum frið og hálsarnir réttlæti.

Hann láti hina þjáðu meðal lýðsins ná rétti sínum, hann hjálpi hinum snauðu og kremji kúgarann.

Þá mun hann lifa meðan sólin skín og tunglið ber birtu, frá kyni til kyns.

Hann mun falla sem regn á slægjuland, sem regnskúrir, er vökva landið.

Um hans daga skal réttlætið blómgast og gnóttir friðar, uns tunglið er eigi framar til.

Sálmarnir 72:18-19

18 Lofaður sé Drottinn, Guð, Ísraels Guð, sem einn gjörir furðuverk,

19 og lofað sé hans dýrlega nafn um eilífð, og öll jörðin fyllist dýrð hans. Amen, amen.

Bréf Páls til Rómverja 15:4-13

Allt það, sem áður er ritað, er ritað oss til uppfræðingar, til þess að vér fyrir þolgæði og huggun ritninganna héldum von vorri.

En Guð, sem veitir þolgæðið og huggunina, gefi yður að vera samhuga að vilja Krists Jesú,

til þess að þér allir saman einum munni vegsamið Guð og föður Drottins vors Jesú Krists.

Takið því hver annan að yður, eins og Kristur tók yður að sér, Guði til dýrðar.

Ég segi, að Kristur sé orðinn þjónn hinna umskornu til að sýna orðheldni Guðs, til þess að staðfesta fyrirheitin, sem feðrunum voru gefin,

en heiðingjarnir vegsami Guð sakir miskunnar hans, eins og ritað er: "Þess vegna skal ég játa þig meðal heiðingja og lofsyngja þínu nafni."

10 Og enn segir: "Fagnið, þér heiðingjar, með lýð hans,"

11 og enn: "Lofið Drottin, allar þjóðir, og vegsami hann allir lýðir,"

12 og enn segir Jesaja: "Koma mun rótarkvistur Ísaí og sá, er rís upp til að stjórna þjóðum, á hann munu þjóðir vona."

13 Guð vonarinnar fylli yður öllum fögnuði og friði í trúnni, svo að þér séuð auðugir að voninni í krafti heilags anda.

Matteusarguðspjall 3:1-12

Á þeim dögum kemur Jóhannes skírari fram og prédikar í óbyggðum Júdeu.

Hann sagði: "Gjörið iðrun, himnaríki er í nánd."

Jóhannes er sá sem svo er um mælt hjá Jesaja spámanni: Rödd hrópanda í eyðimörk: Greiðið veg Drottins, gjörið beinar brautir hans.

Jóhannes bar klæði úr úlfaldahári og leðurbelti um lendar sér og hafði til matar engisprettur og villihunang.

Menn streymdu til hans frá Jerúsalem, allri Júdeu og Jórdanbyggð,

létu skírast af honum í ánni Jórdan og játuðu syndir sínar.

Þegar hann sá, að margir farísear og saddúkear komu til skírnar, sagði hann við þá: "Þér nöðru kyn, hver kenndi yður að flýja komandi reiði?

Berið þá ávöxt samboðinn iðruninni!

Látið yður ekki til hugar koma, að þér getið sagt með sjálfum yður: ,Vér eigum Abraham að föður.` Ég segi yður, að Guð getur vakið Abraham börn af steinum þessum.

10 Öxin er þegar lögð að rótum trjánna, og hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og í eld kastað.

11 Ég skíri yður með vatni til iðrunar, en sá sem kemur eftir mig, er mér máttugri, og er ég ekki verður að bera skó hans. Hann mun skíra yður með heilögum anda og eldi.

12 Hann er með varpskófluna í hendi sér og mun gjörhreinsa láfa sinn og safna hveiti sínu í hlöðu, en hismið mun hann brenna í óslökkvanda eldi."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society