Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 72:1-7

72 Eftir Salómon. Guð, sel konungi í hendur dóma þína og konungssyni réttlæti þitt,

að hann dæmi lýð þinn með réttvísi og þína þjáðu með sanngirni.

Fjöllin beri lýðnum frið og hálsarnir réttlæti.

Hann láti hina þjáðu meðal lýðsins ná rétti sínum, hann hjálpi hinum snauðu og kremji kúgarann.

Þá mun hann lifa meðan sólin skín og tunglið ber birtu, frá kyni til kyns.

Hann mun falla sem regn á slægjuland, sem regnskúrir, er vökva landið.

Um hans daga skal réttlætið blómgast og gnóttir friðar, uns tunglið er eigi framar til.

Sálmarnir 72:18-19

18 Lofaður sé Drottinn, Guð, Ísraels Guð, sem einn gjörir furðuverk,

19 og lofað sé hans dýrlega nafn um eilífð, og öll jörðin fyllist dýrð hans. Amen, amen.

Jesaja 40:1-11

40 Huggið, huggið lýð minn! segir Guð yðar.

Hughreystið Jerúsalem og boðið henni, að áþján hennar sé á enda, að sekt hennar sé goldin, að hún hafi fengið tvöfalt af hendi Drottins fyrir allar syndir sínar!

Heyr, kallað er: "Greiðið götu Drottins í eyðimörkinni, ryðjið Guði vorum veg í óbyggðinni!

Sérhver dalur skal hækka, hvert fjall og háls lækka. Hólarnir skulu verða að jafnsléttu og hamrarnir að dalagrundum!

Dýrð Drottins mun birtast, og allt hold mun sjá það, því að munnur Drottins hefir talað það!"

Heyr, einhver segir: "Kalla þú!" Og ég svara: "Hvað skal ég kalla?" "Allt hold er gras og allur yndisleikur þess sem blóm vallarins.

Grasið visnar, blómin fölna, þegar Drottinn andar á þau. Sannlega, mennirnir eru gras.

Grasið visnar, blómin fölna, en orð Guðs vors stendur stöðugt eilíflega."

Stíg upp á hátt fjall, þú Síon fagnaðarboði! Hef upp raust þína kröftuglega, þú Jerúsalem fagnaðarboði! Hef upp raustina, óttast eigi, seg borgunum í Júda: "Sjá, Guð yðar kemur!"

10 Sjá, hinn alvaldi Drottinn kemur sem hetja, og armleggur hans aflar honum yfirráða. Sjá, endurgjald hans fylgir honum, og fengur hans fer á undan honum.

11 Eins og hirðir mun hann halda hjörð sinni til haga, taka unglömbin í faðm sér og bera þau í fangi sínu, en leiða mæðurnar.

Jóhannesarguðspjall 1:19-28

19 Þessi er vitnisburður Jóhannesar, þegar Gyðingar sendu til hans presta og levíta frá Jerúsalem að spyrja hann: "Hver ert þú?"

20 Hann svaraði ótvírætt og játaði: "Ekki er ég Kristur."

21 Þeir spurðu hann: "Hvað þá? Ertu Elía?" Hann svarar: "Ekki er ég hann." "Ertu spámaðurinn?" Hann kvað nei við.

22 Þá sögðu þeir við hann: "Hver ertu? Vér verðum að svara þeim, er sendu oss. Hvað segir þú um sjálfan þig?"

23 Hann sagði: "Ég er rödd hrópanda í eyðimörk: Gjörið beinan veg Drottins, eins og Jesaja spámaður segir."

24 Sendir voru menn af flokki farísea.

25 Þeir spurðu hann: "Hvers vegna skírir þú, fyrst þú ert hvorki Kristur, Elía né spámaðurinn?"

26 Jóhannes svaraði: "Ég skíri með vatni. Mitt á meðal yðar stendur sá, sem þér þekkið ekki,

27 hann, sem kemur eftir mig, og skóþveng hans er ég ekki verður að leysa."

28 Þetta bar við í Betaníu, handan Jórdanar, þar sem Jóhannes var að skíra.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society