Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
23 Vei hirðunum, sem eyða og tvístra gæsluhjörð minni! segir Drottinn.
2 Fyrir því segir Drottinn, Ísraels Guð, svo um hirðana, sem gæta þjóðar minnar: Þér hafið tvístrað sauðum mínum og sundrað þeim og ekki litið eftir þeim. Sjá, ég skal vitja vonskuverka yðar á yður _ segir Drottinn.
3 En ég vil sjálfur safna leifum hjarðar minnar saman úr öllum löndum, þangað sem ég hefi rekið þá, og leiða þá aftur í haglendi þeirra, og þeir skulu frjóvgast og þeim fjölga.
4 Og ég vil setja hirða yfir þá, og þeir skulu gæta þeirra, og þeir skulu eigi framar hræðast né skelfast og einskis þeirra skal saknað verða _ segir Drottinn.
5 Sjá, þeir dagar munu koma _ segir Drottinn _ að ég mun uppvekja fyrir Davíð réttan kvist, er ríkja skal sem konungur og breyta viturlega og iðka rétt og réttlæti í landinu.
6 Á hans dögum mun Júda hólpinn verða og Ísrael búa óhultur, og þetta mun verða nafn hans, það er menn nefna hann með: "Drottinn er vort réttlæti!"
68 Lofaður sé Drottinn, Guð Ísraels, því að hann hefur vitjað lýðs síns og búið honum lausn.
69 Hann hefur reist oss horn hjálpræðis í húsi Davíðs þjóns síns,
70 eins og hann talaði fyrir munn sinna heilögu spámanna frá öndverðu,
71 frelsun frá óvinum vorum og úr höndum allra, er hata oss.
72 Hann hefur auðsýnt feðrum vorum miskunn og minnst síns heilaga sáttmála,
73 þess eiðs, er hann sór Abraham föður vorum
74 að hrífa oss úr höndum óvina og veita oss að þjóna sér óttalaust
75 í heilagleik og réttlæti fyrir augum hans alla daga vora.
76 Og þú, sveinn! munt nefndur verða spámaður hins hæsta, því að þú munt ganga fyrir Drottni að greiða vegu hans
77 og veita lýð hans þekkingu á hjálpræðinu, sem er fyrirgefning synda þeirra.
78 Þessu veldur hjartans miskunn Guðs vors. Hún lætur upp renna sól af hæðum að vitja vor
79 og lýsa þeim, sem sitja í myrkri og skugga dauðans, og beina fótum vorum á friðar veg.
11 Mætti hann styrkja yður á allan hátt með dýrðarmætti sínum, svo að þér fyllist þolgæði í hvívetna og umburðarlyndi og getið með gleði
12 þakkað föðurnum, sem hefur gjört yður hæfa til að fá hlutdeild í arfleifð heilagra í ljósinu.
13 Hann hefur frelsað oss frá valdi myrkursins og flutt oss inn í ríki síns elskaða sonar.
14 Í honum eigum vér endurlausnina, fyrirgefningu synda vorra.
15 Hann er ímynd hins ósýnilega Guðs, frumburður allrar sköpunar.
16 Enda var allt skapað í honum í himnunum og á jörðinni, hið sýnilega og hið ósýnilega, hásæti og herradómar, tignir og völd. Allt er skapað fyrir hann og til hans.
17 Hann er fyrri en allt, og allt á tilveru sína í honum.
18 Og hann er höfuð líkamans, kirkjunnar, hann sem er upphafið, frumburðurinn frá hinum dauðu. Þannig skyldi hann verða fremstur í öllu.
19 Því að í honum þóknaðist Guði að láta alla fyllingu sína búa
20 og láta hann koma öllu í sátt við sig, öllu bæði á jörðu og himnum, með því að semja frið með blóði sínu úthelltu á krossi.
33 Og er þeir komu til þess staðar, sem heitir Hauskúpa, krossfestu þeir hann þar og illvirkjana, annan til hægri handar, hinn til vinstri.
34 Þá sagði Jesús: "Faðir, fyrirgef þeim, því að þeir vita ekki, hvað þeir gjöra." En þeir köstuðu hlutum um klæði hans og skiptu með sér.
35 Fólkið stóð og horfði á, og höfðingjarnir gjörðu gys að honum og sögðu: "Öðrum bjargaði hann, bjargi hann nú sjálfum sér, ef hann er Kristur Guðs, hinn útvaldi."
36 Eins hæddu hann hermennirnir, komu og báru honum edik
37 og sögðu: "Ef þú ert konungur Gyðinga, þá bjargaðu sjálfum þér."
38 Yfirskrift var yfir honum: ÞESSI ER KONUNGUR GYÐINGA.
39 Annar þeirra illvirkja, sem upp voru festir, hæddi hann og sagði: "Ert þú ekki Kristur? Bjargaðu sjálfum þér og okkur!"
40 En hinn ávítaði hann og sagði: "Hræðist þú ekki einu sinni Guð, og ert þó undir sama dómi?
41 Við erum það með réttu og fáum makleg gjöld fyrir gjörðir okkar, en þessi hefur ekkert illt aðhafst."
42 Þá sagði hann: "Jesús, minnst þú mín, þegar þú kemur í ríki þitt!"
43 Og Jesús sagði við hann: "Sannlega segi ég þér: Í dag skaltu vera með mér í Paradís."
by Icelandic Bible Society