Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
12 Á þeim degi skaltu segja: "Ég vegsama þig, Drottinn, því þótt þú værir mér reiður, þá er þó horfin reiði þín og þú huggaðir mig.
2 Sjá, Guð er mitt hjálpræði, ég er öruggur og óttast eigi, því að Drottinn Guð er minn styrkur og minn lofsöngur, hann er orðinn mér hjálpræði."
3 Þér munuð með fögnuði vatni ausa úr lindum hjálpræðisins.
4 Og á þeim degi munuð þér segja: "Lofið Drottin, ákallið nafn hans. Gjörið máttarverk hans kunn meðal þjóðanna, hafið í minnum, að háleitt er nafn hans.
5 Lofsyngið Drottni, því að dásemdarverk hefir hann gjört. Þetta skal kunnugt verða um alla jörðina.
6 Lát óma gleðihljóm og kveða við fagnaðaróp, þú sem býr á Síon, því að mikill er Hinn heilagi í Ísrael meðal þín."
15 Sannleikurinn er horfinn, og sá sem firrist það, sem illt er, verður öðrum að herfangi. Og Drottinn sá það, og honum mislíkaði réttleysið.
16 Og hann sá að þar var enginn, og hann undraðist, að enginn vildi í skerast. En þá hjálpaði honum armleggur hans, og réttlæti hans studdi hann.
17 Hann íklæddist réttlætinu sem pansara og setti hjálm hjálpræðisins á höfuð sér. Hann klæddist klæðum hefndarinnar sem fati og hjúpaði sig vandlætinu eins og skikkju.
18 Eins og menn hafa unnið til, svo mun hann gjalda: mótstöðumönnum sínum heift og óvinum sínum hefnd, fjarlægum landsálfum endurgeldur hann.
19 Menn munu óttast nafn Drottins í frá niðurgöngu sólar og dýrð hans í frá upprás sólar. Já, hann brýst fram eins og á í gljúfrum, er andgustur Drottins knýr áfram.
20 En til Síonar kemur hann sem frelsari, til þeirra í Jakob, sem snúið hafa sér frá syndum _ segir Drottinn.
21 Þessi er sáttmálinn, sem ég gjöri við þá _ segir Drottinn: Andi minn, sem er yfir þér, og orð mín, sem ég hefi lagt í munn þér, þau skulu ekki víkja frá munni þínum, né frá munni niðja þinna, né frá munni niðja niðja þinna, _ segir Drottinn, _ héðan í frá og að eilífu.
20 Farísear spurðu hann, hvenær Guðs ríki kæmi. Hann svaraði þeim: "Guðs ríki kemur ekki þannig, að á því beri.
21 Ekki munu menn segja: Sjá, þar er það eða hér er það, því Guðs ríki er innra með yður."
22 Og hann sagði við lærisveinana: "Þeir dagar munu koma, að þér þráið að sjá einn dag Mannssonarins og munuð eigi sjá.
23 Menn munu segja við yður: Sjá hér, sjá þar. En farið ekki og hlaupið eftir því.
24 Eins og elding, sem leiftrar og lýsir frá einu skauti himins til annars, svo mun Mannssonurinn verða á degi sínum.
25 En fyrst á hann margt að líða og útskúfaður verða af þessari kynslóð.
26 Eins og var á dögum Nóa, svo mun og verða á dögum Mannssonarins:
27 Menn átu og drukku, kvæntust og giftust allt til þess dags, er Nói gekk í örkina, og flóðið kom og tortímdi öllum.
28 Eins var og á dögum Lots: Menn átu og drukku, keyptu og seldu, gróðursettu og byggðu.
29 En daginn, sem Lot fór úr Sódómu, rigndi eldi og brennisteini af himni og tortímdi öllum.
30 Eins mun verða á þeim degi, er Mannssonurinn opinberast.
31 Sá sem þann dag er á þaki uppi og á muni sína í húsinu, fari ekki ofan að sækja þá. Og sá sem er á akri, skal ekki heldur hverfa aftur.
32 Minnist konu Lots.
33 Sá sem vill sjá lífi sínu borgið, mun týna því, en sá sem týnir því, mun öðlast líf.
34 Ég segi yður: Á þeirri nóttu verða tveir í einni hvílu, annar mun tekinn, hinn eftir skilinn.
35 Tvær munu mala á sömu kvörn, önnur verður tekin, hin eftir skilin. [
36 Tveir verða á akri, annar mun tekinn, hinn eftir skilinn.]"
37 Þeir spurðu hann þá: "Hvar, herra?" En hann sagði við þá: "Þar munu ernirnir safnast, sem hræið er."
by Icelandic Bible Society