Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 145:1-5

145 Davíðs-lofsöngur. Ég vil vegsama þig, ó Guð minn, þú konungur, og prísa nafn þitt um aldur og ævi.

Á hverjum degi vil ég prísa þig og lofa nafn þitt um aldur og ævi.

Mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur, mikilleikur hans er órannsakanlegur.

Ein kynslóðin vegsamar verk þín fyrir annarri og kunngjörir máttarverk þín.

Þær segja frá tign og dýrð vegsemdar þinnar: "Ég vil syngja um dásemdir þínar."

Sálmarnir 145:17-21

17 Drottinn er réttlátur á öllum sínum vegum og miskunnsamur í öllum sínum verkum.

18 Drottinn er nálægur öllum sem ákalla hann, öllum sem ákalla hann í einlægni.

19 Hann uppfyllir ósk þeirra er óttast hann, og hróp þeirra heyrir hann og hjálpar þeim.

20 Drottinn varðveitir alla þá er elska hann, en útrýmir öllum níðingum.

21 Munnur minn skal mæla orðstír Drottins, allt hold vegsami hans heilaga nafn um aldur og ævi.

Sakaría 6:9-15

Orð Drottins kom til mín, svo hljóðandi:

10 Tak þú við gjöfum hinna herleiddu af hendi Heldaí, Tobía og Jedaja, og far þú sjálfur þann sama dag og gakk þú inn í hús Jósía Sefaníasonar, en þangað eru þeir komnir frá Babýlon.

11 Þar skalt þú taka silfur og gull og búa til kórónu og setja á höfuð Jósúa Jósadakssonar æðsta prests.

12 Og þú skalt mæla þannig til hans: Svo segir Drottinn allsherjar: Sjá, maður heitir Kvistur. Af hans rótum mun spretta, og hann mun byggja musteri Drottins.

13 Hann er sá sem byggja mun musteri Drottins, og hann mun tign hljóta, svo að hann mun sitja og drottna í hásæti sínu, og prestur mun vera honum til hægri handar, og friðarþel mun vera milli þeirra beggja.

14 En kórónan skal vera þeim Helem, Tobía, Jedaja og Hen Sefaníasyni til minningar í musteri Drottins.

15 Og þeir sem búa í fjarlægð, munu koma til að byggja musteri Drottins. Og þá munuð þér viðurkenna, að Drottinn allsherjar hefir sent mig til yðar. Ef þér hlýðið röddu Drottins, Guðs yðar, þá mun þetta verða.

Postulasagan 24:10-23

10 Landstjórinn benti þá Páli að taka til máls. Hann sagði: "Kunnugt er mér um, að þú hefur verið dómari þessarar þjóðar í mörg ár. Mun ég því ótrauður verja mál mitt.

11 Þú getur og gengið úr skugga um, að ekki eru nema tólf dagar síðan ég kom upp til Jerúsalem að biðjast fyrir.

12 Og enginn hefur staðið mig að því að vera að stæla við neinn eða æsa fólk til óspekta, hvorki í samkunduhúsunum né neins staðar í borginni.

13 Þeir geta ekki heldur sannað þér það, sem þeir eru nú að kæra mig um.

14 En hitt skal ég játa þér, að ég þjóna Guði feðra vorra samkvæmt veginum, sem þeir kalla villu, og trúi öllu því, sem skrifað stendur í lögmálinu og spámönnunum.

15 Og þá von hef ég til Guðs, sem þeir og sjálfir hafa, að upp muni rísa bæði réttlátir og ranglátir.

16 Því tem ég mér og sjálfur að hafa jafnan hreina samvisku fyrir Guði og mönnum.

17 Eftir margra ára fjarveru kom ég til að færa fólki mínu ölmusugjafir og til að fórna.

18 Þetta var ég að gjöra í helgidóminum og hafði látið hreinsast, og enginn var þá mannsöfnuður né uppþot, þegar menn komu að mér.

19 Þar voru Gyðingar nokkrir frá Asíu. Þeir hefðu átt að koma fyrir þig og bera fram kæru, hefðu þeir fundið mér eitthvað til saka.

20 Annars skulu þessir, sem hér eru, segja til, hvað saknæmt þeir fundu, þegar ég stóð fyrir ráðinu.

21 Nema það sé þetta eina, sem ég hrópaði, þegar ég stóð meðal þeirra: ,Fyrir upprisu dauðra er ég lögsóttur í dag frammi fyrir yður."`

22 Felix, sem var vel kunnugt um veginn, frestaði nú málinu, og mælti: "Þegar Lýsías hersveitarforingi kemur ofan hingað, skal ég skera úr máli yðar."

23 Hann bauð hundraðshöfðingjanum að hafa Pál í vægu varðhaldi og varna engum félaga hans að vitja um hann.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society