Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 142

142 Maskíl eftir Davíð, er hann var í hellinum. Bæn.

Ég hrópa hátt til Drottins, hástöfum grátbæni ég Drottin.

Ég úthelli kveini mínu fyrir honum, tjái honum neyð mína.

Þegar andi minn örmagnast í mér, þekkir þú götu mína. Á leið þeirri er ég geng hafa þeir lagt snörur fyrir mig.

Ég lít til hægri handar og skyggnist um, en enginn kannast við mig. Mér er varnað sérhvers hælis, enginn spyr eftir mér.

Ég hrópa til þín, Drottinn, ég segi: Þú ert hæli mitt, hlutdeild mín á landi lifenda.

Veit athygli kveini mínu, því að ég er mjög þjakaður, bjarga mér frá ofsækjendum mínum, því að þeir eru mér yfirsterkari.

Leið mig út úr dýflissunni, að ég megi lofa nafn þitt, hinir réttlátu skipast í kringum mig, þegar þú gjörir vel til mín.

Habakkuk 3:1-16

Bæn Habakkuks spámanns. Með strengjaleik.

Drottinn, ég hefi heyrt boðskap þinn, ég er hræddur. Drottinn, endurnýja verk þitt áður en mörg ár líða, lát það verða kunnugt áður en mörg ár líða. Minnst þú miskunnar í reiðinni.

Guð kemur frá Teman og Hinn heilagi frá Paranfjöllum. (Sela.) Tign hans þekur himininn, og af dýrð hans er jörðin full.

Ljómi birtist eins og sólarljós, geislar stafa út frá hendi hans, og þar er hjúpurinn um mátt hans.

Drepsóttin fer á undan honum, og sýkin fetar í fótspor hans.

Hann gengur fram, og jörðin nötrar, hann lítur upp, og þjóðirnar hrökkva við. Þá molast hin öldnu fjöll sundur, þá sökkva hinar eilífu hæðir niður, hann gengur sama veginn og forðum daga.

Ég sé tjöld Kúsans í nauðum stödd, tjalddúkarnir í Midíanslandi bifast til og frá.

Ert þú, Drottinn, reiður fljótunum, eða beinist bræði þín að þeim? Eða beinist heift þín að hafinu, úr því þú ekur með hesta þína, á sigurvagni þínum?

Ber og nakinn er bogi þinn, þú fyllir örvamæli þinn skeytum, þú klýfur vatnsföll, svo að land kemur fram.

10 Fjöllin sjá þig og skjálfa, steypiregn dynur yfir, hafdjúpið lætur raust sína drynja, réttir hendur sínar hátt upp.

11 Sól og tungl bíða kyrr í híbýlum sínum, fyrir ljósi þinna þjótandi örva, fyrir ljóma þíns leiftrandi spjóts.

12 Í gremi fetar þú yfir jörðina, í reiði þreskir þú þjóðirnar.

13 Þú fer að heiman til þess að frelsa þjóð þína, til þess að hjálpa þínum smurða. Þú brýtur niður mæninn á húsi hins óguðlega, gjörir grundvöllinn beran niður á klöpp.

14 Þú rekur lensur gegnum höfuðið á herforingjum hans, er geysast fram til að tvístra mér. Fagnaðaróp þeirra glymja, eins og þeir ætluðu að uppeta hina hrjáðu í leyni.

15 Þú fer yfir hafið með hesta þína, yfir svelg mikilla vatna.

16 Þegar ég heyrði það, titraði hjarta mitt, varir mínar skulfu við fregnina. Hrollur kom í bein mín, og ég varð skjálfandi á fótum, að ég yrði að bíða hörmungadagsins, uns hann rennur upp þeirri þjóð, er á oss ræðst.

Hið almenna bréf Júdasar 5-21

Ég vil minna yður á, þótt þér nú einu sinni vitið það allt, að Drottinn frelsaði lýðinn úr Egyptalandi, en tortímdi samt síðar þeim, sem ekki trúðu.

Og englana, sem ekki gættu tignar sinnar, heldur yfirgáfu eigin bústað, hefur hann í myrkri geymt í ævarandi fjötrum til dóms hins mikla dags.

Eins og Sódóma og Gómorra og borgirnar umhverfis þær, sem drýgt höfðu saurlifnað á líkan hátt og þeir og stunduðu óleyfilegar lystisemdir, þær liggja fyrir sem dæmi, líðandi hegningu eilífs elds.

Á sama hátt saurga og þessir draumvilltu menn líkamann, meta að engu drottinvald og lastmæla tignum.

Eigi dirfðist einu sinni höfuðengillinn Míkael að leggja lastmælisdóm á djöfulinn, er hann átti í orðadeilu við hann um líkama Móse, heldur sagði: "Drottinn refsi þér!"

10 En þessir menn lastmæla öllu því, sem þeir þekkja ekki, en spilla sér á því sem þeir skilja af eðlisávísun eins og skynlausar skepnur.

11 Vei þeim, því að þeir hafa gengið á vegi Kains og hrapað í villu Bíleams fyrir ávinnings sakir og tortímst í þverúð Kóra.

12 Þessir menn eru blindsker við kærleiksmáltíðir yðar, er þeir sitja að veislum með yður og háma í sig blygðunarlaust. Þeir eru vatnslaus ský, sem rekast fyrir vindum, tré, sem bera ekki ávöxt að hausti, tvisvar dauð og rifin upp með rótum.

13 Þeir eru ofsalegar hafsbylgjur, sem freyða eigin skömmum, reikandi stjörnur, sem eiga dýpsta myrkur í vændum til eilífðar.

14 Um þessa menn spáði líka Enok, sjöundi maður frá Adam, er hann segir: "Sjá, Drottinn er kominn með sínum þúsundum heilagra

15 til að halda dóm yfir öllum og til að sanna alla óguðlega menn seka um öll þau óguðlegu verk, sem þeir hafa drýgt, og um öll þau hörðu orð, sem óguðlegir syndarar hafa talað gegn honum."

16 Þessir menn eru möglarar, umkvörtunarsamir og lifa eftir girndum sínum. Munnur þeirra mælir ofstopaorð og þeir meta menn eftir hagnaði.

17 En, þér elskaðir, minnist þeirra orða, sem áður hafa töluð verið af postulum Drottins vors Jesú Krists.

18 Þeir sögðu við yður: "Á síðasta tíma munu koma spottarar, sem stjórnast af sínum eigin óguðlegu girndum."

19 Þessir menn eru þeir, sem valda sundrungu, holdlegir menn, sem eigi hafa andann.

20 En þér, elskaðir, byggið yður sjálfa upp í yðar helgustu trú. Biðjið í heilögum anda.

21 Varðveitið sjálfa yður í kærleika Guðs, og bíðið eftir náð Drottins vors Jesú Krists til eilífs lífs.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society