Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
1 Spádómur, sem opinberaður var Habakkuk spámanni.
2 Hversu lengi hefi ég kallað, Drottinn, og þú heyrir ekki! Hversu lengi hefi ég hrópað til þín: "Ofríki!" og þú hjálpar ekki!
3 Hví lætur þú mig sjá rangindi, hví horfir þú upp á rangsleitni? Eyðing og ofríki standa fyrir augum mér. Af því koma þrætur, og deilur rísa upp.
4 Fyrir því verður lögmálið magnlaust og fyrir því kemur rétturinn aldrei fram. Hinir óguðlegu umkringja hina réttlátu, fyrir því kemur rétturinn fram rangsnúinn.
2 Ég ætla að nema staðar á varðbergi mínu og ganga út á virkisvegginn og skyggnast um til þess að sjá, hvað hann talar við mig og hverju hann svarar umkvartan minni.
2 Þá svaraði Drottinn mér og sagði: Skrifa þú vitrunina upp og letra svo skýrt á spjöldin, að lesa megi viðstöðulaust.
3 Því að enn hefir vitrunin sinn ákveðna tíma, en hún skundar að takmarkinu og bregst ekki. Þótt hún dragist, þá vænt hennar, því að hún mun vissulega fram koma og ekki undan líða.
4 Sjá, hann er hrokafullur og ber eigi í brjósti sér ráðvanda sál, en hinn réttláti mun lifa fyrir trúfesti sína.
137 Réttlátur ert þú, Drottinn, og réttvísir dómar þínir.
138 Þú hefir skipað fyrir reglur þínar með réttlæti og mikilli trúfesti.
139 Ákefð mín eyðir mér, því að fjendur mínir hafa gleymt orðum þínum.
140 Orð þitt er mjög hreint, og þjónn þinn elskar það.
141 Ég er lítilmótlegur og fyrirlitinn, en fyrirmælum þínum hefi ég eigi gleymt.
142 Réttlæti þitt er eilíft réttlæti og lögmál þitt trúfesti.
143 Neyð og hörmung hafa mér að höndum borið, en boð þín eru unun mín.
144 Reglur þínar eru réttlæti um eilífð, veit mér skyn, að ég megi lifa.
1 Páll, Silvanus og Tímóteus heilsa söfnuði Þessaloníkumanna, sem lifa í Guði, föður vorum, og Drottni Jesú Kristi.
2 Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi.
3 Skylt er oss, bræður, og maklegt að þakka Guði ætíð fyrir yður, því að trú yðar eykst stórum og kærleiki yðar allra hvers til annars fer vaxandi.
4 Því getum vér hrósað oss af yður í söfnuðum Guðs fyrir þolgæði yðar og trú í öllum ofsóknum yðar og þrengingum þeim, er þér þolið.
11 Þess vegna biðjum vér og alla tíma fyrir yður, að Guð vor álíti yður maklega köllunarinnar og fullkomni allt hið góða, sem þér viljið og vinnið í trú og með krafti Guðs,
12 svo að nafn Drottins vors Jesú verði dýrlegt í yður og þér í honum fyrir náð Guðs vors og Drottins Jesú Krists.
19 Jesús kom til Jeríkó og gekk gegnum borgina.
2 En þar var maður, er Sakkeus hét. Hann var yfirtollheimtumaður og auðugur.
3 Langaði hann að sjá, hver Jesús væri, en tókst það ekki fyrir mannfjöldanum, því hann var lítill vexti.
4 Hann hljóp þá á undan og klifraði upp í mórberjatré til að sjá Jesú, en leið hans lá þar hjá.
5 Og er Jesús kom þar að, leit hann upp og sagði við hann: "Sakkeus, flýt þér ofan, í dag ber mér að vera í húsi þínu."
6 Hann flýtti sér ofan og tók á móti honum glaður.
7 Þeir er sáu þetta, létu allir illa við og sögðu: "Hann fer til að gista hjá bersyndugum manni."
8 En Sakkeus sté fram og sagði við Drottin: "Herra, helming eigna minna gef ég fátækum, og hafi ég haft nokkuð af nokkrum, gef ég honum ferfalt aftur."
9 Jesús sagði þá við hann: "Í dag hefur hjálpræði hlotnast húsi þessu, enda er þessi maður líka Abrahams sonur.
10 Því að Mannssonurinn er kominn að leita að hinu týnda og frelsa það."
by Icelandic Bible Society