Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
23 Og þér Síonbúar, fagnið og gleðjist í Drottni, Guði yðar, því að hann gefur yður regn í réttum mæli og lætur skúrirnar ofan til yðar koma, haustregn og vorregn, eins og áður.
24 Láfarnir verða fullir af korni, og vínberjalögurinn og olían flóa út af þrónum.
25 Ég bæti yður upp árin, er átvargurinn, flysjarinn, jarðvargurinn og nagarinn átu, _ minn mikli her, er ég sendi móti yður.
26 Þér skuluð eta og mettir verða og vegsama nafn Drottins, Guðs yðar, sem dásamlega hefir við yður gjört, og þjóð mín skal aldrei að eilífu til skammar verða.
27 Og þér skuluð viðurkenna, að ég er meðal Ísraels og að ég er Drottinn, yðar Guð, og enginn annar. Og þjóð mín skal aldrei að eilífu til skammar verða.
65 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Ljóð.
2 Þér ber lofsöngur, Guð, á Síon, og við þig séu heitin efnd.
3 Þú sem heyrir bænir, til þín kemur allt hold.
4 Margvíslegar misgjörðir urðu mér yfirsterkari, en þú fyrirgafst afbrot vor.
5 Sæll er sá er þú útvelur og lætur nálægjast þig til þess að búa í forgörðum þínum, að vér megum seðjast af gæðum húss þíns, helgidómi musteris þíns.
6 Með óttalegum verkum svarar þú oss í réttlæti, þú Guð hjálpræðis vors, þú athvarf allra jarðarinnar endimarka og fjarlægra stranda,
7 þú sem festir fjöllin með krafti þínum, gyrtur styrkleika,
8 þú sem stöðvar brimgný hafsins, brimgnýinn í bylgjum þess og háreystina í þjóðunum,
9 svo að þeir er búa við endimörk jarðar óttast tákn þín, austrið og vestrið lætur þú fagna.
10 Þú hefir vitjað landsins og vökvað það, blessað það ríkulega með læk Guðs, fullum af vatni, þú hefir framleitt korn þess, því að þannig hefir þú gjört það úr garði.
11 Þú hefir vökvað plógför þess, jafnað plóggarða þess, með regnskúrum hefir þú mýkt það, blessað gróður þess.
12 Þú hefir krýnt árið með gæsku þinni, og vagnspor þín drjúpa af feiti.
13 Það drýpur af heiðalöndunum, og hæðirnar girðast fögnuði.
14 Hagarnir klæðast hjörðum, og dalirnir hyljast korni. Allt fagnar og syngur.
6 Nú er svo komið, að mér verður fórnfært, og tíminn er kominn, að ég taki mig upp.
7 Ég hef barist góðu baráttunni, hef fullnað skeiðið, hef varðveitt trúna.
8 Og nú er mér geymdur sveigur réttlætisins, sem Drottinn, hinn réttláti dómari, mun gefa mér á þeim degi. Og ekki einungis mér, heldur og öllum, sem þráð hafa endurkomu hans.
16 Í fyrstu málsvörn minni kom enginn mér til aðstoðar, heldur yfirgáfu mig allir. Verði þeim það ekki tilreiknað!
17 En Drottinn stóð með mér og veitti mér kraft, til þess að ég yrði til að fullna prédikunina og allar þjóðir fengju að heyra. Og ég varð frelsaður úr gini ljónsins.
18 Drottinn mun frelsa mig frá öllu illu og mig hólpinn leiða inn í sitt himneska ríki. Honum sé dýrð um aldir alda! Amen.
9 Hann sagði líka dæmisögu þessa við nokkra þá er treystu því, að sjálfir væru þeir réttlátir, en fyrirlitu aðra:
10 "Tveir menn fóru upp í helgidóminn að biðjast fyrir. Annar var farísei, hinn tollheimtumaður.
11 Faríseinn sté fram og baðst þannig fyrir með sjálfum sér: ,Guð, ég þakka þér, að ég er ekki eins og aðrir menn, ræningjar, ranglátir, hórkarlar eða þá eins og þessi tollheimtumaður.
12 Ég fasta tvisvar í viku og geld tíund af öllu, sem ég eignast.`
13 En tollheimtumaðurinn stóð langt frá og vildi ekki einu sinni hefja augu sín til himins, heldur barði sér á brjóst og sagði: ,Guð, vertu mér syndugum líknsamur!`
14 Ég segi yður: Þessi maður fór réttlættur heim til sín, en hinn ekki, því að hver sem upp hefur sjálfan sig, mun auðmýktur verða, en sá sem auðmýkir sjálfan sig, mun upp hafinn verða."
by Icelandic Bible Society