Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 65

65 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Ljóð.

Þér ber lofsöngur, Guð, á Síon, og við þig séu heitin efnd.

Þú sem heyrir bænir, til þín kemur allt hold.

Margvíslegar misgjörðir urðu mér yfirsterkari, en þú fyrirgafst afbrot vor.

Sæll er sá er þú útvelur og lætur nálægjast þig til þess að búa í forgörðum þínum, að vér megum seðjast af gæðum húss þíns, helgidómi musteris þíns.

Með óttalegum verkum svarar þú oss í réttlæti, þú Guð hjálpræðis vors, þú athvarf allra jarðarinnar endimarka og fjarlægra stranda,

þú sem festir fjöllin með krafti þínum, gyrtur styrkleika,

þú sem stöðvar brimgný hafsins, brimgnýinn í bylgjum þess og háreystina í þjóðunum,

svo að þeir er búa við endimörk jarðar óttast tákn þín, austrið og vestrið lætur þú fagna.

10 Þú hefir vitjað landsins og vökvað það, blessað það ríkulega með læk Guðs, fullum af vatni, þú hefir framleitt korn þess, því að þannig hefir þú gjört það úr garði.

11 Þú hefir vökvað plógför þess, jafnað plóggarða þess, með regnskúrum hefir þú mýkt það, blessað gróður þess.

12 Þú hefir krýnt árið með gæsku þinni, og vagnspor þín drjúpa af feiti.

13 Það drýpur af heiðalöndunum, og hæðirnar girðast fögnuði.

14 Hagarnir klæðast hjörðum, og dalirnir hyljast korni. Allt fagnar og syngur.

Jóel 2:12-22

12 En snúið yður nú til mín _ segir Drottinn _ af öllu hjarta, með föstum, gráti og kveini.

13 Sundurrífið hjörtu yðar en ekki klæði yðar, og hverfið aftur til Drottins Guðs yðar, því að hann er líknsamur og miskunnsamur, þolinmóður og gæskuríkur og iðrast hins illa.

14 Hver veit nema hann iðrist aftur og láti blessun eftir sig: matfórn og dreypifórn handa Drottni, Guði yðar!

15 Þeytið lúðurinn í Síon, stofnið til helgrar föstu, boðið hátíðarstefnu.

16 Kveðjið saman lýðinn, helgið söfnuðinn, stefnið saman gamalmennum, safnið saman börnum og brjóstmylkingum. Brúðguminn gangi út úr herbergi sínu og brúðurin út úr brúðarsal sínum.

17 Milli forsals og altaris skulu prestarnir, þjónar Drottins, gráta og segja: "Þyrm þjóð þinni, Drottinn, og lát eigi arfleifð þína verða að spotti, svo að heiðingjarnir drottni yfir þeim. Hví skulu menn segja meðal þjóðanna: ,Hvar er Guð þeirra?"`

18 Þá varð Drottinn fullur umhyggju vegna lands síns, og hann þyrmdi lýð sínum.

19 Drottinn tók til máls og sagði við lýð sinn: Sjá, ég sendi yður korn, vínberjalög og olíu, svo að yður skal nægja til saðnings. Og ég vil eigi láta yður verða framar að spotti meðal heiðingjanna.

20 Og óvininn, sem frá norðri kemur, mun ég reka langt burt frá yður og stökkva honum út á auðnir og öræfi. Skal fararbroddur hans lenda í austurhafinu og halaflokkurinn í vesturhafinu, þar skal fýla og illur daunn upp af honum stíga, því að hann hefir unnið stórvirki.

21 Óttast eigi, land! Fagna og gleðst, því að Drottinn hefir unnið stórvirki.

22 Óttist eigi, þér dýr merkurinnar, því að grashagar eyðimerkurinnar grænka, því að trén bera ávöxt, fíkjutrén og víntrén gefa sinn gróða.

Lúkasarguðspjall 1:46-55

46 Og María sagði: Önd mín miklar Drottin,

47 og andi minn gleðst í Guði, frelsara mínum.

48 Því að hann hefur litið til ambáttar sinnar í smæð hennar, héðan af munu allar kynslóðir mig sæla segja.

49 Því að mikla hluti hefur hinn voldugi við mig gjört, og heilagt er nafn hans.

50 Miskunn hans við þá, er óttast hann, varir frá kyni til kyns.

51 Máttarverk hefur hann unnið með armi sínum og drembilátum í hug og hjarta hefur hann tvístrað.

52 Valdhöfum hefur hann steypt af stóli og upp hafið smælingja,

53 hungraða hefur hann fyllt gæðum, en látið ríka tómhenta frá sér fara.

54 Hann hefur minnst miskunnar sinnar og tekið að sér Ísrael, þjón sinn,

55 eins og hann talaði til feðra vorra, við Abraham og niðja hans ævinlega.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society