Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
66 Til söngstjórans. Ljóð. Sálmur. Fagnið fyrir Guði, gjörvallt jarðríki,
2 syngið um hans dýrlega nafn, gjörið lofstír hans vegsamlegan.
3 Mælið til Guðs: Hversu óttaleg eru verk þín, sakir mikilleiks máttar þíns hræsna óvinir þínir fyrir þér.
4 Öll jörðin lúti þér og lofsyngi þér, lofsyngi nafni þínu. [Sela]
5 Komið og sjáið verkin Guðs, sem er óttalegur í breytni sinni gagnvart mönnunum.
6 Hann breytti hafinu í þurrlendi, þeir fóru fótgangandi yfir ána. Þá glöddumst vér yfir honum.
7 Hann ríkir um eilífð sakir veldis síns, augu hans gefa gætur að þjóðunum, uppreistarmenn mega eigi láta á sér bæra. [Sela]
8 Þér lýðir, lofið Guð vorn og látið hljóma lofsöng um hann.
9 Hann veitti sálum vorum lífið og lét oss eigi verða valta á fótum.
10 Því að þú hefir rannsakað oss, ó Guð, hreinsað oss, eins og silfur er hreinsað.
11 Þú hefir varpað oss í fangelsi, lagt byrði á lendar vorar.
12 Þú hefir látið menn ganga yfir höfuð vor, vér höfum farið gegnum eld og vatn, en nú hefir þú leitt oss út á víðan vang.
28 Þetta ár _ í upphafi ríkisstjórnar Sedekía konungs í Júda, fjórða árið, í fimmta mánuðinum _ sagði Hananja spámaður Assúrsson frá Gíbeon við mig í musteri Drottins í viðurvist prestanna og alls lýðsins:
2 "Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Ég brýt sundur ok Babelkonungs!
3 Áður en tvö ár eru liðin, flyt ég aftur á þennan stað öll áhöldin úr musteri Drottins, þau er Nebúkadnesar Babelkonungur tók á þessum stað og flutti til Babýlon.
4 Jekonja Jójakímsson, Júdakonung, og alla hina herleiddu úr Júda, þá er komnir eru til Babýlon, flyt ég og aftur á þennan stað _ segir Drottinn _ því að ég brýt sundur ok Babelkonungs!"
5 Þá talaði Jeremía spámaður til Hananja spámanns í viðurvist prestanna og alls lýðsins, sem stóð í musteri Drottins,
6 og Jeremía spámaður mælti: "Verði svo! Drottinn gjöri það! Drottinn láti orð þín, er þú hefir spáð, rætast, svo að hann flytji aftur frá Babýlon á þennan stað áhöldin úr musteri Drottins og alla hina herleiddu!
7 En heyr þessi orð, sem ég kunngjöri þér og öllum lýðnum:
8 Þeir spámenn, sem komið hafa fram á undan mér og á undan þér frá alda öðli, þeir spáðu voldugum löndum og stórum konungsríkjum ófriði, óhamingju og drepsótt.
9 En sá spámaður, sem spáir heill, _ ef orð hans rætast, þá þekkist á því sá spámaður, er Drottinn hefir sannarlega sent."
10 Þá tók Hananja spámaður okið af hálsi Jeremía spámanns og braut það sundur.
11 Síðan mælti Hananja í viðurvist alls lýðsins á þessa leið: "Svo segir Drottinn: Eins skal ég sundurbrjóta ok Nebúkadnesars Babelkonungs áður tvö ár eru liðin af hálsi allra þjóða!" En Jeremía spámaður fór leiðar sinnar.
12 En orð Drottins kom til Jeremía, eftir að Hananja spámaður hafði sundurbrotið okið af hálsi Jeremía spámanns:
13 Far og seg við Hananja: Svo segir Drottinn: Tré-ok hefir þú sundurbrotið, en ég vil í þess stað gjöra járn-ok!
14 Því að svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Járnok legg ég á háls allra þessara þjóða, til þess að þær verði þegnskyldar Nebúkadnesar Babelkonungi og þjóni honum, já, jafnvel dýr merkurinnar gef ég honum.
15 Þá sagði Jeremía spámaður við Hananja spámann: "Heyr þú, Hananja! Drottinn hefir ekki sent þig, og þó hefir þú ginnt lýð þennan til að reiða sig á lygar!
16 Fyrir því segir Drottinn svo: Sjá, ég kippi þér burt af jörðinni. Á þessu ári skalt þú deyja, því að þú hefir prédikað fráhvarf frá Drottni."
17 Og Hananja spámaður dó þetta ár, í sjöunda mánuðinum.
12 Svo bar við, er hann var í einni borginni, að þar var maður altekinn líkþrá. Hann sá Jesú, féll fram á ásjónu sína og bað hann: "Herra, ef þú vilt, getur þú hreinsað mig."
13 Jesús rétti út höndina, snart hann og mælti: "Ég vil, verð þú hreinn!" Jafnskjótt hvarf af honum líkþráin.
14 Og hann bauð honum að segja þetta engum. "En far þú," sagði hann, "sýn þig prestinum, og fórna fyrir hreinsun þína, eins og Móse bauð, þeim til vitnisburðar."
15 En fregnin um hann breiddist út því meir, og menn komu hópum saman til að hlýða á hann og læknast af meinum sínum.
16 En hann dró sig einatt í hlé til óbyggðra staða og var þar á bæn.
by Icelandic Bible Society