Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 137

137 Við Babýlons fljót, þar sátum vér og grétum, er vér minntumst Síonar.

Á pílviðina þar hengdum vér upp gígjur vorar.

Því að herleiðendur vorir heimtuðu söngljóð af oss og kúgarar vorir kæti: "Syngið oss Síonarkvæði!"

Hvernig ættum vér að syngja Drottins ljóð í öðru landi?

Ef ég gleymi þér, Jerúsalem, þá visni mín hægri hönd.

Tunga mín loði mér við góm, ef ég man eigi til þín, ef Jerúsalem er eigi allra besta yndið mitt.

Mun þú Edóms niðjum, Drottinn, óheilladag Jerúsalem, þegar þeir æptu: "Rífið, rífið allt niður til grunna!"

Babýlonsdóttir, þú sem tortímir! Heill þeim, er geldur þér fyrir það sem þú hefir gjört oss!

Heill þeim er þrífur ungbörn þín og slær þeim niður við stein.

Harmljóðin 5

Minnstu þess, Drottinn, hvað yfir oss hefir gengið, lít þú á og sjá háðung vora.

Arfleifð vor er komin í hendur annarra, hús vor í hendur útlendinga.

Vér erum orðnir munaðarleysingjar, föðurlausir, mæður vorar orðnar sem ekkjur.

Vatnið sem vér drekkum, verðum vér að kaupa, viðinn fáum vér aðeins gegn borgun.

Ofsækjendur vorir sitja á hálsi vorum, þótt vér séum þreyttir, fáum vér enga hvíld.

Til Egyptalands réttum vér út höndina, til Assýríu, til þess að seðjast af mat.

Feður vorir syndguðu, þeir eru eigi framar til, og vér berum misgjörð þeirra.

Þrælar drottna yfir oss, enginn hrífur oss úr höndum þeirra.

Með lífsháska sækjum vér matbjörg vora í eyðimörkinni, þar sem sverðið vofir yfir oss.

10 Hörund vort er orðið svart eins og ofn af hungurbruna.

11 Konur hafa þeir svívirt í Síon, meyjar í Júda-borgum.

12 Höfðingja hengdu þeir, öldungnum sýndu þeir enga virðingu.

13 Æskumennirnir urðu að þræla við kvörnina, og sveinarnir duttu undir viðarbyrðunum.

14 Öldungarnir eru horfnir úr borgarhliðunum, æskumennirnir frá strengleikum.

15 Fögnuður hjarta vors er þrotinn, gleðidans vor snúinn í sorg.

16 Kórónan er fallin af höfði voru, vei oss, því að vér höfum syndgað.

17 Af því er hjarta vort sjúkt orðið, vegna þess eru augu vor döpur,

18 vegna Síonarfjalls, sem er í eyði og refir nú hlaupa um.

19 Þú, Drottinn, ríkir að eilífu, þitt hásæti stendur frá kyni til kyns.

20 Hví vilt þú gleyma oss eilíflega, yfirgefa oss um langan aldur?

21 Snú þú oss til þín, Drottinn, þá snúum vér við, lát þú daga vora aftur verða eins og forðum!

Markúsarguðspjall 11:12-14

12 Á leiðinni frá Betaníu morguninn eftir kenndi hann hungurs.

13 Þá sá hann álengdar laufgað fíkjutré og fór að gá, hvort hann fyndi nokkuð á því. En þegar hann kom að því, fann hann ekkert nema blöð, enda var ekki fíknatíð.

14 Hann sagði þá við tréð: "Enginn neyti framar ávaxtar af þér að eilífu!" Þetta heyrðu lærisveinar hans.

Markúsarguðspjall 11:20-24

20 Árla morguns fóru þeir hjá fíkjutrénu og sáu, að það var visnað frá rótum.

21 Pétur minntist þess, sem gerst hafði, og segir við hann: "Rabbí, sjáðu! fíkjutréð, sem þú formæltir, er visnað."

22 Jesús svaraði þeim: "Trúið á Guð.

23 Sannlega segi ég yður: Hver sem segir við fjall þetta: ,Lyft þér upp, og steyp þér í hafið,` og efar ekki í hjarta sínu, heldur trúir, að svo fari sem hann mælir, honum mun verða að því.

24 Fyrir því segi ég yður: Hvers sem þér biðjið í bæn yðar, þá trúið, að þér hafið öðlast það, og yður mun það veitast.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society