Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
49 Minnst þú þess orðs við þjón þinn, sem þú lést mig vona á.
50 Þetta er huggun mín í eymd minni, að orð þitt lætur mig lífi halda.
51 Ofstopamenn spotta mig ákaflega, en ég vík eigi frá lögmáli þínu.
52 Ég minnist dóma þinna frá öndverðu, Drottinn, og læt huggast.
53 Heiftarreiði við óguðlega hrífur mig, við þá er yfirgefa lögmál þitt.
54 Lög þín eru efni ljóða minna á þessum stað, þar sem ég er gestur.
55 Um nætur minnist ég nafns þíns, Drottinn, og geymi laga þinna.
56 Þetta er orðin hlutdeild mín, að halda fyrirmæli þín.
33 Og orð Drottins kom til Jeremía annað sinn, þá er hann enn var innilokaður í varðgarðinum:
2 Svo segir Drottinn, sá er framkvæmir það, Drottinn, sá er upphugsar það, til þess að koma því til vegar _ Drottinn er nafn hans:
3 Kalla þú á mig og mun ég svara þér og kunngjöra þér mikla hluti og óskiljanlega, er þú hefir eigi þekkt.
4 Já, svo segir Drottinn, Ísraels Guð, um hús þessarar borgar og um hallir Júdakonunga, sem rifin voru niður vegna hervirkjanna og sverðsins:
5 Það koma einhverjir til þess að berjast gegn Kaldeum og til þess að fylla húsin líkum þeirra manna, er ég hefi lostið í reiði minni og heift, því ég hefi byrgt auglit mitt fyrir þessari borg sakir allrar illsku þeirra.
6 Sjá, ég legg við hana umbúðir og græðslulyf og lækna þá og opna þeim gnægð stöðugrar hamingju,
7 og ég leiði heim aftur hina herleiddu frá Júda og hina herleiddu frá Ísrael og byggi þá upp aftur eins og áður.
8 Og ég hreinsa þá af allri misgjörð þeirra, er þeir hafa drýgt í móti mér, og fyrirgef þeim allar misgjörðir þeirra, er þeir hafa drýgt í móti mér, og uppreisn þeirra gegn mér,
9 til þess að borgin verði mér til frægðar, til ununar, til lofs og dýrðar hjá öllum þjóðum jarðarinnar, sem spyrja munu öll þau gæði, er ég veiti þeim, og skelfast munu og titra vegna allra þeirra gæða og allrar þeirrar hamingju, sem ég veiti henni.
10 Svo segir Drottinn: Á þessum stað, er þér segið um: "Hann er eyddur, mannlaus og skepnulaus!" í borgum Júda og á Jerúsalemstrætum, sem nú eru gjöreydd, mannlaus, íbúalaus og skepnulaus,
11 skulu aftur heyrast ánægjuhljóð og gleðihljóð, fagnaðarlæti brúðguma og brúðar, fagnaðarlæti þeirra, er færa þakkarfórn í musteri Drottins og segja: Þakkið Drottni allsherjar, því að Drottinn er góður, því að miskunn hans varir að eilífu! Því að ég mun leiða hið herleidda fólk landsins heim aftur, til þess að þeir séu eins og áður, segir Drottinn.
12 Svo segir Drottinn allsherjar: Enn skal á þessum stað, sem nú er eyddur, bæði mannlaus og skepnulaus, og í öllum borgum hans vera haglendi fyrir hjarðmenn, sem bæla þar hjarðir sínar.
13 Í fjallborgunum, í borgunum á sléttlendinu og í borgunum í Suðurlandinu og í Benjamínslandi og í umhverfi Jerúsalem og í Júdaborgum munu enn sauðir renna fram hjá þeim, sem telur þá, segir Drottinn.
16 Þá kom til hans maður og spurði: "Meistari, hvað gott á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf?"
17 Jesús sagði við hann: "Hví spyr þú mig um hið góða? Einn er sá hinn góði. Ef þú vilt inn ganga til lífsins, þá haltu boðorðin."
18 Hann spurði: "Hver?" Jesús sagði: "Þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki bera ljúgvitni,
19 heiðra föður þinn og móður, og þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig."
20 Þá sagði ungi maðurinn: "Alls þessa hef ég gætt. Hvers er mér enn vant?"
21 Jesús sagði við hann: "Ef þú vilt vera fullkominn, skaltu fara, selja eigur þínar og gefa fátækum, og munt þú fjársjóð eiga á himnum. Kom síðan, og fylg mér."
22 Þegar ungi maðurinn heyrði þessi orð, fór hann brott hryggur, enda átti hann miklar eignir.
by Icelandic Bible Society