Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 91:1-6

91 Sæll er sá, er situr í skjóli Hins hæsta, sá er gistir í skugga Hins almáttka,

sá er segir við Drottin: "Hæli mitt og háborg, Guð minn, er ég trúi á!"

Hann frelsar þig úr snöru fuglarans, frá drepsótt glötunarinnar,

hann skýlir þér með fjöðrum sínum, undir vængjum hans mátt þú hælis leita, trúfesti hans er skjöldur og verja.

Eigi þarft þú að óttast ógnir næturinnar, eða örina, sem flýgur um daga,

drepsóttina, er reikar um í dimmunni, eða sýkina, er geisar um hádegið.

Sálmarnir 91:14-16

14 "Af því að hann leggur ást á mig, mun ég frelsa hann, ég bjarga honum, af því að hann þekkir nafn mitt.

15 Ákalli hann mig, mun ég bænheyra hann, ég er hjá honum í neyðinni, ég frelsa hann og gjöri hann vegsamlegan.

16 Ég metta hann með fjöld lífdaga og læt hann sjá hjálpræði mitt."

Jeremía 24

24 Drottinn lét mig sjá: Tvær karfir fullar af fíkjum voru settar fyrir framan musteri Drottins, eftir að Nebúkadresar Babelkonungur hafði herleitt Jekonja Jójakímsson, Júdakonung, og höfðingjana í Júda og trésmiðina og járnsmiðina burt frá Jerúsalem og flutt þá til Babýlon.

Í annarri körfinni voru mjög góðar fíkjur, líkar árfíkjum, en í hinni körfinni voru mjög vondar fíkjur, sem voru svo vondar, að þær voru óætar.

Þá sagði Drottinn við mig: Hvað sér þú, Jeremía? Og ég svaraði: Fíkjur! Góðu fíkjurnar eru mjög góðar, en þær vondu eru mjög vondar, já svo vondar, að þær eru óætar.

Þá kom orð Drottins til mín:

Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: Eins og á þessar góðu fíkjur, svo lít ég á hina herleiddu úr Júda, sem ég hefi sent héðan til Kaldealands, þeim til heilla.

Ég beini augum mínum á þá þeim til heilla og flyt þá aftur inn í þetta land, svo að ég megi byggja þá upp og ekki rífa þá niður aftur og gróðursetja þá og ekki uppræta þá aftur.

Og ég gef þeim hjarta til að þekkja mig, að ég er Drottinn, og þeir skulu vera mín þjóð og ég skal vera þeirra Guð, þegar þeir snúa sér til mín af öllu hjarta.

Og eins og vondu fíkjurnar, sem eru svo vondar, að þær eru óætar _ já, svo segir Drottinn _, þannig vil ég fara með Sedekía konung í Júda og höfðingja hans og leifarnar af Jerúsalem, þá sem eftir eru í þessu landi og þá sem setst hafa að í Egyptalandi.

Ég mun gjöra þá að grýlu, að andstyggð öllum konungsríkjum jarðar, að háðung, orðskvið, spotti og formæling á öllum þeim stöðum, þangað sem ég rek þá.

10 Og ég sendi sverð, hungur og drepsótt í móti þeim, þar til er þeir eru gjöreyddir úr landinu, sem ég gaf þeim og feðrum þeirra.

Lúkasarguðspjall 9:43-48

43 Og allir undruðust stórum veldi Guðs. Þá er allir dáðu allt það, er hann gjörði, sagði hann við lærisveina sína:

44 "Festið þessi orð í huga: ,Mannssonurinn verður framseldur í manna hendur."`

45 En þeir skildu ekki þessi orð, og þetta var þeim hulið, svo að þeir skynjuðu það ekki. Og þeir þorðu ekki að spyrja hann um þetta.

46 Sú spurning kom fram meðal þeirra, hver þeirra væri mestur.

47 Jesús vissi, hvað þeir hugsuðu í hjörtum sínum, og tók lítið barn, setti það hjá sér

48 og sagði við þá: "Hver sem tekur við þessu barni í mínu nafni, tekur við mér, og hver sem tekur við mér, tekur við þeim, er sendi mig. Því að sá sem minnstur er meðal yðar allra, hann er mestur."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society