Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 91:1-6

91 Sæll er sá, er situr í skjóli Hins hæsta, sá er gistir í skugga Hins almáttka,

sá er segir við Drottin: "Hæli mitt og háborg, Guð minn, er ég trúi á!"

Hann frelsar þig úr snöru fuglarans, frá drepsótt glötunarinnar,

hann skýlir þér með fjöðrum sínum, undir vængjum hans mátt þú hælis leita, trúfesti hans er skjöldur og verja.

Eigi þarft þú að óttast ógnir næturinnar, eða örina, sem flýgur um daga,

drepsóttina, er reikar um í dimmunni, eða sýkina, er geisar um hádegið.

Sálmarnir 91:14-16

14 "Af því að hann leggur ást á mig, mun ég frelsa hann, ég bjarga honum, af því að hann þekkir nafn mitt.

15 Ákalli hann mig, mun ég bænheyra hann, ég er hjá honum í neyðinni, ég frelsa hann og gjöri hann vegsamlegan.

16 Ég metta hann með fjöld lífdaga og læt hann sjá hjálpræði mitt."

Jeremía 23:9-22

Um spámennina: Hjartað í brjósti mér er sundurmarið, öll bein mín skjálfa. Ég er eins og drukkinn maður, eins og maður sem vínið hefir bugað, vegna Drottins og vegna hans heilögu orða.

10 Landið er fullt af hórkörlum, já, vegna bölvunarinnar syrgir landið, og beitilöndin í öræfunum eru skrælnuð. Þeir hlaupa á eftir vonsku og styrkur þeirra er ósannsögli.

11 Bæði spámenn og prestar eru guðlausir, jafnvel í húsi mínu hefi ég rekið mig á vonsku þeirra _ segir Drottinn.

12 Fyrir því mun vegur þeirra verða þeim eins og sleipir staðir í myrkri. Þeim skal verða hrundið, svo að þeir detti á honum, því að ég leiði óhamingju yfir þá árið sem þeim verður refsað _ segir Drottinn.

13 Hjá spámönnum Samaríu sá ég hneykslanlegt athæfi: Þeir spáðu í nafni Baals og leiddu lýð minn Ísrael afvega.

14 En hjá spámönnum Jerúsalem sá ég hryllilegt athæfi: Þeir drýgja hór og fara með lygar og veita illgjörðarmönnum liðveislu, svo að enginn þeirra snýr sér frá illsku sinni. Þeir eru allir orðnir mér eins og Sódóma og íbúar hennar eins og Gómorra.

15 Fyrir því segir Drottinn allsherjar svo um spámennina: Sjá, ég vil gefa þeim malurt að eta og eiturvatn að drekka, því að frá spámönnum Jerúsalem hefir guðleysi breiðst út um allt landið.

16 Svo segir Drottinn allsherjar: Hlýðið ekki á orð spámannanna, sem spá yður; þeir draga yður á tálar. Þeir boða vitranir, sem þeir sjálfir hafa spunnið upp, en ekki fengið frá Drottni.

17 Sífelldlega segja þeir við þá, er hafa hafnað orði Drottins: "Yður mun heill hlotnast!" Og við alla sem fara eftir þverúð hjarta síns, segja þeir: "Engin ógæfa mun yfir yður koma!"

18 Já, hver stendur í ráði Drottins? Hver sér og heyrir orð hans? Hver gefur gaum að orðum mínum og kunngjörir þau?

19 Sjá, stormur Drottins brýst fram _ reiði og hvirfilbylur _ hann steypist yfir höfuð hinna óguðlegu.

20 Reiði Drottins léttir ekki fyrr en hann hefir framkvæmt og leitt til lykta fyrirætlanir hjarta síns. Síðar meir munuð þér skilja það greinilega.

21 Ég hefi ekki sent spámennina, og þó hlupu þeir. Ég hefi eigi talað til þeirra, og þó spáðu þeir.

22 Hefðu þeir staðið í mínu ráði, þá mundu þeir kunngjöra þjóð minni mín orð og snúa þeim frá þeirra vonda vegi og frá þeirra vondu verkum.

Síðara bréf Páls til Kori 8:8-15

Ég segi þetta ekki sem skipun, heldur bendi ég á áhuga annarra til þess að reyna, hvort kærleiki yðar er einnig einlægur.

Þér þekkið náð Drottins vors Jesú Krists. Hann gjörðist fátækur yðar vegna, þótt ríkur væri, til þess að þér auðguðust af fátækt hans.

10 Og ráð vil ég gefa í þessu máli, því að þetta er yður til gagns, yður sem í fyrra voruð á undan öðrum, ekki aðeins í verkinu, heldur og í viljanum.

11 En fullgjörið nú og verkið. Þér voruð fúsir að hefjast handa, fullgjörið það nú eftir því sem efnin leyfa.

12 Því að ef viljinn er góður, þá er hver þóknanlegur með það, sem hann á til, og ekki farið fram á það, sem hann á ekki til.

13 Ekki svo að skilja, að öðrum sé hlíft, en þrengt sé að yður, heldur er það til þess að jöfnuður verði. Nú sem stendur bætir gnægð yðar úr skorti hinna,

14 til þess að einnig gnægð hinna geti bætt úr skorti yðar og þannig verði jöfnuður,

15 eins og skrifað er: Sá, sem miklu safnaði, hafði ekki afgangs, og þann skorti ekki, sem litlu safnaði.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society