Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 106:40-48

40 Þá upptendraðist reiði Drottins gegn lýð hans, og hann fékk viðbjóð á arfleifð sinni.

41 Hann gaf þá á vald heiðingjum, og hatursmenn þeirra drottnuðu yfir þeim.

42 Óvinir þeirra þjökuðu þá, og þeir urðu að beygja sig undir vald þeirra.

43 Mörgum sinnum bjargaði hann þeim, en þeir sýndu þrjósku í ráði sínu og urðu að lúta sakir misgjörðar sinnar.

44 Samt leit hann á neyð þeirra, er hann heyrði kvein þeirra.

45 Hann minntist sáttmála síns við þá og aumkaðist yfir þá sakir sinnar miklu miskunnar

46 og lét þá finna miskunn hjá öllum þeim er höfðu haft þá burt hernumda.

47 Hjálpa þú oss, Drottinn, Guð vor, og safna oss saman frá þjóðunum, að vér megum lofa þitt heilaga nafn, víðfrægja lofstír þinn.

48 Lofaður sé Drottinn, Ísraels Guð, frá eilífð til eilífðar. Og allur lýðurinn segi: Amen! Halelúja.

Jeremía 9:12-26

12 Hver er svo vitur maður, að hann skilji þetta? Hver er sá, er munnur Drottins hafi talað við, að hann megi kunngjöra hvers vegna landið er gjöreytt, sviðið eins og eyðimörk, sem enginn fer um?

13 En Drottinn sagði: Af því að þeir hafa yfirgefið lögmál mitt, sem ég setti þeim, og ekki hlýtt minni raustu og ekki farið eftir henni,

14 heldur farið eftir þverúð hjarta síns og elt Baalana, er feður þeirra höfðu kennt þeim að dýrka,

15 þess vegna _ svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð _ vil ég gefa þeim, þessum lýð, malurt að eta og eiturvatn að drekka,

16 og tvístra þeim meðal þjóða, sem hvorki þeir né feður þeirra hafa þekkt, og senda sverðið á eftir þeim, þar til er ég hefi gjöreytt þeim.

17 Takið eftir og kallið til harmkonur, að þær komi, og sendið til hinna vitru kvenna, að þær komi

18 og hraði sér að hefja harmakvein yfir oss, til þess að augu vor fljóti í tárum og vatnið streymi af hvörmunum.

19 Hátt harmakvein heyrist frá Síon: Hversu erum vér eyðilagðir, mjög til skammar orðnir, því að vér höfum orðið að yfirgefa landið, af því að þeir hafa brotið niður bústaði vora.

20 Já, heyrið, þér konur, orð Drottins, og eyra yðar nemi orð hans munns. Kennið dætrum yðar harmljóð og hver annarri sorgarkvæði!

21 Því að dauðinn er stiginn upp í glugga vora, kominn inn í hallir vorar, hann hrífur börnin af götunum, unglingana af torgunum.

22 Og líkin af mönnunum liggja eins og hlöss á velli og eins og kornbundin að baki kornskurðarmanninum, sem enginn tekur saman.

23 Svo segir Drottinn: Hinn vitri hrósi sér ekki af visku sinni og hinn sterki hrósi sér ekki af styrkleika sínum og hinn auðugi hrósi sér ekki af auði sínum.

24 Hver sá er vill hrósa sér, hrósi sér af því, að hann sé hygginn og þekki mig, að það er ég, Drottinn, sem auðsýni miskunnsemi, rétt og réttlæti á jörðinni, því að á slíku hefi ég velþóknun _ segir Drottinn.

25 Sjá, þeir dagar munu koma _ segir Drottinn _, að ég mun hegna öllum umskornum, sem þó eru óumskornir:

26 Egyptalandi, Júda, Edóm, Ammónítum, Móab og öllum, sem skera hár sitt við vangann, þeim er búa í eyðimörkinni, _ því að allir heiðingjar eru óumskornir og allt Ísraels hús er óumskorið á hjarta.

Postulasagan 4:1-12

Meðan þeir voru að tala til fólksins, komu að þeim prestarnir, varðforingi helgidómsins og saddúkearnir.

Þeir voru æfir af því að postularnir voru að kenna fólkinu og boða upprisu dauðra í Jesú.

Lögðu þeir hendur á þá og settu þá í varðhald til næsta morguns, því að kvöld var komið.

En margir þeirra, er heyrt höfðu orðið, tóku trú, og tala karlmanna varð um fimm þúsundir.

Næsta morgun komu höfðingjarnir, öldungarnir og fræðimennirnir saman í Jerúsalem.

Þar voru Annas, æðsti prestur, Kaífas, Jóhannes, Alexander og allir, sem voru af æðsta prests ættum.

Þeir létu leiða postulana fram og spurðu þá: "Með hvaða krafti eða í hvers nafni gjörðuð þið þetta?"

Þá sagði Pétur við þá, fylltur heilögum anda: "Þér höfðingjar lýðsins og öldungar,

með því að við eigum í dag að svara til saka vegna góðverks við sjúkan mann og gera grein fyrir því, hvernig hann sé heill orðinn,

10 þá sé yður öllum kunnugt og öllum Ísraelslýð, að í nafni Jesú Krists frá Nasaret, þess er þér krossfestuð, en Guð uppvakti frá dauðum, í hans nafni stendur þessi maður heilbrigður fyrir augum yðar.

11 Jesús er steinninn, sem þér, húsasmiðirnir, virtuð einskis, hann er orðinn hyrningarsteinn.

12 Ekki er hjálpræðið í neinum öðrum. Og ekkert annað nafn er mönnum gefið um víða veröld, sem getur frelsað oss."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society