Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
94 Drottinn, Guð hefndarinnar, Guð hefndarinnar, birst þú í geisladýrð!
2 Rís þú upp, dómari jarðar, endurgjald ofstopamönnunum það er þeir hafa aðhafst!
3 Hversu lengi, Drottinn, eiga illir menn, hversu lengi, Drottinn, eiga illir menn að fagna?
4 Þeir ausa úr sér drambyrðum, allir illvirkjarnir rembast.
5 Þeir kremja lýð þinn, Drottinn, þjá arfleifð þína,
6 drepa ekkjur og aðkomandi og myrða föðurlausa
7 og segja: "Drottinn sér það ekki, Jakobs Guð tekur eigi eftir því."
8 Takið eftir, þér hinir fíflsku meðal lýðsins, og þér fáráðlingar, hvenær ætlið þér að verða hyggnir?
9 Mun sá eigi heyra, sem eyrað hefir plantað, mun sá eigi sjá, sem augað hefir til búið?
10 Skyldi sá er agar þjóðirnar eigi hegna, hann sem kennir mönnunum þekkingu?
11 Drottinn þekkir hugsanir mannsins, að þær eru einber hégómi.
12 Sæll er sá maður, er þú agar, Drottinn, og fræðir í lögmáli þínu,
13 til þess að hlífa honum við mótlætisdögunum, uns gröf er grafin fyrir óguðlega.
14 Því að Drottinn hrindir eigi burt lýð sínum og yfirgefur eigi arfleifð sína,
15 heldur mun rétturinn hverfa aftur til hins réttláta, og honum munu allir hjartahreinir fylgja.
16 Hver rís upp mér til hjálpar gegn illvirkjunum, hver gengur fram fyrir mig gegn illgjörðamönnunum?
17 Ef Drottinn veitti mér eigi fulltingi, þá mundi sál mín brátt hvíla í dauðaþögn.
18 Þegar ég hugsaði: "Mér skriðnar fótur," þá studdi mig miskunn þín, Drottinn.
19 Þegar miklar áhyggjur lögðust á hjarta mitt, hressti huggun þín sálu mína.
20 Mun dómstóll spillingarinnar vera í bandalagi við þig, hann sem býr öðrum tjón undir yfirskini réttarins?
21 Þeir ráðast á líf hins réttláta og sakfella saklaust blóð.
22 En Drottinn er mér háborg og Guð minn klettur mér til hælis.
23 Hann geldur þeim misgjörð þeirra og afmáir þá í illsku þeirra, Drottinn, Guð vor, afmáir þá.
14 Orð Drottins, sem kom til Jeremía út af þurrkunum.
2 Júda drúpir, og þeir, sem sitja í borgarhliðum landsins, örmagnast, þeir sitja harmandi á jörðinni, og harmakvein Jerúsalem stígur upp.
3 Tignarmenni þeirra senda undirmenn sína eftir vatni, þeir koma að vatnsþrónum, en finna ekkert vatn, þeir snúa aftur með tóm ílátin, þeir eru sneyptir og blygðast sín og hylja höfuð sín.
4 Vegna akurlendisins, sem er agndofa af skelfingu, af því að ekkert regn fellur í landinu, eru akurmennirnir sneypulegir og hylja höfuð sín.
5 Já, jafnvel hindin í haganum ber og yfirgefur kálfinn, því að gróður er enginn,
6 og villiasnarnir standa á skóglausu hæðunum og taka öndina á lofti, eins og sjakalarnir. Augu þeirra daprast, því að hvergi er gras.
7 Þegar misgjörðir vorar vitna í gegn oss, Drottinn, þá lát til þín taka vegna nafns þíns, því að fráhvarfssyndir vorar eru margar, gegn þér höfum vér syndgað.
8 Ó Ísraels von, hjálpari hans á neyðartíma, hví ert þú sem útlendingur í landinu og sem ferðamaður, er tjaldar til einnar nætur?
9 Hví ert þú eins og skelkaður maður, eins og hetja, sem ekki megnar að hjálpa? Og þó ert þú mitt á meðal vor, Drottinn, og vér erum nefndir eftir nafni þínu. Yfirgef oss eigi!
10 Svo segir Drottinn um þennan lýð: Þannig var þeim ljúft að reika um, þeir öftruðu ekki fótum sínum, en Drottinn hafði enga þóknun á þeim. Nú minnist hann misgjörðar þeirra og vitjar synda þeirra.
17 Þú skalt tala til þeirra þessi orð: Augu mín skulu fljóta í tárum nótt og dag, og tárin eigi stöðvast, því að mærin, dóttir þjóðar minnar, hefir orðið fyrir ógurlegu áfalli, hefir særð verið al-ólæknandi sári.
18 Gangi ég út á völlinn, þá liggja þar þeir, er fallið hafa fyrir sverði, og gangi ég inn í borgina, þá sé ég þar menn dána úr hungri. Já, spámenn og prestar fara um landið og bera ekki kennsl á það.
19 Hefir þú þá hafnað Júda algjörlega, eða ert þú orðinn leiður á Síon? Hví hefir þú lostið oss svo, að vér verðum eigi læknaðir? Menn vænta hamingju, en ekkert gott kemur, vænta lækningartíma, og sjá, skelfing!
20 Vér þekkjum, Drottinn, yfirsjón vora, misgjörð feðra vorra, að vér höfum syndgað gegn þér.
21 Fyrirlít eigi, vegna nafns þíns, _ óvirð eigi hásæti dýrðar þinnar, minnstu sáttmála þíns við oss og rjúf hann eigi.
22 Eru nokkrir regngjafar meðal hinna fánýtu guða heiðingjanna, eða úthellir himinninn skúrum sjálfkrafa? Ert það ekki þú, Drottinn, Guð vor, svo að vér verðum að vona á þig? Því að þú hefir gjört allt þetta.
31 Símon, Símon, Satan krafðist yðar að sælda yður eins og hveiti.
32 En ég hef beðið fyrir þér, að trú þín þrjóti ekki. Og styrk þú bræður þína, þegar þú ert snúinn við."
33 En Símon sagði við hann: "Herra, reiðubúinn er ég að fylgja þér bæði í fangelsi og dauða."
54 En þeir tóku hann höndum og leiddu brott og fóru með hann í hús æðsta prestsins. Pétur fylgdi eftir álengdar.
55 Menn höfðu kveikt eld í miðjum garðinum og sátu við hann, og Pétur settist meðal þeirra.
56 En þerna nokkur sá hann sitja í bjarmanum, hvessti á hann augun og sagði: "Þessi maður var líka með honum."
57 Því neitaði hann og sagði: "Kona, ég þekki hann ekki."
58 Litlu síðar sá hann annar maður og sagði: "Þú ert líka einn af þeim." En Pétur svaraði: "Nei, maður minn, það er ég ekki."
59 Og að liðinni um það bil einni stund fullyrti enn annar þetta og sagði: "Víst var þessi líka með honum, enda Galíleumaður."
60 Pétur mælti: "Ekki skil ég, hvað þú átt við, maður." Og jafnskjótt sem hann sagði þetta, gól hani.
61 Og Drottinn vék sér við og leit til Péturs. Þá minntist Pétur orða Drottins, er hann mælti við hann: "Áður en hani galar í dag, muntu þrisvar afneita mér."
62 Og hann gekk út og grét beisklega.
by Icelandic Bible Society