Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 14

14 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Heimskinginn segir í hjarta sínu: "Guð er ekki til." Ill og andstyggileg er breytni þeirra, enginn gjörir það sem gott er.

Drottinn lítur af himni niður á mennina til þess að sjá, hvort nokkur sé hygginn, nokkur sem leiti Guðs.

Allir eru viknir af leið, allir spilltir, enginn gjörir það sem gott er _ ekki einn.

Skyldu þeir ekki fá að kenna á því, allir illgjörðamennirnir, þeir er eta lýð minn sem brauð væri og ákalla eigi Drottin?

Þá skulu þeir verða mjög óttaslegnir, því að Guð er hjá kynslóð réttlátra.

Þér megið láta ráð hinna hrjáðu til skammar verða, því að Drottinn er samt athvarf þeirra.

Ó að hjálpræði Ísraels komi frá Síon! Þegar Drottinn snýr við hag lýðs síns, skal Jakob fagna og Ísrael gleðjast.

Jeremía 4:13-21

13 Sjá, eins og ský þýtur hann áfram, og vagnar hans eru eins og vindbylur, hestar hans eru fljótari en ernir. Vei oss, það er úti um oss!

14 Þvo illskuna af hjarta þínu, Jerúsalem, til þess að þú frelsist. Hversu lengi eiga þínar syndsamlegu hugsanir að búa í brjósti þér?

15 Því heyr, menn segja tíðindi frá Dan og boða ógæfu frá Efraímfjöllum.

16 Segið þjóðunum frá því, kallið á þær gegn Jerúsalem! Umsátursmenn koma úr fjarlægu landi og hefja óp gegn Júdaborgum.

17 Eins og akurverðir sitja þeir hringinn í kringum hana, af því að hún hefir þrjóskast í gegn mér _ segir Drottinn.

18 Atferli þitt og gjörðir þínar hafa bakað þér þetta, þetta hefir þú fyrir illsku þína. Já, beiskt er það, það gengur mjög nærri þér.

19 Iður mín, iður mín! Ég engist sundur og saman! Ó, veggir hjarta míns! Hjartað berst ákaft í brjósti mér, ég get ekki þagað! Því að önd mín heyrir lúðurhljóminn, bardagaópið.

20 Hrun á hrun ofan er boðað, já allt landið er eytt. Skyndilega eru tjöld mín eydd, tjalddúkar mínir tættir sundur allt í einu.

21 Hversu lengi á ég að sjá gunnfána, hversu lengi á ég að heyra lúðurhljóm?

Jeremía 4:29-31

29 Fyrir harki riddaranna og bogmannanna er hver borg á flótta. Menn skríða inn í runna og stíga upp á kletta. Allar borgir eru yfirgefnar og enginn maður býr framar í þeim.

30 En þú, eyðingunni ofurseld, hvað ætlar þú að gjöra? Þótt þú klæðist skarlati, þótt þú skreytir þig með gullskarti, þótt þú smyrjir augu þín blýlit _, til einskis gjörir þú þig fagra. Friðlarnir hafna þér, þeir sitja um líf þitt.

31 Já, hljóð heyri ég, eins og í jóðsjúkri konu, angistaróp, eins og í konu, sem er að ala fyrsta barnið, óp dótturinnar Síonar, sem stendur á öndinni af kvölum og breiðir út hendurnar: "Ó, vei mér, því að örmagna hnígur sál mín fyrir morðingjum."

Jóhannesarguðspjall 10:11-21

11 Ég er góði hirðirinn. Góði hirðirinn leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina.

12 Leiguliðinn, sem hvorki er hirðir né sjálfur á sauðina, sér úlfinn koma og yfirgefur sauðina og flýr, og úlfurinn hremmir þá og tvístrar þeim.

13 Enda er hann leiguliði og lætur sér ekki annt um sauðina.

14 Ég er góði hirðirinn og þekki mína, og mínir þekkja mig,

15 eins og faðirinn þekkir mig og ég þekki föðurinn. Ég legg líf mitt í sölurnar fyrir sauðina.

16 Ég á líka aðra sauði, sem eru ekki úr þessu sauðabyrgi. Þá ber mér einnig að leiða, þeir munu heyra raust mína. Og það verður ein hjörð, einn hirðir.

17 Fyrir því elskar faðirinn mig, að ég legg líf mitt í sölurnar, svo að ég fái það aftur.

18 Enginn tekur það frá mér, heldur legg ég það sjálfur í sölurnar. Ég hef vald til að leggja það í sölurnar og vald til að taka það aftur. Þessa skipan fékk ég frá föður mínum."

19 Aftur varð ágreiningur með Gyðingum út af þessum orðum.

20 Margir þeirra sögðu: "Hann hefur illan anda og er genginn af vitinu. Hvað eruð þér að hlusta á hann?"

21 Aðrir sögðu: "Þessi orð mælir enginn sá, sem hefur illan anda. Mundi illur andi geta opnað augu blindra?"

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society