Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
18 Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni:
2 Statt upp og gakk ofan í hús leirkerasmiðsins. Þar vil ég láta þig heyra orð mín!
3 Og ég gekk ofan í hús leirkerasmiðsins, og var hann að verki sínu við hjólið.
4 Mistækist kerið, sem hann var að búa til, þá bjó hann aftur til úr því annað ker, eins og leirkerasmiðinum leist að gjöra.
5 Þá kom orð Drottins til mín:
6 Get ég ekki farið með yður eins og þessi leirkerasmiður, þú Ísraels hús? _ segir Drottinn. Sjá, eins og leirinn í hendi leirkerasmiðsins, svo eruð þér í minni hendi, Ísraels hús.
7 Stundum hóta ég þjóð og konungsríki að uppræta það, umturna því og eyða því,
8 en snúi þjóðin, er ég hefi hótað þessu, sér frá vonsku sinni, þá iðrar mig hins illa, er ég hugði að gjöra henni.
9 En stundum heiti ég þjóð og konungsríki að byggja það og gróðursetja það,
10 en ef það gjörir það, sem illt er í mínum augum, svo að það hlýðir ekki minni raustu, þá iðrar mig þess góða, er ég hafði heitið að veita því.
11 Seg þú nú við Júdamenn og Jerúsalembúa á þessa leið: Svo segir Drottinn: Sjá, ég bý yður ógæfu og brugga ráð gegn yður. Snúið yður hver og einn frá sinni vondu breytni og temjið yður góða breytni og góð verk!
139 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Drottinn, þú rannsakar og þekkir mig.
2 Hvort sem ég sit eða stend, þá veist þú það, þú skynjar hugrenningar mínar álengdar.
3 Hvort sem ég geng eða ligg, þá athugar þú það, og alla vegu mína gjörþekkir þú.
4 Því að eigi er það orð á tungu minni, að þú, Drottinn, þekkir það eigi til fulls.
5 Þú umlykur mig á bak og brjóst, og hönd þína hefir þú lagt á mig.
6 Þekking þín er undursamlegri en svo, að ég fái skilið, of háleit, ég er henni eigi vaxinn.
13 Því að þú hefir myndað nýru mín, ofið mig í móðurlífi.
14 Ég lofa þig fyrir það, að ég er undursamlega skapaður, undursamleg eru verk þín, það veit ég næsta vel.
15 Beinin í mér voru þér eigi hulin, þegar ég var gjörður í leyni, myndaður í djúpum jarðar.
16 Augu þín sáu mig, er ég enn var ómyndað efni, ævidagar voru ákveðnir og allir skráðir í bók þína, áður en nokkur þeirra var til orðinn.
17 En hversu torskildar eru mér hugsanir þínar, ó Guð, hversu stórkostlegar eru þær allar samanlagðar.
18 Ef ég vildi telja þær, væru þær fleiri en sandkornin, ég mundi vakna og vera enn með hugann hjá þér.
1 Páll, bandingi Krists Jesú, og Tímóteus bróðir vor, heilsa elskuðum vini okkar og samverkamanni Fílemon,
2 svo og Appíu systur okkar og Arkippusi samherja okkar og söfnuðinum, sem kemur saman í húsi þínu.
3 Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.
4 Ég þakka Guði mínum ávallt, er ég minnist þín í bænum mínum.
5 Því að ég heyri um trúna, sem þú hefur á Drottni Jesú, og um kærleika þinn til hinna heilögu.
6 Ég bið þess, að trú þín, sem þú átt með oss, verði mikilvirk í þekkingunni á öllu því góða, sem tilheyrir Kristi.
7 Ég hlaut mikla gleði og huggun af kærleika þínum, þar eð þú, bróðir, hefur endurnært hjörtu hinna heilögu.
8 Því er það, að þótt ég gæti með fullri djörfung í Kristi boðið þér að gera það, sem skylt er,
9 þá fer ég þó heldur bónarveg vegna kærleika þíns, þar sem ég er eins og ég er, hann Páll gamli, og nú líka bandingi Krists Jesú.
10 Ég bið þig þá fyrir barnið mitt, sem ég hef getið í fjötrum mínum, hann Onesímus.
11 Hann var þér áður óþarfur, en er nú þarfur bæði þér og mér.
12 Ég sendi hann til þín aftur, og er hann þó sem hjartað í brjósti mér.
13 Feginn vildi ég hafa haldið honum hjá mér, til þess að hann í þinn stað veitti mér þjónustu í fjötrum mínum vegna fagnaðarerindisins.
14 En án þíns samþykkis vildi ég ekkert gjöra, til þess að velgjörð þín skyldi ekki koma eins og af nauðung, heldur af fúsum vilja.
15 Vísast hefur hann þess vegna orðið viðskila við þig um stundarsakir, að þú síðan skyldir fá að halda honum eilíflega,
16 ekki lengur eins og þræli, heldur þræli fremri, eins og elskuðum bróður. Mér er hann kær bróðir. Hve miklu fremur þó þér, bæði sem maður og kristinn.
17 Ef þú því telur mig félaga þinn, þá tak þú á móti honum, eins og væri það ég sjálfur.
18 En hafi hann eitthvað gjört á hluta þinn, eða sé hann í skuld við þig, þá fær þú það mér til reiknings.
19 Ég, Páll, rita með eigin hendi: Ég mun gjalda. Að ég ekki nefni við þig, að þú ert jafnvel í skuld við mig um sjálfan þig.
20 Já, bróðir, unn mér gagns af þér vegna Drottins, endurnær hjarta mitt sakir Krists.
21 Í fullu trausti til hlýðni þinnar rita ég til þín og veit, að þú munt gjöra jafnvel fram yfir það, sem ég mælist til.
25 Mikill fjöldi fólks var honum samferða. Hann sneri sér við og sagði við þá:
26 "Ef einhver kemur til mín og hatar ekki föður sinn og móður, konu og börn, bræður og systur og enda sitt eigið líf, sá getur ekki verið lærisveinn minn.
27 Hver sem ber ekki sinn kross og fylgir mér, getur ekki verið lærisveinn minn.
28 Hver yðar sest ekki fyrst við, ef hann ætlar að reisa turn, og reiknar kostnaðinn, hvort hann eigi nóg til að ljúka verkinu?
29 Ella má svo fara, að hann leggi undirstöðu, en fái ekki við lokið, og allir, sem það sjá, taki að spotta hann
30 og segja: ,Þessi maður fór að byggja, en gat ekki lokið.`
31 Eða hvaða konungur fer með hernaði gegn öðrum konungi og sest ekki fyrst við og ráðgast um, hvort honum sé fært að mæta með tíu þúsundum þeim er fer á móti honum með tuttugu þúsundir?
32 Sé svo ekki, gerir hann menn á fund hans, meðan hann er enn langt undan, og spyr um friðarkosti.
33 Þannig getur enginn yðar verið lærisveinn minn, nema hann segi skilið við allt sem hann á.
by Icelandic Bible Society