Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 58

58 Til söngstjórans. Lag: Spill eigi. Davíðs-miktam.

Talið þér í sannleika það sem rétt er, þér guðir? Dæmið þér mennina með sanngirni?

Nei, allir aðhafist þér ranglæti á jörðu, hendur yðar vega út ofbeldi.

Hinir illu eru frá móðurlífi viknir af leið, lygarar fara villir vegar frá móðurskauti.

Eitur þeirra er eins og höggormseitur, þeir eru eins og dauf naðra, sem lokar eyrunum

til þess að heyra ekki raust særingamannsins né hins slungna töframanns.

Guð, brjót sundur tennurnar í munni þeirra, mölva jaxlana úr ljónunum, Drottinn!

Lát þá hverfa eins og vatn, sem rennur burt; miði hann örvum sínum á þá, þá hníga þeir,

eins og snigillinn, sem rennur í sundur og hverfur, ótímaburður konunnar, er eigi sá sólina.

10 Áður en pottar yðar kenna hitans af þyrnunum, hvort sem þyrnarnir eru grænir eða glóandi, feykir hann hinum illa burt.

11 Þá mun hinn réttláti fagna, af því að hann hefir fengið að sjá hefndina, hann mun lauga fætur sína í blóði hinna óguðlegu.

12 Þá munu menn segja: Hinn réttláti hlýtur þó ávöxt; það er þó til Guð, sem dæmir á jörðunni.

Jeremía 3:1-14

Þegar maður rekur frá sér konu sína, og hún fer frá honum og giftist öðrum manni, getur hann þá horfið til hennar aftur? Mundi landið ekki vanhelgast af því? En þú hefir drýgt hór með mörgum friðlum og ættir þó að snúa aftur til mín! _ segir Drottinn.

Renn augum þínum upp á skóglausu hæðirnar og gæt að: Hvar hefir þú eigi hórast? Við vegina situr þú um friðla eins og Arabi í eyðimörkinni og vanhelgar landið með lauslæti þínu og vonsku þinni.

Og þótt skúrunum væri haldið aftur og ekkert vorregn kæmi, þá varst þú með hórusvip, þú vildir ekki skammast þín.

En nú kallar þú til mín: "Faðir minn! Þú ert unnusti æsku minnar!"

Þú hugsar: "Mun hann verða reiður eilíflega, alltaf erfa það?" Sjá, þannig talar þú, en fremur illt og getur fengið það af þér.

Drottinn sagði við mig á dögum Jósía konungs: Hefir þú séð, hvað hin fráhverfa Ísrael hefir aðhafst? Hún fór upp á hverja háa hæð og inn undir hvert grænt tré og hóraðist þar.

Ég hugsaði raunar: Eftir að hún hefir aðhafst allt þetta, mun hún snúa aftur til mín. En hún sneri ekki aftur. Það sá hin ótrúa systir hennar, Júda,

og þótt hún sæi, að einmitt vegna þess, að hin fráhverfa Ísrael hafði drýgt hór, hafði ég rekið hana burt og gefið henni skilnaðarskrá, þá óttaðist ekki hin ótrúa systir hennar, Júda, heldur fór og drýgði líka hór,

og með hinu léttúðarfulla lauslæti sínu vanhelgaði hún landið og drýgði hór með steini og trédrumbi.

10 En þrátt fyrir allt þetta hefir hin ótrúa systir hennar, Júda, eigi snúið sér til mín af öllu hjarta, heldur með hræsni _ segir Drottinn.

11 Drottinn sagði við mig: Hin fráhverfa Ísrael er saklaus í samanburði við hina ótrúu Júda.

12 Far þú og kalla þessi orð í norðurátt og seg: Hverf aftur, þú hin fráhverfa Ísrael _ segir Drottinn _, ég vil ekki lengur líta reiðulega til þín, því að ég er miskunnsamur _ segir Drottinn _, ég er ekki eilíflega reiður.

13 Kannastu aðeins við ávirðing þína, að þú hefir rofið trúnað við Drottin, Guð þinn, og hlaupið ýmsar leiðir til þess að gefa þig á vald útlendum guðum undir hverju grænu tré, en minni raust hafið þér ekki hlýtt _ segir Drottinn.

14 Hverfið aftur, þér fráhorfnu synir _ segir Drottinn _, því að ég er herra yðar. Og ég vil taka yður, einn úr hverri borg og tvo af hverjum kynstofni, og flytja yður til Síonar,

Bréf Páls til Títusar 1:1-9

Frá Páli, þjóni Guðs, en postula Jesú Krists til að efla trú Guðs útvöldu og þekkingu á sannleikanum, sem leiðir til guðhræðslu

í von um eilíft líf. Því hefur Guð, sá er ekki lýgur, heitið frá eilífum tíðum,

en opinberað á settum tíma. Þetta orð hans var mér trúað fyrir að prédika eftir skipun Guðs, frelsara vors.

Til Títusar, skilgetins sonar míns í sameiginlegri trú. Náð og friður frá Guði föður og Kristi Jesú, frelsara vorum.

Ég lét þig eftir á Krít, til þess að þú færðir í lag það, sem ógjört var, og skipaðir öldunga í hverri borg, svo sem ég lagði fyrir þig.

Öldungur á að vera óaðfinnanlegur, einkvæntur, á að eiga trúuð börn, sem eigi eru sökuð um gjálífi eða óhlýðni.

Því að biskup á að vera óaðfinnanlegur, þar sem hann er ráðsmaður Guðs. Hann á ekki að vera sjálfbirgingur, ekki bráður, ekki drykkfelldur, ekki ofsafenginn, ekki sólginn í ljótan gróða.

Hann sé gestrisinn, góðgjarn, hóglátur, réttlátur, heilagur og hafi stjórn á sjálfum sér.

Hann á að vera maður fastheldinn við hið áreiðanlega orð, sem samkvæmt er kenningunni, til þess að hann sé fær um bæði að áminna með hinni heilnæmu kenningu og hrekja þá, sem móti mæla.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society