Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
10 Hví stendur þú fjarri, Drottinn, hví byrgir þú augu þín á neyðartímum?
2 Hinn óguðlegi ofsækir hina hrjáðu í hroka sínum, þeir flækjast í vélum þeim, er þeir hafa upp hugsað.
3 Hinn óguðlegi lofar Guð fyrir það, er sála hans girnist, og hinn ásælni prísar Drottin, sem hann fyrirlítur.
4 Hinn óguðlegi segir í drambsemi sinni: "Hann hegnir eigi!" "Guð er ekki til" _ svo hugsar hann í öllu.
5 Fyrirtæki hans heppnast ætíð, dómar þínir fara hátt yfir höfði hans, alla fjandmenn sína kúgar hann.
6 Hann segir í hjarta sínu: "Ég verð eigi valtur á fótum, frá kyni til kyns mun ég eigi í ógæfu rata."
7 Munnur hans er fullur af formælingum, svikum og ofbeldi, undir tungu hans býr illska og ranglæti.
8 Hann situr í launsátri í þorpunum, í skúmaskotinu drepur hann hinn saklausa, augu hans skima eftir hinum bágstöddu.
9 Hann gjörir fyrirsát í fylgsninu eins og ljón í skógarrunni; hann gjörir fyrirsát til þess að ná hinum volaða, hann nær honum í snöru sína, í net sitt.
10 Kraminn hnígur hann niður, hinn bágstaddi fellur fyrir klóm hans.
11 Hann segir í hjarta sínu: "Guð gleymir því, hann hefir hulið auglit sitt, sér það aldrei."
12 Rís þú upp, Drottinn! Lyft þú upp hendi þinni, Guð! Gleym eigi hinum voluðu.
13 Hvers vegna á hinn óguðlegi að sýna Guði fyrirlitningu, segja í hjarta sínu: "Þú hegnir eigi"?
14 Þú gefur gaum að mæðu og böli til þess að taka það í hönd þína. Hinn bágstaddi felur þér það; þú ert hjálpari föðurlausra.
15 Brjót þú armlegg hins óguðlega, og er þú leitar að guðleysi hins vonda, finnur þú það eigi framar.
16 Drottinn er konungur um aldur og ævi, heiðingjum er útrýmt úr landi hans.
17 Þú hefir heyrt óskir hinna voluðu, Drottinn, þú eykur þeim hugrekki, hneigir eyra þitt.
18 Þú lætur hina föðurlausu og kúguðu ná rétti sínum. Eigi skulu menn af moldu framar beita kúgun.
16 Þú skalt ekki biðja fyrir þessum lýð og ekki hefja þeirra vegna grátbeiðni né fyrirbón, og legg ekki að mér, því að ég heyri þig ekki.
17 Sér þú ekki hvað þeir hafast að í Júdaborgum og á strætum Jerúsalem?
18 Börnin tína saman eldivið og feðurnir kveikja eldinn, en konurnar hnoða deig til þess að gjöra af fórnarkökur handa himnadrottningunni, og færa öðrum guðum dreypifórnir til þess að skaprauna mér.
19 En skaprauna þeir mér _ segir Drottinn _, hvort ekki miklu fremur sjálfum sér, til þess að þeir verði sér herfilega til skammar?
20 Fyrir því segir herrann Drottinn svo: Reiði minni og heift mun úthellt verða yfir þennan stað, yfir menn og skepnur, yfir tré merkurinnar og yfir ávexti akurlendisins, _ og hún skal brenna og eigi slokkna.
21 Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Bætið brennifórnum yðar við sláturfórnir yðar og etið kjöt!
22 Því að ég hefi ekkert talað til feðra yðar né boðið þeim nokkuð um brennifórnir og sláturfórnir, þá er ég leiddi þá burt af Egyptalandi.
23 En þetta hefi ég boðið þeim: Hlýðið minni raustu, þá skal ég vera yðar Guð og þér skuluð vera mín þjóð, og gangið jafnan á þeim vegi, sem ég býð yður, til þess að yður vegni vel.
24 En þeir heyrðu ekki og lögðu ekki við eyrun, en fóru eftir vélráðum síns illa hjarta og sneru við mér bakinu, en ekki andlitinu.
25 Frá þeim degi, er feður yðar fóru burt af Egyptalandi, og fram á þennan dag, hefi ég stöðugt dag eftir dag sent þjóna mína, spámennina, til yðar.
26 En þeir heyrðu mig ekki og lögðu ekki við eyrun, heldur gjörðust harðsvíraðir og breyttu enn verr en feður þeirra.
7 Og engli safnaðarins í Fíladelfíu skalt þú rita: Þetta segir sá heilagi, sá sanni, sem hefur lykil Davíðs, hann sem lýkur upp, svo að enginn læsir, og læsir, svo að enginn lýkur upp.
8 Ég þekki verkin þín. Sjá, ég hef látið dyr standa opnar fyrir þér, sem enginn getur lokað. Þú hefur lítinn mátt, en hefur varðveitt orð mitt og ekki afneitað nafni mínu.
9 Ég skal láta nokkra af samkundu Satans, er segja sjálfa sig vera Gyðinga, en eru það ekki, heldur ljúga, _ ég skal láta þá koma og kasta sér fyrir fætur þér og láta þá vita, að ég elska þig.
10 Af því að þú hefur varðveitt orðið um þolgæði mitt mun ég og varðveita þig frá reynslustundinni, sem koma mun yfir alla heimsbyggðina, til að reyna þá sem á jörðunni búa.
11 Ég kem skjótt. Haltu fast því, sem þú hefur, til þess að enginn taki kórónu þína.
12 Þann er sigrar mun ég gjöra að stólpa í musteri Guðs míns, og hann skal aldrei þaðan út fara. Á hann mun ég rita nafn Guðs míns og nafn borgar Guðs míns, hinnar nýju Jerúsalem, er kemur af himni ofan frá Guði mínum, og nafnið mitt hið nýja.
13 Hver sem eyra hefur, hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum.
by Icelandic Bible Society