Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
10 Hví stendur þú fjarri, Drottinn, hví byrgir þú augu þín á neyðartímum?
2 Hinn óguðlegi ofsækir hina hrjáðu í hroka sínum, þeir flækjast í vélum þeim, er þeir hafa upp hugsað.
3 Hinn óguðlegi lofar Guð fyrir það, er sála hans girnist, og hinn ásælni prísar Drottin, sem hann fyrirlítur.
4 Hinn óguðlegi segir í drambsemi sinni: "Hann hegnir eigi!" "Guð er ekki til" _ svo hugsar hann í öllu.
5 Fyrirtæki hans heppnast ætíð, dómar þínir fara hátt yfir höfði hans, alla fjandmenn sína kúgar hann.
6 Hann segir í hjarta sínu: "Ég verð eigi valtur á fótum, frá kyni til kyns mun ég eigi í ógæfu rata."
7 Munnur hans er fullur af formælingum, svikum og ofbeldi, undir tungu hans býr illska og ranglæti.
8 Hann situr í launsátri í þorpunum, í skúmaskotinu drepur hann hinn saklausa, augu hans skima eftir hinum bágstöddu.
9 Hann gjörir fyrirsát í fylgsninu eins og ljón í skógarrunni; hann gjörir fyrirsát til þess að ná hinum volaða, hann nær honum í snöru sína, í net sitt.
10 Kraminn hnígur hann niður, hinn bágstaddi fellur fyrir klóm hans.
11 Hann segir í hjarta sínu: "Guð gleymir því, hann hefir hulið auglit sitt, sér það aldrei."
12 Rís þú upp, Drottinn! Lyft þú upp hendi þinni, Guð! Gleym eigi hinum voluðu.
13 Hvers vegna á hinn óguðlegi að sýna Guði fyrirlitningu, segja í hjarta sínu: "Þú hegnir eigi"?
14 Þú gefur gaum að mæðu og böli til þess að taka það í hönd þína. Hinn bágstaddi felur þér það; þú ert hjálpari föðurlausra.
15 Brjót þú armlegg hins óguðlega, og er þú leitar að guðleysi hins vonda, finnur þú það eigi framar.
16 Drottinn er konungur um aldur og ævi, heiðingjum er útrýmt úr landi hans.
17 Þú hefir heyrt óskir hinna voluðu, Drottinn, þú eykur þeim hugrekki, hneigir eyra þitt.
18 Þú lætur hina föðurlausu og kúguðu ná rétti sínum. Eigi skulu menn af moldu framar beita kúgun.
7 Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni:
2 Nem staðar við hlið musteris Drottins og boða þar þessi orð og seg: Heyrið orð Drottins, allir Júdamenn, þér sem gangið inn um þetta hlið til þess að falla fram fyrir Drottni.
3 Svo segir Drottinn allsherjar, Guð Ísraels: Bætið breytni yðar og gjörðir, þá mun ég láta yður búa á þessum stað.
4 Reiðið yður ekki á lygatal, er menn segja: "Þetta er musteri Drottins, musteri Drottins, musteri Drottins."
5 En ef þér bætið breytni yðar og gjörðir alvarlega, ef þér iðkið réttlæti í þrætum manna á milli,
6 undirokið ekki útlendinga, munaðarleysingja og ekkjur, og úthellið ekki saklausu blóði á þessum stað, og eltið ekki aðra guði, yður til tjóns,
7 þá vil ég láta yður búa á þessum stað, í landinu, sem ég gaf feðrum yðar, frá eilífð til eilífðar.
8 Sjá, þér reiðið yður á lygaræður, sem ekki eru til nokkurs gagns.
9 Er ekki svo: Stela, myrða, drýgja hór, sverja meinsæri, færa Baal reykelsisfórnir og elta aðra guði, er þér ekki þekkið,
10 og síðan komið þér og gangið fram fyrir mig í þessu húsi, sem kennt er við nafn mitt, og segið: "Oss er borgið!" og fremjið síðan að nýju allar þessar svívirðingar.
11 Er þá hús þetta, sem kennt er við nafn mitt, orðið að ræningjabæli í augum yðar? Já, ég lít svo á _ segir Drottinn.
12 Farið til bústaðar míns í Síló, þar sem ég forðum daga lét nafn mitt búa, og sjáið, hvernig ég hefi farið með hann fyrir sakir illsku lýðs míns Ísraels.
13 Og þar eð þér nú hafið framið öll þessi verk _ segir Drottinn _ og eigi hlýtt, þótt ég hafi talað til yðar seint og snemma, og eigi svarað, þótt ég hafi kallað á yður,
14 þá ætla ég að fara með húsið, sem kennt er við nafn mitt og þér treystið á, og staðinn, sem ég hefi gefið yður og feðrum yðar, eins og ég fór með Síló,
15 og útskúfa yður frá augliti mínu, eins og ég útskúfaði bræðrum yðar, öllum niðjum Efraíms.
7 Því er það, eins og heilagur andi segir: Ef þér heyrið raust hans í dag,
8 þá forherðið ekki hjörtu yðar, eins og í uppreisninni á degi freistingarinnar á eyðimörkinni;
9 þar sem feður yðar freistuðu mín og reyndu mig, þótt þeir fengju að sjá verkin mín í fjörutíu ár.
10 Þess vegna varð ég gramur kynslóð þessari og sagði: Án afláts villast þeir í hjörtum sínum. Þeir þekktu ekki vegu mína.
11 Og ég sór í bræði minni: Eigi skulu þeir inn ganga til hvíldar minnar.
12 Gætið þess, bræður, að enginn yðar búi yfir vondu vantrúar hjarta og falli frá lifanda Guði.
13 Áminnið heldur hver annan hvern dag, á meðan enn heitir "í dag", til þess að enginn yðar forherðist af táli syndarinnar.
14 Því að vér erum orðnir hluttakar Krists, svo framarlega sem vér höldum staðfastlega allt til enda trausti voru, eins og það var að upphafi.
15 Sagt er: "Ef þér heyrið raust hans í dag, þá forherðið ekki hjörtu yðar eins og í uppreisninni" _
16 Hverjir voru þá þeir, sem heyrt höfðu og gjörðu þó uppreisn? Voru það ekki einmitt allir þeir, sem út höfðu farið af Egyptalandi fyrir tilstilli Móse?
17 Og hverjum "var hann gramur í fjörutíu ár"? Var það ekki þeim, sem syndgað höfðu og báru beinin á eyðimörkinni?
18 Og hverjum "sór hann, að eigi skyldu þeir ganga inn til hvíldar hans," nema hinum óhlýðnu?
19 Vér sjáum, að sakir vantrúar fengu þeir eigi gengið inn.
4 Fyrirheitið um það að ganga inn til hvíldar hans stendur enn, vörumst því að nokkur yðar verði til þess að dragast aftur úr.
2 Fagnaðarerindið var oss boðað eigi síður en þeim. En orðið, sem þeir heyrðu, kom þeim eigi að haldi vegna þess, að þeir tóku ekki við því í trú.
3 En vér, sem trú höfum tekið, göngum inn til hvíldarinnar eins og hann hefur sagt: "Og ég sór í bræði minni: Eigi skulu þeir inn ganga til hvíldar minnar." Þó voru verk Guðs fullgjör frá grundvöllun heims.
4 Því að einhvers staðar er svo að orði kveðið um hinn sjöunda dag: "Og Guð hvíldist hinn sjöunda dag eftir öll verk sín."
5 Og aftur á þessum stað: "Eigi skulu þeir inn ganga til hvíldar minnar."
6 Enn stendur því til boða, að nokkrir gangi inn til hvíldar Guðs. Þeir, sem fagnaðarerindið var fyrr boðað, gengu ekki inn sakir óhlýðni.
7 Því ákveður Guð aftur dag einn, er hann segir löngu síðar fyrir munn Davíðs: "Í dag." Eins og fyrr hefur sagt verið: "Ef þér heyrið raust hans í dag, þá forherðið ekki hjörtu yðar."
8 Hefði Jósúa leitt þá til hvíldar, þá hefði Guð ekki síðar meir talað um annan dag.
9 Enn stendur þá til boða sabbatshvíld fyrir lýð Guðs.
10 Því að sá, sem gengur inn til hvíldar hans, fær hvíld frá verkum sínum, eins og Guð hvíldist eftir sín verk.
11 Kostum því kapps um að ganga inn til þessarar hvíldar, til þess að enginn óhlýðnist eins og þeir og falli.
by Icelandic Bible Society