Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
80 Til söngstjórans. Liljulag. Asafs-vitnisburður. Sálmur.
2 Hirðir Ísraels, hlýð á, þú sem leiddir Jósef eins og hjörð, þú sem ríkir uppi yfir kerúbunum, birst þú í geisladýrð.
8 Guð hersveitanna leið oss aftur til þín og lát ásjónu þína lýsa, að vér megum frelsast.
9 Þú kipptir upp vínvið úr Egyptalandi, stökktir burt þjóðum, en gróðursettir hann,
10 þú rýmdir til fyrir honum, hann festi rætur og fyllti landið.
11 Fjöllin huldust í skugga hans og sedrustré Guðs af greinum hans.
12 Hann breiddi út álmur sínar til hafsins og teinunga sína til Fljótsins.
13 Hví hefir þú brotið niður múrveggina um hann, svo að allir vegfarendur tína berin?
14 Skógargeltirnir naga hann, og öll dýr merkurinnar bíta hann.
15 Guð hersveitanna, æ, snú þú aftur, lít niður af himni og sjá og vitja vínviðar þessa
16 og varðveit það sem hægri hönd þín hefir plantað, og son þann, er þú hefir styrkvan gjört þér til handa.
17 Hann er brenndur í eldi og upphöggvinn, fyrir ógnun auglitis þíns farast þeir.
18 Lát hönd þína hvíla yfir manninum við þína hægri hönd, yfir mannsins barni, er þú hefir styrkvan gjört þér til handa,
19 þá skulum vér eigi víkja frá þér. Viðhald lífi voru, þá skulum vér ákalla nafn þitt.
3 Sjá, hinn alvaldi, Drottinn allsherjar sviptir Jerúsalem og Júda hverri stoð og styttu, allri stoð brauðs og allri stoð vatns,
2 hetjum og hermönnum, dómendum og spámönnum, spásagnamönnum og öldungum,
3 höfuðsmönnum, virðingamönnum, ráðgjöfum, hugvitsmönnum og kunnáttumönnum.
4 Ég vil fá þeim ungmenni fyrir höfðingja, og smásveinar skulu drottna yfir þeim.
5 Á meðal fólksins skal maður manni þrengja. Ungmennið mun hrokast upp í móti öldungnum og skrílmennið upp í móti tignarmanninum.
6 Þegar einhver þrífur í bróður sinn í húsi föður síns og segir: "Þú átt yfirhöfn, ver þú stjórnari vor, og þetta fallandi ríki skal vera undir þinni hendi,"
7 þá mun hann á þeim degi hefja upp raust sína og segja: "Ég vil ekki vera sáralæknir, og í húsi mínu er hvorki til brauð né klæði. Gjörið mig ekki að þjóðstjóra."
8 Jerúsalem er að hruni komin og Júda er að falla, af því að tunga þeirra og athæfi var gegn Drottni til þess að storka dýrðaraugum hans.
9 Andlitssvipur þeirra vitnar í gegn þeim, og þeir gjöra syndir sínar heyrinkunnar, eins og Sódóma, og leyna þeim ekki. Vei þeim, því að þeir hafa bakað sjálfum sér ógæfu.
10 Heill hinum réttlátu, því að þeim mun vel vegna, því að þeir munu njóta ávaxtar verka sinna.
11 Vei hinum óguðlega, honum mun illa vegna, því að honum mun goldið verða eftir tilgjörðum hans.
12 Harðstjóri þjóðar minnar er drengur, og konur drottna yfir henni. Þjóð mín, leiðtogar þínir leiða þig afleiðis og villa fyrir þér veginn.
13 Drottinn gengur fram til að sækja sökina, hann stendur frammi til að dæma þjóðirnar.
14 Drottinn gengur fram til dóms í gegn öldungum lýðs síns og höfðingjum hans: "Það eruð þér, sem hafið etið upp víngarðinn. Rændir fjármunir fátæklinganna eru í húsum yðar.
15 Hvernig getið þér fengið af yður að fótum troða lýð minn og merja sundur andlit hinna snauðu," _ segir hinn alvaldi, Drottinn allsherjar.
16 Drottinn sagði: Sökum þess að dætur Síonar eru drembilátar og ganga hnakkakerrtar, gjóta út undan sér augunum og tifa í göngunni og láta glamra í ökklaspennunum,
17 þá mun Drottinn gjöra kláðugan hvirfil Síonar dætra og gjöra bera blygðan þeirra.
32 Minnist fyrri daga, er þér höfðuð tekið á móti ljósinu, hvernig þér urðuð að þola mikla raun þjáninga.
33 Það var ýmist, að þér sjálfir, smánaðir og aðþrengdir, voruð hafðir að augnagamni, eða þá hitt, að þér tókuð þátt í kjörum þeirra, er áttu slíku að sæta.
34 Þér þjáðust með bandingjum, og tókuð því með gleði, er þér voruð rændir eignum yðar, því að þér vissuð, að þér áttuð sjálfir betri eign og varanlega.
35 Varpið því eigi frá yður djörfung yðar. Hún mun hljóta mikla umbun.
36 Þolgæðis hafið þér þörf, til þess að þér gjörið Guðs vilja og öðlist fyrirheitið.
37 Því að: Innan harla skamms tíma mun sá koma, sem koma á, og ekki dvelst honum.
38 Minn réttláti mun lifa fyrir trúna, en skjóti hann sér undan, þá hefur sála mín ekki velþóknun á honum.
39 En vér skjótum oss ekki undan og glötumst, heldur trúum vér og frelsumst.
by Icelandic Bible Society