Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 60

60 Til söngstjórans. Lag: Vitnisburðarliljan. Miktam eftir Davíð, til fræðslu,

þá er hann barðist við Sýrlendinga frá Mesópotamíu og Sýrlendinga frá Sóba, og Jóab sneri við og vann sigur á Edómítum í Saltdalnum, tólf þúsund manns.

Guð, þú hefir útskúfað oss og tvístrað oss, þú reiddist oss _ snú þér aftur að oss.

Þú lést jörðina gnötra og rofna, gjör við sprungur hennar, því að hún reikar.

Þú lést lýð þinn kenna á hörðu, lést oss drekka vímuvín.

Þú hefir gefið þeim, er óttast þig, hermerki, að þeir mættu flýja undan bogunum. [Sela]

Hjálpa þú með hægri hendi þinni og bænheyr oss, til þess að ástvinir þínir megi frelsast.

Guð hefir sagt í helgidómi sínum: "Ég vil fagna, ég vil skipta Síkem, mæla út Súkkót-dal.

Ég á Gíleað og ég á Manasse, og Efraím er hlíf höfði mínu, Júda veldissproti minn.

10 Móab er mundlaug mín, í Edóm fleygi ég skónum mínum, yfir Filisteu fagna ég."

11 Hver vill fara með mig í örugga borg, hver vill flytja mig til Edóm?

12 Þú hefir útskúfað oss, ó Guð, og þú, Guð, fer eigi út með hersveitum vorum.

13 Veit oss lið gegn fjandmönnunum, því að mannahjálp er ónýt.

14 Með Guðs hjálp munum vér hreystiverk vinna, og hann mun troða óvini vora fótum.

Hósea 13

13 Þegar Efraím talaði, sló ótta á menn. Hann var höfðingi í Ísrael. En hann varð sekur fyrir Baalsdýrkunina og dó.

Og nú halda þeir áfram að syndga, þeir hafa gjört sér steypt líkneski úr silfri sínu, goðalíkneski eftir hugviti sínu, verk hagleiksmanna er það allt saman. Og slíkt ávarpa þeir. Fórnandi menn kyssa kálfa.

Fyrir því skulu þeir verða eins og ský að morgni dags og sem dögg, er snemma hverfur, eins og sáðir, sem þyrlast burt af láfanum, og sem reykur út um ljóra.

En ég, Drottinn, er Guð þinn frá því á Egyptalandi. Annan guð en mig þekkir þú ekki og enginn frelsari er til nema ég.

Það var ég, sem hélt þér til haga í eyðimörkinni, í landi þurrkanna.

En því meira haglendi sem þeir fengu, því saddari átu þeir sig. En er þeir voru saddir orðnir, metnaðist hjarta þeirra. Þess vegna gleymdu þeir mér.

Fyrir því er ég þeim eins og ljón, ligg í leyni við veginn eins og pardusdýr,

ræðst á þá eins og birna, sem rænd er húnum sínum, sundurríf brjóst þeirra. Þar skulu ung ljón eta þá, villidýrin slíta þá sundur.

Það verður þér að tjóni, Ísrael, að þú ert á móti mér, hjálpara þínum.

10 Hvar er nú konungur þinn, að hann frelsi þig, og allir höfðingjar þínir, að þeir rétti hluta þinn? _ þeir er þú sagðir um: "Gef mér konung og höfðingja!"

11 Ég gef þér konung í reiði minni og tek hann aftur í bræði minni.

12 Misgjörð Efraíms er saman bundin, synd hans vel geymd.

13 Kvalir jóðsjúkrar konu koma yfir hann, en hann er óvitur sonur. Þótt stundin sé komin, kemur hann ekki fram í burðarliðinn.

14 Ætti ég að frelsa þá frá Heljar valdi, leysa þá frá dauða? Hvar eru drepsóttir þínar, dauði? Hvar er sýki þín, Hel? Augu mín þekkja enga meðaumkun.

15 Því þótt hann beri ávöxt meðal bræðranna, þá kemur þó austanvindurinn, stormur Drottins, sem rís í eyðimörkinni, svo að brunnar hans þorna og lindir hans þrjóta. Hann mun ræna fjársjóð hans öllum dýrmætum gersemum.

Bréf Páls til Kólossumann 4:2-6

Verið staðfastir í bæninni. Vakið og biðjið með þakkargjörð.

Biðjið jafnframt fyrir oss, að Guð opni oss dyr fyrir orðið og vér getum boðað leyndardóm Krists. Hans vegna er ég nú bundinn.

Biðjið, að ég megi birta hann eins og mér ber að tala.

Umgangist viturlega þá, sem fyrir utan eru, og notið hverja stundina.

Mál yðar sé ætíð ljúflegt, en salti kryddað, til þess að þér vitið, hvernig þér eigið að svara hverjum manni.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society