Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
60 Til söngstjórans. Lag: Vitnisburðarliljan. Miktam eftir Davíð, til fræðslu,
2 þá er hann barðist við Sýrlendinga frá Mesópotamíu og Sýrlendinga frá Sóba, og Jóab sneri við og vann sigur á Edómítum í Saltdalnum, tólf þúsund manns.
3 Guð, þú hefir útskúfað oss og tvístrað oss, þú reiddist oss _ snú þér aftur að oss.
4 Þú lést jörðina gnötra og rofna, gjör við sprungur hennar, því að hún reikar.
5 Þú lést lýð þinn kenna á hörðu, lést oss drekka vímuvín.
6 Þú hefir gefið þeim, er óttast þig, hermerki, að þeir mættu flýja undan bogunum. [Sela]
7 Hjálpa þú með hægri hendi þinni og bænheyr oss, til þess að ástvinir þínir megi frelsast.
8 Guð hefir sagt í helgidómi sínum: "Ég vil fagna, ég vil skipta Síkem, mæla út Súkkót-dal.
9 Ég á Gíleað og ég á Manasse, og Efraím er hlíf höfði mínu, Júda veldissproti minn.
10 Móab er mundlaug mín, í Edóm fleygi ég skónum mínum, yfir Filisteu fagna ég."
11 Hver vill fara með mig í örugga borg, hver vill flytja mig til Edóm?
12 Þú hefir útskúfað oss, ó Guð, og þú, Guð, fer eigi út með hersveitum vorum.
13 Veit oss lið gegn fjandmönnunum, því að mannahjálp er ónýt.
14 Með Guðs hjálp munum vér hreystiverk vinna, og hann mun troða óvini vora fótum.
12 Efraím hefir umkringt mig með lygi og Ísraels hús með svikum, og Júda er enn reikull gagnvart Guði og gagnvart Hinum heilaga, sem aldrei breytist.
2 Efraím sækist eftir vindi og eltir austangoluna. Á hverjum degi hrúga þeir upp lygum og ofbeldisverkum. Þeir gjöra sáttmála við Assýríu, og olífuolía er flutt til Egyptalands.
3 Drottinn mun ganga í dóm við Júda og hegna Jakob eftir breytni hans, endurgjalda honum eftir verkum hans.
4 Í móðurkviði lék hann á bróður sinn, og sem fulltíða maður glímdi hann við Guð.
5 Hann glímdi við engil og bar hærri hlut, hann grét og bað hann líknar. Hann fann hann í Betel og þar talaði hann við hann.
6 Drottinn, Guð allsherjar, Drottinn er nafn hans.
7 En þú skalt hverfa aftur með hjálp Guðs þíns. Ástunda miskunnsemi og réttlæti og vona stöðugt á Guð þinn.
8 Kanaan _ röng vog er í hendi hans, hann er gjarn á að hafa af öðrum með svikum.
9 Og Efraím segir: "Ég er auðugur orðinn, hefi aflað mér fjár. Við allan gróða minn geta menn ekki fundið neina misgjörð, er sé synd."
10 Ég, Drottinn, er Guð þinn frá því á Egyptalandi, enn get ég látið þig búa í tjöldum eins og á hátíðardögunum.
11 Ég hefi talað til spámannanna, og ég hefi látið þá sjá margar sýnir og talað í líkingum fyrir munn spámannanna.
12 Ef Gíleað er óguðlegt, þá skulu þeir að engu verða. Af því að þeir fórnuðu nautum í Gilgal, þá skulu og ölturu þeirra verða eins og steinhrúgur hjá plógförum á akri.
13 Þegar Jakob flýði til Aramlands, þá gjörðist Ísrael þjónn vegna konu, og vegna konu gætti hann hjarðar.
14 Fyrir spámann leiddi Drottinn Ísrael af Egyptalandi, og fyrir spámann varðveittist hann.
18 Þér konur, verið undirgefnar mönnum yðar, eins og sómir þeim, er Drottni heyra til.
19 Þér menn, elskið eiginkonur yðar og verið ekki beiskir við þær.
20 Þér börn, verið hlýðin foreldrum yðar í öllu, því að það fer þeim vel, sem Drottni heyra til.
21 Þér feður, verið ekki vondir við börn yðar, svo að þau verði ekki ístöðulaus.
22 Þér þrælar, verið hlýðnir í öllu jarðneskum drottnum yðar, ekki með augnaþjónustu, eins og þeir er mönnum vilja þóknast, heldur í einlægni hjartans og í ótta Drottins.
23 Hvað sem þér gjörið, þá vinnið af heilum huga, eins og Drottinn ætti í hlut, en ekki menn.
24 Þér vitið og sjálfir, að Drottinn mun veita yður arfleifðina að launum. Þér þjónið Drottni Kristi.
25 Sá, sem rangt gjörir, skal fá það endurgoldið, sem hann gjörði rangt, og þar er ekki manngreinarálit.
4 Þér sem eigið þræla, veitið þeim það sem rétt er og sanngjarnt og vitið, að einnig þér eigið Drottin á himni.
by Icelandic Bible Society