Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
7 Davíðssálmur, er hann kvað fyrir Drottni sakir Kús Benjamíníta.
2 Drottinn, Guð minn, hjá þér leita ég hælis, hjálpa mér undan öllum ofsækjendum mínum og bjarga mér,
3 svo að þeir rífi mig ekki í sundur eins og ljón, tæti mig í sundur og enginn bjargi mér.
4 Drottinn, Guð minn, hafi ég gjört þetta: sé ranglæti í höndum mínum,
5 hafi ég illt gjört þeim er lifðu í friði við mig, eða gjört fjandmönnum mínum mein að ástæðulausu,
6 þá elti mig óvinur minn og nái mér, troði líf mitt til jarðar og varpi sæmd minni í duftið. [Sela]
7 Rís þú upp, Drottinn, í reiði þinni, hef þig gegn ofsa fjandmanna minna og vakna mér til hjálpar, þú sem hefir fyrirskipað réttan dóm.
8 Söfnuður þjóðanna umkringi þig, og tak þú sæti uppi yfir honum á hæðum.
9 Þú Drottinn, sem dæmir þjóðirnar, lát mig ná rétti mínum, Drottinn, samkvæmt réttlæti mínu og ráðvendni.
10 Lát endi á verða illsku óguðlegra, en styrk hina réttlátu, þú, sem rannsakar hjörtun og nýrun, réttláti Guð!
11 Guð heldur skildi fyrir mér, hann hjálpar hinum hjartahreinu.
12 Guð er réttlátur dómari, hann reiðist illskunni dag hvern.
13 Vissulega hvetur hinn óguðlegi aftur sverð sitt, bendir boga sinn og leggur til hæfis,
14 en sjálfum sér hefir hann búið hin banvænu vopn, skotið brennandi örvum.
15 Já, hann getur illsku, er þungaður af ranglæti og elur tál.
16 Hann gróf gröf og gjörði hana djúpa, en sjálfur fellur hann í gryfjuna er hann gjörði.
17 Ranglæti hans kemur sjálfum honum í koll, og ofbeldi hans fellur í höfuð honum sjálfum.
18 Ég vil lofa Drottin fyrir réttlæti hans og lofsyngja nafni Drottins hins hæsta.
5 Heyrið þetta orð, sem ég mæli yfir yður sem harmkvæði, þér Ísraelsmenn!
2 Fallin er mærin Ísrael, rís aldrei aftur, flöt liggur hún á sínu eigin landi, enginn reisir hana.
3 Svo segir Drottinn Guð: Sú borg, sem sendir frá sér þúsund manns, mun hafa eftir hundrað, og sú sem sendir frá sér hundrað, mun hafa eftir tíu í Ísraelsríki.
4 Svo segir Drottinn við Ísraels hús: Leitið mín, til þess að þér megið lífi halda.
5 En leitið ekki til Betel! Og til Gilgal skuluð þér ekki fara og yfir til Beerseba skuluð þér ekki halda. Því að Gilgal skal fara í útlegð og Betel verða að auðn.
6 Leitið Drottins, til þess að þér megið lífi halda. Ella mun hann ráðast á Jósefs hús eins og eldur og eyða, án þess að nokkur sé í Betel, sem slökkvi.
7 Þeir sem umhverfa réttinum í malurt og varpa réttlætinu til jarðar,
8 Hann, sem skóp sjöstjörnuna og Óríon, sem gjörir niðmyrkrið að björtum morgni og dag að dimmri nótt, sem kallaði á vötn sjávarins og jós þeim yfir jörðina, Drottinn er nafn hans.
9 Hann lætur eyðing leiftra yfir hina sterku, og eyðing kemur yfir vígi.
31 Þegar Mannssonurinn kemur í dýrð sinni og allir englar með honum, þá mun hann sitja í dýrðarhásæti sínu.
32 Allar þjóðir munu safnast frammi fyrir honum, og hann mun skilja hvern frá öðrum, eins og hirðir skilur sauði frá höfrum.
33 Sauðunum skipar hann sér til hægri handar, en höfrunum til vinstri.
34 Og þá mun konungurinn segja við þá til hægri: ,Komið þér, hinir blessuðu föður míns, og takið að erfð ríkið, sem yður var búið frá grundvöllun heims.
35 Því hungraður var ég, og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég, og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég, og þér hýstuð mig,
36 nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég, og þér komuð til mín.`
37 Þá munu þeir réttlátu segja: ,Herra, hvenær sáum vér þig hungraðan og gáfum þér að eta eða þyrstan og gáfum þér að drekka?
38 Hvenær sáum vér þig gestkominn og hýstum þig, nakinn og klæddum þig?
39 Og hvenær sáum vér þig sjúkan eða í fangelsi og komum til þín?`
40 Konungurinn mun þá svara þeim: ,Sannlega segi ég yður, það allt, sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér.`
41 Síðan mun hann segja við þá til vinstri handar: ,Farið frá mér, bölvaðir, í þann eilífa eld, sem búinn er djöflinum og árum hans.
42 Því hungraður var ég, en þér gáfuð mér ekki að eta, þyrstur var ég, en þér gáfuð mér ekki að drekka,
43 gestur var ég, en þér hýstuð mig ekki, nakinn, en þér klædduð mig ekki, ég var sjúkur og í fangelsi, en ekki vitjuðuð þér mín.`
44 Þá munu þeir svara: ,Herra, hvenær sáum vér þig hungraðan eða þyrstan, gestkominn eða nakinn, sjúkan eða í fangelsi, og hjálpuðum þér ekki?`
45 Hann mun þá svara þeim: ,Sannlega segi ég yður: Það allt sem þér gjörðuð ekki einum hinna minnstu bræðra minna, það hafið þér ekki heldur gjört mér.`
46 Og þeir munu fara til eilífrar refsingar, en hinir réttlátu til eilífs lífs."
by Icelandic Bible Society