Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
124 Hefði það ekki verið Drottinn sem var með oss, _ skal Ísrael segja _
2 hefði það ekki verið Drottinn sem var með oss, þegar menn risu í móti oss,
3 þá hefðu þeir gleypt oss lifandi, þegar reiði þeirra bálaðist upp í móti oss.
4 Þá hefðu vötnin streymt yfir oss, elfur gengið yfir oss,
5 þá hefðu gengið yfir oss hin beljandi vötn.
6 Lofaður sé Drottinn, er ekki gaf oss tönnum þeirra að bráð.
7 Sál vor slapp burt eins og fugl úr snöru fuglarans. Brast snaran, burt sluppum vér.
8 Hjálp vor er í nafni Drottins, skapara himins og jarðar.
4 Til yðar, menn, tala ég, og raust mín hljómar til mannanna barna.
5 Þér óreyndu, lærið hyggindi, og þér heimskingjar, lærið skynsemi.
6 Hlýðið á, því að ég tala það sem göfuglegt er, og varir mínar tjá það sem rétt er.
7 Því að sannleika mælir gómur minn og guðleysi er viðbjóður vörum mínum.
8 Einlæg eru öll orð munns míns, í þeim er ekkert fals né fláræði.
9 Öll eru þau einföld þeim sem skilning hefir, og blátt áfram fyrir þann sem hlotið hefir þekkingu.
10 Takið á móti ögun minni fremur en á móti silfri og fræðslu fremur en úrvals gulli.
11 Því að viska er betri en perlur, og engir dýrgripir jafnast á við hana.
12 Ég, spekin, er handgengin hyggindunum og ræð yfir ráðdeildarsamri þekking.
13 Að óttast Drottin er að hata hið illa, drambsemi og ofdramb og illa breytni og fláráðan munn _ það hata ég.
14 Mín er ráðspekin og framkvæmdarsemin, ég er hyggnin, minn er krafturinn.
15 Fyrir mína hjálp ríkja konungarnir og úrskurða höfðingjarnir réttvíslega.
16 Fyrir mína hjálp stjórna stjórnendurnir og tignarmennin _ allir valdsmenn á jörðu.
17 Ég elska þá sem mig elska, og þeir sem leita mín, finna mig.
18 Auður og heiður eru hjá mér, ævagamlir fjármunir og réttlæti.
19 Ávöxtur minn er betri en gull og gimsteinar og eftirtekjan eftir mig betri en úrvals silfur.
20 Ég geng á götu réttlætisins, á stigum réttarins miðjum,
21 til þess að gefa þeim sanna auðlegð, er elska mig, og fylla forðabúr þeirra.
15 Hafið því nákvæma gát á, hvernig þér breytið, ekki sem fávísir, heldur sem vísir.
16 Notið hverja stund, því að dagarnir eru vondir.
17 Verið því ekki óskynsamir, heldur reynið að skilja, hver sé vilji Drottins.
18 Drekkið yður ekki drukkna af víni, það leiðir aðeins til spillingar. Fyllist heldur andanum,
19 og ávarpið hver annan með sálmum, lofsöngum og andlegum ljóðum. Syngið og leikið fyrir Drottin í hjörtum yðar,
20 og þakkið jafnan Guði, föðurnum, fyrir alla hluti í nafni Drottins vors Jesú Krists.
by Icelandic Bible Society