Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

Revised Common Lectionary (Semicontinuous)

Daily Bible readings that follow the church liturgical year, with sequential stories told across multiple weeks.
Duration: 1245 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Sálmarnir 105:1-15

105 Þakkið Drottni, ákallið nafn hans, gjörið máttarverk hans kunn meðal þjóðanna!

Syngið fyrir honum, leikið fyrir honum, talið um öll hans dásemdarverk.

Hrósið yður af hans helga nafni, hjarta þeirra er leita Drottins gleðjist.

Leitið Drottins og máttar hans, stundið sífellt eftir augliti hans.

Minnist dásemdarverka hans, þeirra er hann gjörði, tákna hans og refsidóma munns hans,

þér niðjar Abrahams, þjónar hans, þér synir Jakobs, hans útvöldu.

Hann er Drottinn, vor Guð, um víða veröld ganga dómar hans.

Hann minnist að eilífu sáttmála síns, orðs þess, er hann hefir gefið þúsundum kynslóða,

sáttmálans, er hann gjörði við Abraham, og eiðs síns við Ísak,

10 þess er hann setti sem lög fyrir Jakob, eilífan sáttmála fyrir Ísrael,

11 þá er hann mælti: Þér mun ég gefa Kanaanland sem erfðahlut yðar.

12 Þegar þeir voru fámennur hópur, örfáir og bjuggu þar útlendingar,

13 þá fóru þeir frá einni þjóð til annarrar og frá einu konungsríki til annars lýðs.

14 Hann leið engum að kúga þá og hegndi konungum þeirra vegna.

15 "Snertið eigi við mínum smurðu og gjörið eigi spámönnum mínum mein."

Sálmarnir 105:16-41

16 Þá er hann kallaði hallæri yfir landið, braut í sundur hverja stoð brauðsins,

17 þá sendi hann mann á undan þeim, Jósef var seldur sem þræll.

18 Þeir þjáðu fætur hans með fjötrum, hann var lagður í járn,

19 allt þar til er orð hans rættust, og orð Drottins létu hann standast raunina.

20 Konungur sendi boð og lét hann lausan, drottnari þjóðanna leysti fjötra hans.

21 Hann gjörði hann að herra yfir húsi sínu og að drottnara yfir öllum eigum sínum,

22 að hann gæti fjötrað höfðingja eftir vild og kennt öldungum hans speki.

23 Síðan kom Ísrael til Egyptalands, Jakob var gestur í landi Kams.

24 Og Guð gjörði lýð sinn mjög mannmargan og lét þá verða fleiri en fjendur þeirra.

25 Hann sneri hjörtum Egypta til haturs við lýð sinn, til lævísi við þjóna sína.

26 Hann sendi Móse, þjón sinn, og Aron, er hann hafði útvalið,

27 hann gjörði tákn sín á þeim og undur í landi Kams.

28 Hann sendi sorta og myrkvaði landið, en þeir gáfu orðum hans engan gaum,

29 hann breytti vötnum þeirra í blóð og lét fiska þeirra deyja,

30 land þeirra varð kvikt af froskum, alla leið inn í svefnherbergi konungs,

31 hann bauð, þá komu flugur, mývargur um öll héruð þeirra,

32 hann gaf þeim hagl fyrir regn, bálandi eld í land þeirra,

33 hann laust vínvið þeirra og fíkjutré og braut sundur trén í héruðum þeirra,

34 hann bauð, þá kom jarðvargur og óteljandi engisprettur,

35 sem átu upp allar jurtir í landi þeirra og átu upp ávöxtinn af jörð þeirra,

36 hann laust alla frumburði í landi þeirra, frumgróða alls styrkleiks þeirra.

37 Síðan leiddi hann þá út með silfri og gulli, enginn hrasaði af kynkvíslum hans.

38 Egyptaland gladdist yfir burtför þeirra, því að ótti við þá var fallinn yfir þá.

39 Hann breiddi út ský sem hlíf og eld til þess að lýsa um nætur.

40 Þeir báðu, þá lét hann lynghæns koma og mettaði þá með himnabrauði.

41 Hann opnaði klett, svo að vatn vall upp, rann sem fljót um eyðimörkina.

Sálmarnir 105:42

42 Hann minntist síns heilaga heits við Abraham þjón sinn

Síðari Kroníkubók 20:1-22

20 Svo bar til eftir þetta, að Móabítar og Ammónítar og nokkrir af Meúnítum með þeim fóru á móti Jósafat til bardaga.

Og menn komu og fluttu Jósafat svolátandi tíðindi: "Afar mikill mannfjöldi kemur á móti þér handan yfir hafið, frá Edóm, og eru þeir þegar í Haseson Tamar, það er Engedí."

Þá varð Jósafat hræddur og tók að leita Drottins, og lét boða föstu um allan Júda.

Þá söfnuðust Júdamenn saman til þess að leita Drottins. Komu menn einnig úr öllum Júdaborgum til þess að leita Drottins.

En Jósafat gekk fram í söfnuði Júda og Jerúsalem, í musteri Drottins, úti fyrir nýja forgarðinum

og mælti: "Drottinn, Guð feðra vorra! Þú ert Guð á himnum, þú drottnar yfir öllum ríkjum heiðingjanna. Í þinni hendi er máttur og megin, og fyrir þér fær enginn staðist.

Þú hefir, Guð vor, stökkt íbúum lands þessa undan lýð þínum Ísrael og gefið það niðjum Abrahams vinar þíns um aldur og ævi.

Og þeir settust þar að og byggðu þér þar helgidóm, þínu nafni, og mæltu:

,Ef ógæfa dynur yfir oss, ófriður, refsidómur, drepsótt eða hallæri, þá munum vér ganga fram fyrir þetta hús og fram fyrir þig, því að þitt nafn býr í húsi þessu, og vér munum hrópa til þín í nauðum vorum, að þú megir heyra og hjálpa.`

10 Og sjá, hér eru nú Ammónítar og Móabítar og Seírfjalla-búar. Meðal þeirra leyfðir þú eigi Ísraelsmönnum að koma, þá er þeir komu frá Egyptalandi, heldur hörfuðu þeir frá þeim og eyddu þeim eigi.

11 Og nú launa þeir oss og koma til þess að hrekja oss frá óðali þínu, er þú hefir veitt oss til eignar.

12 Guð vor, munt þú eigi láta dóm yfir þá ganga? Því að vér erum máttvana gagnvart þessum mikla mannfjölda, er kemur í móti oss. Vér vitum eigi, hvað vér eigum að gjöra, heldur mæna augu vor til þín."

13 En allir Júdamenn stóðu frammi fyrir Drottni, ásamt ungbörnum þeirra, konum og sonum.

14 Þá kom andi Drottins yfir Jehasíel Sakaríason, Benajasonar, Jeíelssonar, Mattanjasonar, levíta af Asafsniðjum, þar í söfnuðinum

15 og hann mælti: "Hlýðið á allir Júdamenn og Jerúsalembúar og þú Jósafat konungur: Svo segir Drottinn við yður: Hræðist eigi né skelfist fyrir þessum mikla mannfjölda, því að eigi er yður búinn bardaginn, heldur Guði.

16 Farið í móti þeim á morgun. Þeir munu halda upp Sís-stíginn, og þér munuð mæta þeim í dalbotninum austan við Jerúel-eyðimörk.

17 En eigi þurfið þér að berjast við þá, skipið yður aðeins í fylkingu, standið kyrrir og sjáið liðsinni Drottins við yður, þér Júdamenn og Jerúsalembúar. Óttist eigi og skelfist eigi. Farið í móti þeim á morgun, og Drottinn mun vera með yður."

18 Þá laut Jósafat fram á ásjónu sína til jarðar, og allir Júdamenn og Jerúsalembúar féllu fram fyrir Drottin til þess að tilbiðja Drottin.

19 Síðan stóðu upp levítarnir, er voru af Kahatítaniðjum og Kóraítaniðjum, til þess að lofa Drottin, Guð Ísraels, með afar hárri röddu.

20 Og næsta morgun tóku þeir sig upp í býtið og fóru til Tekóa-eyðimerkur, og er þeir fóru út, gekk Jósafat fram og mælti: "Heyrið mig, þér Júdamenn og Jerúsalembúar! Treystið Drottni, Guði yðar, þá munuð þér fá staðist, trúið spámönnum hans, þá munuð þér giftudrjúgir verða!"

21 Síðan réðst hann um við lýðinn og skipaði söngvara Drottni til handa, að þeir skyldu hefja lofsöngva í helgum skrúða, þá er þeir færu út á undan hermönnunum, og segja: "Lofið Drottin, því að miskunn hans varir að eilífu."

22 En er þeir hófu fagnaðarópið og lofsönginn, setti Drottinn launsátur móti Ammónítum, Móabítum og Seírfjalla-búum, er fóru í móti Júda, og þeir biðu ósigur.

Lúkasarguðspjall 13:22-31

22 Og hann hélt áfram til Jerúsalem, fór um borgir og þorp og kenndi.

23 Einhver sagði við hann: "Herra, eru þeir fáir, sem hólpnir verða?" Hann sagði við þá:

24 "Kostið kapps um að komast inn um þröngu dyrnar, því margir, segi ég yður, munu reyna að komast inn og ekki geta.

25 Þegar húsbóndinn stendur upp og lokar dyrum og þér takið þá að standa fyrir utan og knýja á dyr og segja: ,Herra, ljúk þú upp fyrir oss!` mun hann svara yður: ,Ég veit ekki, hvaðan þér eruð.`

26 Þá munuð þér segja: ,Vér höfum þó etið og drukkið með þér, og þú kenndir á götum vorum.`

27 Og hann mun svara: ,Ég segi yður, ég veit ekki, hvaðan þér eruð, farið frá mér allir illgjörðamenn!`

28 Þar verður grátur og gnístran tanna, er þér sjáið Abraham, Ísak og Jakob og alla spámennina í Guðs ríki, en yður út rekna.

29 Þá munu menn koma frá austri og vestri, frá norðri og suðri og sitja til borðs í Guðs ríki.

30 En til eru síðastir, er verða munu fyrstir, og til eru fyrstir, er verða munu síðastir."

31 Á þeirri stundu komu nokkrir farísear og sögðu við hann: "Far þú og hald á brott héðan, því að Heródes vill drepa þig."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society