Revised Common Lectionary (Semicontinuous)
15 á tuttugasta og fjórða degi hins sjötta mánaðar, á öðru ríkisári Daríusar konungs.
2 Á tuttugasta og fyrsta degi hins sjöunda mánaðar talaði Drottinn fyrir munn Haggaí spámanns á þessa leið:
2 Mæl þú til Serúbabels Sealtíelssonar, landstjóra í Júda, og til Jósúa Jósadakssonar æðsta prests og til þeirra sem eftir eru af lýðnum, á þessa leið:
3 Hver er sá af yður eftir orðinn, er séð hefir þetta hús í sinni fyrri vegsemd, og hversu virðist yður það nú? Er það ekki einskisvert í yðar augum?
4 En ver samt hughraustur, Serúbabel _ segir Drottinn _ og ver hughraustur, Jósúa Jósadaksson æðsti prestur, og ver hughraustur, allur landslýður _ segir Drottinn _ og haldið áfram verkinu, því að ég er með yður _ segir Drottinn allsherjar _
5 samkvæmt heiti því, er ég gjörði við yður, þá er þér fóruð af Egyptalandi, og andi minn dvelur meðal yðar. Óttist ekki.
6 Því að svo segir Drottinn allsherjar: Eftir skamma hríð mun ég hræra himin og jörð, haf og þurrlendi.
7 Ég mun hræra allar þjóðir, svo að gersemar allra þjóða skulu hingað koma, og ég mun fylla hús þetta dýrð _ segir Drottinn allsherjar.
8 Mitt er silfrið, mitt er gullið _ segir Drottinn allsherjar.
9 Hin síðari dýrð þessa musteris mun meiri verða en hin fyrri var _ segir Drottinn allsherjar _ og ég mun veita heill á þessum stað _ segir Drottinn allsherjar.
145 Davíðs-lofsöngur. Ég vil vegsama þig, ó Guð minn, þú konungur, og prísa nafn þitt um aldur og ævi.
2 Á hverjum degi vil ég prísa þig og lofa nafn þitt um aldur og ævi.
3 Mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur, mikilleikur hans er órannsakanlegur.
4 Ein kynslóðin vegsamar verk þín fyrir annarri og kunngjörir máttarverk þín.
5 Þær segja frá tign og dýrð vegsemdar þinnar: "Ég vil syngja um dásemdir þínar."
17 Drottinn er réttlátur á öllum sínum vegum og miskunnsamur í öllum sínum verkum.
18 Drottinn er nálægur öllum sem ákalla hann, öllum sem ákalla hann í einlægni.
19 Hann uppfyllir ósk þeirra er óttast hann, og hróp þeirra heyrir hann og hjálpar þeim.
20 Drottinn varðveitir alla þá er elska hann, en útrýmir öllum níðingum.
21 Munnur minn skal mæla orðstír Drottins, allt hold vegsami hans heilaga nafn um aldur og ævi.
98 Sálmur. Syngið Drottni nýjan söng, því að hann hefir gjört dásemdarverk, hægri hönd hans hjálpaði honum og hans heilagi armleggur.
2 Drottinn hefir kunngjört hjálpræði sitt, fyrir augum þjóðanna opinberaði hann réttlæti sitt.
3 Hann minntist miskunnar sinnar við Jakob og trúfesti sinnar við Ísraels ætt. Öll endimörk jarðar sáu hjálpræði Guðs vors.
4 Látið gleðióp gjalla fyrir Drottni, öll lönd, hefjið gleðisöng, æpið fagnaðaróp og lofsyngið.
5 Leikið fyrir Drottni á gígju, á gígju með lofsöngshljómi,
6 með lúðrum og básúnuhljómi, látið gleðióp gjalla fyrir konunginum Drottni.
7 Hafið drynji og allt sem í því er, heimurinn og þeir sem í honum lifa.
8 Fljótin skulu klappa lof í lófa, fjöllin fagna öll saman
9 fyrir Drottni sem kemur til að dæma jörðina. Hann dæmir heiminn með réttlæti og þjóðirnar með réttvísi.
2 En að því er snertir komu Drottins vors Jesú Krists og það, að vér söfnumst til hans, biðjum vér yður, bræður,
2 að þér séuð ekki fljótir til að komast í uppnám eða láta hræða yður, hvorki af nokkrum anda né við orð eða bréf, sem væri það frá oss, eins og dagur Drottins væri þegar fyrir höndum.
3 Látið engan villa yður á nokkurn hátt. Því að ekki kemur dagurinn nema fráhvarfið komi fyrst og maður syndarinnar birtist. Hann er sonur glötunarinnar,
4 sem setur sig á móti Guði og rís gegn öllu því, sem kallast Guð eða helgur dómur. Hann sest í musteri Guðs og gjörir sjálfan sig að Guði.
5 Minnist þér ekki þess, að ég sagði yður þetta, meðan ég enn þá var hjá yður?
13 En alltaf hljótum vér að þakka Guði fyrir yður, bræður, sem Drottinn elskar. Guð hefur frá upphafi útvalið yður til frelsunar í helgun andans og trú á sannleikann.
14 Til þess kallaði hann yður fyrir fagnaðarboðskap vorn, að þér skylduð öðlast dýrð Drottins vors Jesú Krists.
15 Bræður, standið því stöðugir og haldið fast við þær kenningar, er vér höfum flutt yður munnlega eða með bréfi.
16 En sjálfur Drottinn vor Jesús Kristur og Guð, faðir vor, sem elskaði oss og gaf oss í náð eilífa huggun og góða von,
17 huggi hjörtu yðar og styrki í sérhverju góðu verki og orði.
27 Þá komu nokkrir saddúkear, en þeir neita því, að upprisa sé til, og sögðu við hann:
28 "Meistari, Móse segir oss í ritningunum, að deyi maður kvæntur, en barnlaus, skuli bróðir hans ganga að eiga ekkjuna og vekja honum niðja.
29 Nú voru sjö bræður. Sá fyrsti tók sér konu og dó barnlaus.
30 Gekk þá annar bróðirinn
31 og síðan hinn þriðji að eiga hana og eins allir sjö, og létu þeir engin börn eftir sig, er þeir dóu.
32 Síðast dó og konan.
33 Kona hvers þeirra verður hún í upprisunni? Allir sjö höfðu þeir átt hana."
34 Jesús svaraði þeim: "Börn þessarar aldar kvænast og giftast,
35 en þeir sem verðir þykja að fá hlutdeild í komandi veröld og upprisunni frá dauðum, kvænast hvorki né giftast.
36 Þeir geta ekki heldur dáið framar, þeir eru englum jafnir og börn Guðs, enda börn upprisunnar.
37 En að dauðir rísi upp, það hefur jafnvel Móse sýnt í sögunni um þyrnirunninn, er hann kallar ,Drottin Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs.`
38 Ekki er hann Guð dauðra, heldur lifenda, því að honum lifa allir."
by Icelandic Bible Society